Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:07:41 (7310)

2001-05-09 15:07:41# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð óvenjulegt að veita andsvar við ræðu sem flutt var fyrir hálfum mánuði. Skýringin er sú að hv. þm. flutti fyrri hluta ræðu sinnar 26. apríl. Hann hafði þar rangt eftir mér og þess vegna bað ég um andsvar sem ég fæ að veita núna þegar hv. þm. hefur lokið flutningi ræðunnar.

Hv. þm. sagðist hafa það beint eftir mér að frv. væri flutt að frumkvæði allra Vestfirðinga, allra heimamanna, eins og hann orðaði það. Þetta er rangt og ég skil ekki hvers vegna hv. þm. er með svona málflutning.

Það sem ég sagði var, og má lesa hér í útskrift af ræðu minni, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er til komið að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfirðinga ... Frumvarpið sjálft er byggt á samkomulagi allra sveitarfélaga á Vestfjörðum.``

Það er auðvitað himinn og haf á milli þess hvort menn segja að frv. sé flutt að frumkvæði fjórðungssambandsins og hins að það sé að frumkvæði allra heimamanna á Vestfjörðum. Ég vona að hv. þm. leiðrétti þetta.

Í öðru lagi sagði hv. þm. að þetta væri ekki vilji Vestfirðinga heldur væru menn settir í þá stöðu að verða að selja. Ég spyr: Hver er að setja þá í þessa stöðu? Ég las það á milli línanna að það væri þetta vonda ríkisvald. Mér finnst afar ósanngjarnt að láta að því liggja að ríkið sé að pína þetta fram. Ríkið er að þessu vegna óskar sveitarfélaganna, Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hér er ekki verið að ákveða neina sölu heldur er eingöngu ákveðið að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Það verður svo hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það vill selja hlut sinn eða ekki.

Fyrir hálfum mánuði sagði hv. þm. að ríkið ætti frekar að selja sinn hlut í fyrirtækinu. Ég get út af fyrir sig alveg verið sammála því. Veit hv. þm. um einhvern sem vill kaupa þetta? Hann vísar í sölu á Hitaveitu Suðurnesja, ég býst við að ríkið væri alveg tilbúið til þess að selja.

Hv. þm. sagði áðan að það hefði verið eitthvert ákvæði um það varðandi söluna á Hitaveitu Suðurnesja að andvirðinu yrði varið til tvöföldunar Reykjanesbrautar. Þetta er alrangt. Það getur vel verið að einhver hafi sagt þetta í umræðu hér á þinginu en það er ekki stafkrókur um þetta í neinu þingmáli.

Í síðasta lagi vil ég ítreka það sem ég sagði við umræðuna fyrir hálfum mánuði. Þetta frv. er flutt að ósk sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, fulltrúa allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Alþingismenn eiga ekki að hafa vit fyrir þeim. Það væri forræðishyggja.