Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 14:18:30 (7308)

2001-05-09 14:18:30# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Herra forseti. Þegar við vorum að ræða þetta mál síðast í hv. Alþingi óskaði ég eftir því að hæstv. viðskrh. yrði viðstödd. Umræðunni var þá frestað þar sem iðn.- og viðskrh. gat ekki verið viðstödd og ég vil þess vegna ítreka hvort ég geti ekki haldið áfram ræðu minni þar sem ég hvarf frá henni að viðstaddri hæstv. iðnrh.

(Forseti (HBl): Það er von á því að hæstv. iðnrh. gangi í húsið. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi tök á að víkja að einhverjum þáttum málsins án þess að iðnrh. sé við. Hún er gagnkunnug málinu og getur kannski getið í eyðurnar.)

Herra forseti. Í trausti þess að hæstv. iðnrh. muni birtast hér mun ég fara yfir fyrri hluta ræðu minnar og ræða um þau atriði sem ég hafði áður nefnt og stikla þar á stóru og vona að þegar ég verð búinn að rifja upp það sem ég áður sagði verði hæstv. iðnrh. viðstödd það sem eftir er umræðunnar.

Herra forseti. Ég var búinn að ræða um það að sala sveitarfélaganna á Vestfjörðum væri nauðvörn og að sú hlutafélagavæðing sem við erum nú að framkvæma sé eingöngu í afgreiðslu hér til þess að koma fram sölu á hlut sveitarfélaganna í orkubúinu. Ég var einnig búinn að ræða um það, herra forseti, að slík breyting, sem gerð er grein fyrir í grg. með frv., væri ætluð til þess að sveitarfélögin á Vestfjörðum gætu farið að borga skuldir í félagslega íbúðakerfinu. Þetta var ég búinn að nefna, hæstv. forseti, í ræðu minni.

Ég var einnig búinn að greina frá því í ræðunni að ég teldi að enginn sveitarstjórnarmaður á Vestfjörðum hefði látið að því liggja við síðustu sveitarstjórnarkosningar að það væri stefna hans eða framboðs hans að selja orkubúið til þess að greiða fjármagnsskuldir í félagslega íbúðakerfinu. Þessi orð lét ég falla m.a. vegna þess að þau orð höfðu verið viðhöfð í umræðunni að umrædd breyting væri ætluð til þess að sveitarfélögin á Vestfjörðum gætu, eins og kemur fram í grg. frv., selt eignarhlut sinn og farið að greiða niður skuldir til ríkisins í félagslega íbúðakerfinu, að það hefði ekki verið að vilja heimamanna. Sá vilji var a.m.k. ekki kynntur í síðustu sveitarstjórnarkosningum og ég minnist þess ekki að hafa heyrt hans getið fyrr en verulega var liðið á þetta kjörtímabil sveitarstjórna sem nú er eftir rúmt ár af.

Ég veit því ekki til þess að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum hafi sótt umboð til kjósenda sinna í þá veru að það væri þeirra göfugasta markmið á kjörtímabilinu að selja eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Þvert á móti held ég að sveitarfélögin og sveitarstjórnarmenn hafi frekar látið að því liggja að orkubúið væri ein af undirstöðunum og gott fyrirtæki til að byggja á frekari atvinnusköpun á Vestfjörðum. Ég mótmæli því að salan á orkubúinu sem fyrirhuguð er sem afleiðing af hlutafélagavæðingu orkubúsins sé sérstakt áhugamál Vestfirðinga, ég held að svo sé alls ekki. Það gæti verið og er sennilega núna orðið sérstakt áhugamál nokkurra sveitarstjórnarmanna, en margir held ég að hafi takmarkaðan áhuga á því að þurfa að fara þá leið sem hefur verið sett upp fyrir þá með þessu frv.

Niðurstaðan af þessum vangaveltum mínum í fyrri kafla ræðu minnar var því sú að íbúar Vestfjarða, kosningabærir menn og konur, hafi ekki veitt sveitarstjórnarmönnum umboð í síðustu sveitarstjórnarkosningum til að selja Orkubú Vestfjarða. Því hafi verið öðruvísi farið og þar af leiðandi sé ekki um almennan vilja íbúanna að ræða.

Síðan vék ég að því í ræðu minni að Vestfirðingar væru teknir sértökum að þessu leyti og ætluð sérstök aðferð við að taka á sig skuldir vegna fólksfækkunar í félagslega íbúðakerfinu og að á vandamálinu, sem væri vissulega þekkt annars staðar á landinu, meira að segja vel þekkt því miður, væri ekki tekið heildstætt heldur væri verið að setja sérstaka löggjöf um sölu á orkubúinu, breytingu á því í hlutafélag og síðan sölu, eins og kemur fram í grg., til þess að á Vestfjörðum mætti taka sérstaka aðferð við afgreiðslu félagslegra skulda. Ég vakti athygli á því að taka ætti þetta sérstökum tökum á Vestfjörðum en ekki annars staðar á landinu. Þessu væri ég algjörlega ósammála og teldi að þessi vandi væri víða fyrir hendi á öðrum stöðum á landinu og á þessum vanda ætti að taka heildstætt varðandi lausn en ekki að ákveða það að eina sameiginlega eign sveitarfélaganna á Vestfjörðum, orkubúið, skyldi gert að sérstakri söluvöru í þessu sambandi og að þeir peningar færu þá hringferð frá ríkinu og aftur inn til ríkisins í gegnum félagslega íbúðakerfið.

Og nú er ég kominn þangað í ræðu minni, herra forseti, þar sem ég hefði gjarnan viljað að hæstv. iðnrh. gæti verið viðstaddur.

(Forseti (HBl): Fundinum er frestað í fimm mínútur.)