Skólaskip fyrir grunnskólanemendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:52:13 (7288)

2001-05-09 12:52:13# 126. lþ. 117.13 fundur 696. mál: #A skólaskip fyrir grunnskólanemendur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Skólaskipið Dröfn er tilraunaverkefni sem sjútvrn., Hafrannsóknastofnun og Fiskifélag Íslands standa að. Efnt var til þess á Ári hafsins árið 1998 og skyldi flestum íslenskum ungmennum í elstu bekkjum grunnskóla gefast tækifæri til að kynnast sjómennsku og rannsóknum er tengjast hafinu. Nefndin sem lagði til að farið yrði í tilraunaverkefni lagði til að það skyldi vera tímabundið af hendi ríkisvaldsins og þótti eðlilegt að leitað yrði eftir þátttöku sveitarfélaganna sem reka grunnskólana í landinu í verkefninu.

Að skólaskipsverkefninu er staðið með myndarlegum hætti. Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélag Íslands hafa haft umsjón með framkvæmd þess og var rannsóknaskipið Dröfn RE-35, 150 tonna stálskip leigt í verkefnið í 60 daga á ári, en skipið er rekið af Hafrannsóknastofnuninni. Líffræðingur frá Hafrannsóknastofnuninni er um borð og fræðir nemendur um hafrannsóknir og þær lífverur sem veiðast.

Á þeim þremur skólaárum sem skipið hefur starfað sem skólaskip hafa hátt í sex þúsund nemendur farið í fræðsluferðir með skólaskipinu. Nemendur koma úr rúmlega 50 skólum landsins frá næstum 20 sveitarfélögum.

Viðbrögð við þessu nýja skólaskipsverkefni hafa verið á einn veg, mikil og almenn ánægja með það, bæði nemenda og kennara. Spurn eftir að komast í ferðir hefur verið miklu meiri en hægt hefur verið að anna.

Það er samdóma álit þeirra sem að því hafa komið að mjög vel hafi tekist til. Og þó að sumir nemenda hafi fundið fyrir sjóveiki, eða fundist fiskvinnslan um borð heldur ógeðfelld hafa allir nemendur farið reynslunni ríkari frá borði.

Hver ferð með skólaskipinu tekur um þrjár klukkustundir. Farnar eru tvær ferðir á dag og er fjöldi nemenda oftast á bilinu 12--17. Tekið er á móti nemendum á þilfari skipsins og fer stýrimaður yfir öll helstu björgunartæki. Í matsal skipsins fá nemendur fræðslu um hafið í kringum Ísland, 200 mílna efnahagslögsöguna og tilgang hennar, ásamt því að ræða mikilvægi hafsins sem auðlindar og umgengni um hana.

Lögð var áhersla á haf- og fiskirannsóknir og mikilvægi þeirra og nemendum sýnd stutt myndbönd um rannsóknir á þorski. Spjallað var við nemendur um lífverur sjávar og rædd hugtök, svo sem hrygning, hængur, seiði, lirfa og veiðistofn. Síðan eru veiðarfæri og veiðiaðferðir kynntar. Skoðað er í krabbagildrur, síðan er botnvarpa sett út, einstakir hlutar hennar útskýrðir og hugtök sem notuð eru í því sambandi.

Nemendum þykir mikið til koma allur hamagangurinn og lætin. Á meðan togað er safnast nemendur fyrir í matsalnum og eru þeim sýnd myndbönd með neðansjávarmyndum þar sem vel sést hvernig botnvarpan dregst eftir botninum og veiðir og hvernig fiskar lenda í vörpunni.

Rétt fyrir hífingu safnast nemendur fyrir í brú skipsins og þar segir skipstjórinn þeim frá stjórntækjum og hlutverki þeirra. Þar koma fyrir framandi orðasambönd eins og stjórnborði og bakborði, baujur og gírakompás og spinnast þá skemmtilegar umræður.

Nemendurnir rifja líka upp og setja það sem þau læra í skólanum í samhengi við þessa umræðu. Til að mynda reyna þau að reikna hraða skipsins, mílur á klukkustund yfir í kílómetra á klukkustund og heimfæra stefnu skipsins á gráðubogann sinn.

Þegar botnvarpan er hífð er aflinn skoðaður og nemendur látnir spreyta sig á að þekkja fisktegundir. Fiskarnir eru krufnir og meltingarvegurinn, hjartað og taugakerfið skoðað og innihaldið greint. Þegar búið er að gera helstu líffræðilegu athuganir á fiskinum er nemendum kennt að gera að aflanum og ganga frá honum. Og þegar í land er komið fá allir sem vilja að taka heim með sér þá fiska sem þeir höfðu gert að og flakað.

Verkefnisstjórn hefur umsjón með skólaskipsverkefninu. Hún fékk það tvíþætta verkefni að kanna áhuga á rekstri svona fræðsluskips annars vegar, en einnig að freista þess að fá sveitarfélögin sem reka grunnskólann til að koma að fjármögnum rekstrar þess. Kostnaður við skólaskipið hefur verið um 11 millj. á ári undanfarin þrjú ár.

Verkefnisstjórn þykir sýnt að mikill áhugi er á skólaskipi meðal skólafólks og eldri árganga grunnskólabarna. Þrátt fyrir umtalsverða umfjöllun um skólaskipið í fjölmiðlum hefur þessi áhugi og ánægja með þá fræðslu sem þar fer fram hvorki skilað sér til sveitarstjórnarmanna, aðstandenda skólastarfsins, skólabarna, né annarra sem láta fjárveitingar sveitarfélaga til sín taka. Í stuttu máli má segja að allir vilji hafa skólaskip en enginn taka þátt í að borga fyrir það.

Verkefnisstjórn hefur gert tvær atrennur að því að virkja sveitarstjórnendur til þátttöku í rekstri skólaskipsins. Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði formlega 18. ágúst sl. að styrkja verkefnið og telur heldur ekki mögulegt að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga taki þátt í fjármögnun þess.

Að þessu svari fengnu var öllum sveitarfélögum í landinu sent erindi í gegnum svæðisbundin samtök sveitarfélaga. Heimtur voru ekki góðar og meiri hluti þeirra sveitarfélaga sem svöruðu höfnuðu því að vera með. Þó lýstu innan við tíu sveitarfélög, flest lítil, sig reiðubúin til þátttöku.

Ljóst virðist því vera að sveitarfélögin muni ekki koma að verkefninu í sameiningu og erfitt er að sjá hvernig hægt er að koma því saman að reka skipið einungis fyrir börn úr þeim sveitarfélögum sem hafa lýst vilja til að koma að rekstri þess. Fyrir liggur að tilraunatími verkefnisins er liðinn og verður því að óbreyttu hætt um næstu áramót. Sjútvrn. og Alþingi hlupu um síðustu áramót undir bagga og tryggðu rekstur skipsins í ár í viðbót.

Herra forseti. Sjútvrn. telur verkefnið mikilvægt og vill þess vegna áfram leggja fram helming af núverandi kostnaði við rekstur þess og hefur svigrúm til þess innan síns ramma. En til þess að rekstur skipsins sé tryggður þarf að koma til jafnhá upphæð til viðbótar, herra forseti.