Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:14:57 (7274)

2001-05-09 12:14:57# 126. lþ. 117.10 fundur 606. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kemur í ljós að það er í raun og veru ákveðinn tvískinnungur sem felst í viðurkenningu heilbrigðiskerfisins á því að áfengis- og fíkniefnaneysla sé sjúkdómur. Eins og kom fram í framsögu minni er um sjúkdóm að ræða þegar fullorðnir einstaklingar sækja sér meðferð á heilbrigðisstofnun sem fellur undir heilbrrn. Hins vegar er annað uppi á teningnum þegar um er að ræða barn eða ungmenni sem ánetjast fíkniefnum og verður mjög alvarlega veikt, og það er staðreynd sem verður að fara að horfa til mun skýrar en gert hefur verið að það er um alvarleg veikindi að ræða. Barnið fær hins vegar meðferð sína á heimili sem fellur undir félmrn., Barnaverndarstofu, og þá er ekki tekið þátt í ferðakostnaði fjölskyldu þessa unga sjúklings ef fjölskyldan vill taka þátt í meðferðinni. Menn leggja áherslu á mikilvægi þess að fjölskyldan sé þátttakandi í meðferðarstarfi. Verið er að setja upp meðferðarheimili vítt og breitt um landið en það er þannig að flest þeirra ungmenna sem hafa ánetjast fíkniefnum eru á höfuðborgarsvæðinu enda býr hér stærsti hluti þjóðarinnar. Þessir einstaklingar fara í meðferð langt frá heimabyggð sinni.

Árið 1999 sagði þáv. hæstv. heilbrrh. að það væri löngu orðið tímabært að samræma reglur sem giltu varðandi þennan málaflokk innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustunnar. Ég vil því skora á nýjan hæstv. heilbr.- og trmrh. sem kemur ferskur til starfa að hann fari í endurskoðun á þessum reglum og samræmingu þannig að foreldrar þessara ungu sjúklinga búi ekki við allt aðrar aðstæður en foreldrar annarra ungra sjúklinga eða annarra barna sem eiga við erfiða sjúkdóma að stríða.