Stóriðja í Hvalfirði

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:31:48 (7259)

2001-05-09 11:31:48# 126. lþ. 117.6 fundur 559. mál: #A stóriðja í Hvalfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort erfitt verði að fylgja öðrum þjóðum eftir, því að fari allt eins og stjórnvöld hafa í hyggju muni álframleiðslan aukast með þeim hætti sem hér var dregið fram upp í 500--600 þús. tonn eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi.

Það verður ekki erfitt svo framarlega sem sérákvæði Íslands verður samþykkt. Sérákvæðið gengur út á það að allt sem kemur inn eftir 1990, sú aukna álframleiðsla verður utan skuldbindinga Íslands, þessarar 10% tölu sem við fengum í aukningu í Kyoto. Sérákvæðið tekur því á þessu.

Búið er að reikna út hvað þetta sérákvæði þarf að rúma til að við getum farið í þessa framleiðslu. Það þarf að rúma 1,6 millj. tonna í koldíoxíðígildum en utan við þá tölu eru flúorkolefnisefnin, eins og komið var inn á í svarinu áðan. Það er því spurning hvernig tekið verður á þeim efnum af því að þau rúmast ekki innan sérákvæðisins. Eins og ég fjallaði um áðan í svari mínu verður tekið á því í samningum við fyrirtækin. Sérákvæði Íslands tryggir að Ísland getur tekið þátt í loftslagsmálunum á vettvangi Kyoto-bókunarinnar, verði hún samþykkt sem ég vona, með öðrum þjóðum. En við ættum afskaplega erfitt með það ef sérákvæðið væri ekki inni. Þetta hafa þjóðir heims sýnt skilning á og áttað sig á að við erum það lítið hagkerfi að ein framkvæmd hér sveiflar svo hátt upp losun okkar í prósentum talið og þess vegna er sérákvæðið komið á lokastig í sambandi við þessa samninga.