Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:36:09 (7292)

2001-05-09 13:36:09# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi miðvikudagur og miðvikudagurinn fyrir viku segja heilmikla sögu. Á þeim fyrra miðvikudegi, þegar menn höfðu í upphafi fundar tækifæri til að ræða málin, ræddu menn af miklu kappi og áfergju um agúrkur eins og menn muna. Seinna um daginn komu fréttir um að gengið hefði fallið um 6% frá deginum áður. Það varð mikið uppþot og gauragangur hér í húsinu. Talað var um að það ætti að fara að senda þingið, eins og það er orðað, í vinnuviku, nefndaviku. Talað var um að þetta væri blóðugasti dagurinn í efnahagslífi Íslendinga. Og ekki nóg með það heldur sagði hv. síðasti ræðumaður við það tækifæri að hér væri allt að hruni komið vegna þessa atburðar.

Nú hefur þessi 6% gengisfelling öll gengið til baka. Eins og gengið stendur í dag er öll 6% gengisfellingin gengin til baka. Blóðið er sem sagt runnið í æðarnar aftur. Stundum er sagt að erfitt sé að koma tannkremi inn í tannkremstúpu, sem út úr henni er komið, en það hefur líka þótt erfitt að koma í æðar blóði sem úr þeim hefur runnið.

En svona var gauragangurinn þá. Hér var allt komið á heljarþröm. Við sögðum, einhverjir, að menn ættu að halda ró sinni, enda væri bersýnilegt að þetta væri gengislækkun sem ekki ætti rót að rekja til efnahagslegra staðreynda. En það kom maður í sjónvarpsþátt og sagði: ,,Ég hef verið sakaður um að segja að sprengja mundi springa, nú er hún sprungin.`` Ég mundi nú ekki betur en sprengjan væri þá að springa í sjötta sinn. Það man ég frá mínum gamlárskvöldum að sprengjur sem sprungu sex sinnum voru ekki sprengjur, það voru púðurkerlingar. Þegar maður hugsar til púðurkerlingarinnar þá verður nú stutt í púðurkarlinn.

Sprengjan var sem sagt að springa endanlega. En nú er hún sem sagt afsprungin, væntanlega, fyrst hún sprakk við þessa 6% gengislækkun sem er öll gengin til baka í dag. Síðast þegar fréttist var hún öll gengin til baka. Auðvitað má vel vera að þetta sveiflist eitthvað til í dag, það getur vel verið. Ég hef ekki hugmynd um það og við sjáum það klukkan fjögur. (Gripið fram í.) Við sjáum það klukkan fjögur. En frá því á miðvikudaginn, þegar ósiðlegt þótti að senda þingið, eins og það var orðað, í vinnuviku án þess þess að grípa til aðgerða þá hefur hinn hræðilegi atburður allur gengið til baka. Þetta segir manni að fara eigi varlega í hin stóru orð og miklu upphlaup. Menn mega ekki fá þann stimpil á sig að þeir séu eingöngu upphlaupsmenn sem lifa fyrir upphlaupin. Menn mega ekki tala mjög óvarlega, m.a. út frá efnahagslegum ástæðum. Þessi saga sannar okkur það svo ekki sé meira sagt.

Hér var nefnt að Seðlabankinn hefði talið að ef allt gengi fram eins og bankinn mæti það yrði verðbólgan innan settra markmiða, innan viðmiðunarmarka. Hv. málshefjandi sagði hér áðan að ef þessi 6% gengislækkun gengi ekki til baka þá yrði hún ekki innan viðmiðunarmarka. Þau hafa nú gengið til baka í dag, aðeins viku síðar. Menn fundu að það var rangt hjá stjórnarandstöðunni að gengislækkunin ætti rót í efnahagslegum staðreyndum á Íslandi. Það er þýðingarmikið að menn átti sig á því að breytingarnar sem þarna urðu áttu sér ekki rót í efnahagslegum staðreyndum á Íslandi.

Það var mjög fróðlegt að sömu aðilar og höfðu kallað eftir því að Seðlabankinn fengi aukið sjálfstæði og fagnað því heimtuðu örfáum vikum síðar að gripið yrði til aðgerða upp á gamla mátann af hálfu ríkisins, ekki bankans. Það var nú allur stöðugleikinn. Það var eiginlega meira flökt í stjórnmálamönnum en í genginu og er þá mikið sagt.

Reyndar er eiginlega þýðingarmeira að minna flökt sé í stjórnmálamönnum. Það gerir minna til þótt flökt sé í genginu til og frá eins og fyrirkomulagið. Því var komið á fyrir forgöngu ríkisstjórnarinnar í góðri sátt við stjórnarandstöðuna að því er maður hélt. En þeir hurfu frá því á örfáum dögum með sama hætti og leiðtogi Samfylkingarinnar sem sagði fyrir átta mánuðum að það ætti að bregðast við þenslunni með því að hækka skatta. Hann kemur nú og leggur til að skattar verði lækkaðir, átta mánuðum síðar. Það er ekki hald í einu eða neinu heldur hlaupið frá, þar er flökt, ekki um 6% heldur um 60% í stefnu, frá því að stórhækka skatta í að lækka þá. Þannig er ekki hægt að haga sér í efnahagsmálum.

Ríkisstjórnin mun fylgja fast fram þeirri stefnu sem hún hefur fylgt. Hún mun sýna aðgæslu og gætni eins og hún hefur gert. En hún mun líka halda ró sinni. Það er meginviðfangsefni stjórnmálamanna að halda ró sinni þó að eitthvað smávegis dynji á, rétt eins og skipstjóri á skútu. Sá skipstjóri sem stykki fyrir borð við minnsta goluþyt, ef ölduhæðin er komin í tvo metra, yrði ekki lengur skipstjóri á bátnum.