Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:17:10 (7315)

2001-05-09 15:17:10# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom greinilega fram á fundi sem haldinn var síðasta haust á Ísafirði um málefni orkubúsins að Vestfirðingar gerðu sér mætavel grein fyrir því að þeir gætu þurft að greiða hærra orkuverð og svo gæti orðið til þess að halda fyrirtækinu í eignarböndum Vestfirðinga. Þeir gerðu sér auðvitað jafnframt grein fyrir því að væri fyrirtækið verðlagt á yfirverði og selt til annarra, fyrst til ríkisins og síðan kannski frá ríkinu til Rariks, þá yrði það kaupverð sett inn í rekstrarreikning viðkomandi fyrirtækis og neytendurnir mundu borga til baka smátt og smátt þann kostnað sem fyrirtækið hefur. Það liggur alveg ljóst fyrir þannig að kaupverðið hvert sem það verður, hvort sem það er yfirverð eða ekki yfirverð, mun auðvitað smátt og smátt verða tekið til baka af þeim sem ætla að selja þjónustuna. Hvort sem það verður áfram Orkubú Vestfjarða í eignarformi ríkisins eða hvort það verður eftir sameiningu við Rarik, þá verður sá kostnaður, fjármagnskostnaður og eignarkostnaður, auðvitað tekinn til baka með því að orkan er seld og tekjurnar teknar inn þannig.