Tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:56:19 (7268)

2001-05-09 11:56:19# 126. lþ. 117.9 fundur 701. mál: #A tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn er reyndar nátengd fyrri fyrirspurn minni því að hún lýtur að atvinnumöguleikum fatlaðra. Mig langar til að vitna í skrif Halldórs Gunnarssonar, formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar, þar sem hann skilgreinir verkefnið. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á síðasta ári opnaðist nýr möguleiki upp á hálfa gátt, atvinna með stuðningi. Hugmyndin að baki henni er snjöll og afar einföld eins og önnur tær snilld: Einstaklingur með skerta starfsgetu fær nauðsynlegan stuðning til vinnu á venjulegum vinnustað. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík reið hér á vaðið með tilraunaverkefni í samvinnu við Styrktarfélag vangefinna undir stjórn Árna Más Björnssonar. Reynslan af þessu verkefni og mikil eftirspurn sýnir að leggja þarf enn meira í atvinnu með stuðningi enda kostirnir ótvíræðir hvernig sem á málið er litið. Fatlaði einstaklingurinn vinnur í eðlilegu starfsumhverfi innan um ófatlaða þar sem menn blanda geði hverjir við aðra og reynslan sýnir að slík samskipan hefur afar góð áhrif á starfsandann. Verkefni við hæfi eru þegar til, aðeins þarf að leita þau uppi. Þótt fleira starfsfólk þurfi til stuðnings til að byrja með má leiða líkur að því að þetta sé fjárhagslega hagkvæmt: Ekki þarf að leggja í stofn- og rekstrarkostnað verndaðs vinnustaðar, markaðsstarf vegna framleiðslu sparast, fjárhagsleg áhætta er engin og ríkið þarf minna að borga í bætur. Fatlaðir fá þess í stað tækifæri til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið.``

Þetta sagði í skrifum Halldórs Gunnarssonar, formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar. Hann vitnar einnig í Ottó B. Arnar, varaformann Átaks, sem hafði komist svo að orði, með leyfi forseta:

,,Það skiptir okkur sem erum fötluð svo miklu máli að hafa vinnu eins og aðrir en vegna þess að við erum fötluð þurfum við að berjast fyrir því sem öðrum þykir sjálfsagt. Því miður búum við sem fyrr við óréttlæti í þessum efnum í þessu landi. Ég bið ykkur sem eruð fötluð eða með þroskahömlun og hafið misst vinnu að gefast ekki upp því að það er sama og láta yfirbugast.``

Fyrirspurn mín er þessi, með leyfi forseta:

,,Hver hefur verið árangur tilraunaverkefnisins ,,Atvinna með stuðningi`` og hvaða áform eru uppi um framtíð þess?``