Lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:44:15 (7285)

2001-05-09 12:44:15# 126. lþ. 117.12 fundur 617. mál: #A lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:44]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hennar. Þau voru nokkuð á þá lund sem ég átti von á, þ.e. að ekki eru mörg ungmenni skikkuð á skilorðstíma til að fara í meðferð. Það er í samræmi við það sem kom fram í erindi Ingibjargar Benediktsdóttur sem flutt var á ráðstefnu um sakhæf börn. Erindið heitir reyndar: Staða sakhæfra barna á aldrinum 15--18 ára sem sakborninga --- meðferð og möguleg refsiúrræði. Þar segir hún mjög skýrt að vandinn sé sá að dómstólar leysa ekki fíkniefnavanda unglinga með því að beita þessari heimild, þ.e. þeirri heimild sem spurningin fjallar um, ef ljóst er að ekki er fyrir hendi pláss á sjúkrastofnunum og vilji er ekki fyrir hendi hjá stjórnvöldum til að leysa þann vanda.

[12:45]

Hún tekur einnig fram að vissulega mætti beita auknum þrýstingi af hálfu dómstóla á stjórnvöld til þess að fleiri meðferðarúrræði væru til staðar með því að beita oftar þessu ákvæði, en hins vegar sé það ekki rétt því að ef settar eru heimildir í lögin um mismunandi refsiúrræði þá á auðvitað að vera hægt að fylgja þeim eftir.

Það er því miður þannig að þegar beitt er sértækum ákvæðum á fullnustutíma þá eru ekki alltaf aðstæður til þess að fylgja eftir. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan eru menn m.a. dæmdir til að gangast undir meðferð hjá sálfræðingi á meðan á skilorði stendur.

Það væri hins vegar fróðlegt að velta því fyrir sér hvort það væri brot á skilorði að ef einstaklingur mætti ekki í tíma hjá sálfræðingi þá yrði hann sviptur frelsi. Og hver á að líta eftir því? Hvernig við getum framfylgt þeim lögum sem eru í gildi er auðvitað spurning sem við hljótum að velta fyrir okkur hverju sinni og finna bestu leiðirnar.