Úrbætur í málefnum fatlaðra

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:41:37 (7262)

2001-05-09 11:41:37# 126. lþ. 117.7 fundur 605. mál: #A úrbætur í málefnum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þó að það sé vissulega rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þarna er um að ræða tillögur um úrbætur sem falla undir mun fleiri ráðuneyti en félmrn. og það sé kannski lítið annað að gera en að senda skýrsluna til viðkomandi ráðuneyta, þ.e. dóms- og kirkjumrn., menntmrn. og samgrn., þá er það samt sem áður þannig að málefni fatlaðra falla undir félmrn. og það hlýtur að vera á ábyrgð hæstv. félmrh. að fylgja ítarlega eftir þeim tillögum sem fram koma í þeirri skýrslu sem skilað var í október 1999.

Mér sýnist við lestur skýrslunnar að þarna sé um að ræða kostnað sem getur numið hundruð millj. kr. ef farið er í allar þær úrbætur sem lagðar eru til í skýrslunni. Það kom mér því verulega á óvart að hún skyldi ekki vera höfð til hliðsjónar í viðræðum við sveitarfélögin um yfirfærsluna á þessum málaflokki yfir til sveitarfélaganna. Það kom mér verulega á óvart, ekki síst í ljósi þess að mig minnir að hæstv. ráðherra hafi hér úr ræðustól lagt áherslu á að nauðsynlegt væri að hafa slíka skýrslu, láta vinna hana og gera úttekt áður en viðræðum við sveitarfélögin lyki þannig að skoða mætti hver staðan væri.

Skýrslan kom mér á óvart. Ég hélt satt að segja að við værum mun betur á vegi stödd en raun ber vitni og það eru ótrúlegustu atriði sem koma fram í henni þar sem fatlaðir búa alls ekki við sama rétt og við hin til að njóta þess sem þjóðfélagið býður upp á. Það hlýtur að vera verkefni hæstv. félmrh. fyrst og fremst að fylgja þeim tillögum eftir sem þarna eru og að það liggi algerlega fyrir áður en málaflokkurinn er fluttur yfir til sveitarfélaganna hver sá kostnaður er sem hlýst af því að farið er í þessar úrbætur.