Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:57:34 (7300)

2001-05-09 13:57:34# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér finnst þingmenn Framsfl. hv. standa sig mjög vel við að framfylgja stefnu síðasta þings Framsfl. Þeir falla hins vegar á prófinu í málefnalegri umræðu.

Það er alveg rétt sem fram kom í þeirra máli að VG, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, hefur varað við stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar. Það höfum við gert á forsendum umhverfismála, en einnig efnahagsmála. Við höfum varað við því að Landsvirkjun og ríkisstjórnin steypi þjóðinni í skuldir vegna óskynsamlegra áforma af þessu tagi.

Herra forseti. Engum dylst að miklar blikur eru á lofti í efnahagsmálum og brýnt er að okkur takist að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir í efnahagslífinu. Á einu ári hefur gengi krónunnar fallið um á milli 20 og 30 prósent.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans er raungengi krónunnar núna komið niður í það sama og hún var á árinu 1984, skömmu eftir eina umdeildustu gengisfellingu sem ég man eftir alla vega, þegar ríkisstjórnin reyndi að hafa umsamdar launahækkanir af fólki eftir langt og strangt verkfall það haust. Það er nefnilega þetta sem gerist þegar gengið fellur. Þá hækka aðföngin, verðbólgan fer í gang. Þumalputtareglan var alla vega sú að það mætti reikna með kjararýrnun sem næmi helmingi af gengisfallinu. Við skulum vona að þetta gerist ekki. Við þurfum að grípa til ráðstafana sem sporna gegn því að verðlagið spinnist upp á við.

Ríkisstjórnin segist búa yfir staðfestu. Það var eiginlega það eina sem kom fram í máli hæstv. forsrh., þ.e. sá ásetningur að halda ró sinni. Jafnvel þótt viðskiptahallinn sé núna kominn í 70 milljarða, meiri en hann hefur nokkurn tímann verið, þótt skuldir þjóðarinnar séu hærri en þær nokkru sinni hafa verið, þá ætlar hæstv. ráðherra að búa áfram við staðfestu.

Ég saknaði bara eins, að hann léki fyrir okkur á fiðlu. Við höfum ágætt fordæmi um slíkt við svipaðar aðstæður úr fornum sögum.