Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:58:33 (7328)

2001-05-09 15:58:33# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sem víða annars staðar axla þá ábyrgð sem þeir ráða við. En þeir eru ekki þarna einir á ferð, það eru miklu fleiri. Ríkisvaldið hefur líka mikil áhrif á það hvernig þeim tekst að axla þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig og ríkisvaldið spilar þar náttúrlega afar stórt hlutverk.

Eins og við vitum hefur þróunin orðið sú víða um land að svigrúm sveitarstjórnarmanna til þess að gera það sem þá langar til og telja nauðsynlegt að gera fyrir íbúa sína hefur ekki verið mikið einmitt vegna skertra tekna og þröngrar stöðu sem ríkisvaldið hefur búið þeim. Því miður er þetta svona.

Herra forseti. Ég verð að segja að miðað við það sterka framkvæmdarvald sem býr í ráðuneytunum okkar og þá þröngu fjárhagsstöðu sem mörg þessara sveitarfélaga eru í og hefur verið tíunduð og ekki dregin í efa og er að mörgu leyti komin til meira að segja af samfélagslegum og pólitískum toga í byggða- og atvinnumálum eins og hv. þm. kom inn á, þá hef ég enga trú á öðru en að þau muni fylgja eftir þessari yfirlýsingu sem þau krefjast að sé lögð fram um leið og þessi samningur er undirritaður. Því miður, herra forseti, held ég að sú krafa sé býsna sterk sem sett var fram af hálfu ráðuneytanna við undirskrift á þessum samningi 7. febrúar sl. og muni standa sem krafa á sveitarfélögin ef þau hugsa sér að hreyfa sig varðandi sölu á þessu. Því miður, herra forseti.