Tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:04:10 (7270)

2001-05-09 12:04:10# 126. lþ. 117.9 fundur 701. mál: #A tilraunaverkefnið "Atvinna með stuðningi"# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:04]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að taka þátt í sameiginlegu átaki undir heitinu ,,Vinnumarkaður fyrir alla``. Ég vil taka þátt í átakinu árið 2001 um vinnumarkað fyrir alla núna og ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans. Hann rakti sögu þessara mála og umfang starfseminnar á Reykjanesi og Reykjavík einkum og sér í lagi.

Það sem er mikilvægt í máli hans er að hann staðhæfir að reynslan af þessu átaki hafi verið mjög góð. Þess vegna er spurning mín sú hvort hann telji nóg að gert. Reyndar sagði hann að Vinnumálastofnun mundi eflaust skoða þau mál. Mér er t.d. tjáð af hálfu þeirra sem sinna þessu verkefni í Reykjavík að þar hafi 28 einstaklingar farið út á vinnumarkað. Starfmenn í tveimur og hálfu stöðugildi sinna þessu verkefni. Það eru um 10 manns á hvern einstakling og má ekki vera meira að því er mér er sagt til þess að sómasamlega og vel sé að verki staðið.

Ég vil hvetja til þess að hæstv. félmrh. fylgist grannt með því að Vinnumálastofnun og aðrir þeir aðilar sem eiga að fjármagna þetta verkefni geri það og að aukið verði við það framlag sem til þessarar starfsemi er ætlað. Ljóst er að fólki sem þarf aðstoð af þessu tagi mun fjölga á vinnumarkaði og mikilvægt að sú aðstoð komi til sögunnar strax og fólk kemur út úr skólakerfinu. Ég tel því sýnt að hér þurfi að leggja heldur betur í en þakka fyrir það sem er þó vel gert í þessum efnum.