Atvinnuleysisbætur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:54:33 (7267)

2001-05-09 11:54:33# 126. lþ. 117.8 fundur 700. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Rétt er að halda því til haga, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði réttilega, að viðkomandi kona sem neitað var um atvinnuleysisbætur fékk starf sem hún er ánægð með. Vonandi er það í flestum tilfellum sem þannig rætist úr.

Starfsfólk á vinnumiðlunum vinnur vandasamt starf og það er náttúrlega viss freisting fyrir þá sem eru að leita eftir atvinnuleysisbótum að fara í einhverjum tilfellum á fremstu nöf. Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að úrskurðarnefnd komist í nokkrum tilfellum að því að mál hafi ekki verið réttilega meðhöndluð hjá starfsfólkinu á vinnumiðlununum. Ég tel að þetta skipulag sem tekið var upp, og m.a. hv. fyrirspyrjandi lagði vinnu í að koma á á sínum tíma, hafi reynst vel og orðið til mikillar hjálpar fyrir fólk við að finna vinnu og jafnframt auðvitað til að sjá til þess að atvinnuleysibætur væru ekki misnotaðar.