Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 18:11:39 (7335)

2001-05-09 18:11:39# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fyrst og fremst ein fullyrðing sem mér fannst hafa komið fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals sem ég vil gera athugasemd við. Hún var sú að menn hefðu farið út í að byggja félagslegar íbúðir af lítilli forsjá og þau sveitarfélög sem við erum að ræða um, sem eru vestfirsk sveitarfélög, hafi þá e.t.v. sum hver eins og hann sagði sýnt ábyrgðarleysi eða hefðu verið ábyrgðarlaus í byggingu félagslegra íbúða.

Það vill þannig til, hv. þm., að þegar þessar félagslegu íbúðir voru byggðar var atvinnulíf í talsverðri uppsveiflu og ég hygg að eingöngu hafi verið byggðar íbúðir sem urðu síðan fullsetnar eftir að þær voru byggðar. Hins vegar hefur löggjöfin um stjórn fiskveiða orðið til þess að atvinnutækifærum á Vestfjörðum hefur verulega fækkað. Komið hefur fram í skýrslu, m.a. skýrslu Byggðastofnunar, að veruleg fækkun hefur orðið, nánast sama fækkun á störfum og íbúum, t.d. í Ísafjarðarbæ. Ég held að það sé kannski ekki hægt að skrifa þetta á sveitarfélögin þó að ég ætli ekki að fullyrða það alveg, að hvergi hafi verið byggt um of en ég hygg þó að víðast hvar, eftir því sem ég þekki til, hafi menn verið að byggja samkvæmt þeirri þörf sem var til staðar á þeim tíma.