Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 18:18:34 (7341)

2001-05-09 18:18:34# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þá spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég tel að málflutningur hans hafi verið þess eðlis að hv. þm. átti sig fyllilega á málatilbúnaðinum. Það er alveg öruggt að ef menn hefðu ekki komist niður á þessa lausn með að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna á þennan hátt þá værum við e.t.v. ekki í þeirri stöðu að fjalla um þetta frv. Frv. sem slíkt í öðru samhengi getur verið ásættanlegt fyrir hv. þm. þar sem hann er mikill hlutafélagavæðingarmaður. En ég spyr hv. þm. hvort hann hafi ekki efasemdir um að styðja frv. þegar öllum er ljóst hvernig málatilbúnaðurinn er og hver ástæðan er fyrir því að verið er að fara í þessa hluti einmitt núna á þessum tímapunkti vegna þess að afleiðingarnar koma ekki fram fyrr en á næstu missirum og árum þar sem þær koma fram í verðmæti fyrirtækisins og sennilega orkuverði og ekki bara á Vestfjörðum heldur annars staðar í hinum dreifðu byggðum.