Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:09:51 (7311)

2001-05-09 15:09:51# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég gert hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni upp orð þá er ég meira en fús til að draga það til baka. Ég stend hins vegar við orð mín um þann búning sem frv. hefur verið fært í og ætla að vitna til þess, herra forseti, en þar stendur:

,,Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Í þeim viðræðum kom fram sú hugmynd að ríkissjóður keypti hlut þeirra sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða sem það vildu ...``

Síðar segir: ,,Í ljósi framangreinds var það niðurstaða eigenda að æskilegt væri að breyta rekstrarformi fyrirtækisins, ...`` --- M.a. til þess að geta selt það síðar.

Jafnframt segir í frv.: ,,Því gerðu sameigendur Orkubús Vestfjarða 7. febrúar sl. með sér samkomulag um breytt rekstrarform fyrirtækisins í kjölfar þess að viðkomandi sveitarstjórnir samþykktu slíka breytingu.``

Það hefur greinilega komið fram að til stendur að selja hluti sveitarfélaganna í orkubúinu til þess að takast á við ákveðinn fjárhagsvanda. Það gengur enginn Vestfirðingur að því gruflandi að þannig er málið til komið. Þá aðgerð sem á eftir fylgir og fjallað er um í grg. þessa frv. tel ég í andstöðu við vilja meginþorra Vestfirðinga.