Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 18:25:44 (7347)

2001-05-09 18:25:44# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í upphafi máls míns um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða langar mig til að forvitnast um það við hæstv. forseta hvort hæstv. félmrh. sé í húsinu. Ég hefði áhuga á því að beina til hans spurningum þar sem þetta mál snýr svo mjög ákveðið að félagslega íbúðakerfinu, búsetu og atvinnumálum á Vestfjörðum.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill tilkynna að hæstv. félmrh. er ekki í húsinu en mun kanna um ferðir ráðherra.)

Ég þakka, herra forseti. Ef þessari umræðu verður frestað er hugsanlegt að bíða með þær spurningar til hæstv. félmrh. ef sú staða er uppi.

Herra forseti. Í þessari umræðu um Orkubú Vestfjarða um að breyta því í hlutafélag hefur verið stiklað á ýmsu varðandi aðdraganda þessa máls. Í Morgunblaðinu 21. mars árið 2000 er svohljóðandi fyrirsögn, með leyfi hæstv. forseta: Viðræður um kaup ríkisins á Orkubúi Vestfjarða að hefjast. Og áfram segir, með leyfi forseta:

,,Viðræður hefjast fljótlega milli stjórnvalda og sveitarfélaganna á Vestfjörðum um hugsanleg kaup Rafmagnsveitu ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Bókfært eigið fé orkubúsins er rúmir fjórir milljarðar, en í skýrslu sem Kaupþing hefur gert er komist að þeirri niðurstöðu að raunverð sé heldur lægra.

Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagði að umræða um hugsanleg kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða væri til komin vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Sveitarfélögin ættu flest við mjög alvarlegan vanda að stríða. Staða Vesturbyggðar væri mjög alvarleg og Ísafjörður og Bolungarvík stæðu einnig frammi fyrir miklum fjárhagsvanda.

Páll sagði að ástæður þessa vanda væru ýmsar. Fólki hefði fækkað á Vestfjörðum. Mörg sveitarfélög hefðu orðið fyrir áföllum í atvinnumálum sem hefðu leitt til þess að skuldir hefðu fallið á sveitarsjóðina. Þá ætti félagslega húsnæðiskerfið mikinn þátt í því hvernig komið væri fjárhag sveitarfélaganna. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hefðu orðið að innleysa 140 íbúðir á reiknuðu verði í samræmi við lagaskyldu. Útistandandi skuldir sveitarfélaganna vegna þessa væru um 1,8 milljarðar króna. Tekist hefði að breyta nokkrum þessara íbúða í leiguíbúðir, en nú stæðu um 70 íbúðir í eigu sveitarfélaganna á Vestfjörðum auðar.

Páll sagði að vandi sveitarfélaganna vegna félagslegs húsnæðis væri til sérstakrar skoðunar í félagsmálaráðuneytinu, en það væri þó ljóst að ef ríkið keypti hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða mundu möguleikar þeirra til að standa í skilum á lánum sem hvíldu á félagslegu íbúðunum batna verulega. Hann sagði að í sumum sveitarfélögum væru lán sem hvíldu á íbúðunum í vanskilum. Það ætti þó ekki við um Bolungarvík þar sem öll lán væru í skilum þrátt fyrir að sveitarfélagið ætti margar félagslegar íbúðir.``

[18:30]

Herra forseti. Ég les þetta hér í upphafi til að það sé alveg ljóst hvernig þessi umræða fór af stað. Hér hefur verið togast á um það hvernig hún hófst, hvort sveitarfélögin hefðu farið fram á þetta, Fjórðungssamband Vestfjarða, ríkið eða ráðuneytið. Í ljósi þeirrar stöðu sem ég hef aðeins drepið á er ljóst að það skiptir í rauninni ekki meginmáli. Aðalmálið er að sveitarfélögin á Vestfjörðum standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum vanda af sértækum ástæðum, vanda sem tengist ekki orkubúskapnum eða þeim atvinnurekstri sem byggir á orkuöflun og orkudreifingu heldur byggir á hreint óskyldri starfsemi. Það hefur meira að segja komið fram, herra forseti, að Orkubú Vestfjarða skaffar byggðum sínum rafmagn á lægra verði en t.d. Rafmagnsveitur ríkisins gera á dreifisvæðum sínum þannig að ekki er þar til að dreifa ástæðu þess að gengið er að orkubúinu til þess að létta á vanda Vestfirðinga, fjarri því.

Það er líka vert að gera sér grein fyrir því, herra forseti, að þjónusta orkubúsins í þessum erfiða landsfjórðungi hefur eftir atvikum einmitt verið mjög góð þannig að ekki er heldur sú ástæða fyrir hendi til þess að ganga að Vestfirðingum og reyna að taka af þeim orkubúið. Nei, ástæðan er vandi sem er til komin vegna byggða- og búseturöskunar, er til kominn vegna stefnu eða stefnubreytingar og áherslubreytingar stjórnvalda í atvinnumálum, í byggðamálum. Þannig liggur málið. Þar liggur meginmeinsemd þessa máls.

Það kom tímabil á Vestfjörðum og víða út um dreifðar byggðir landsins að uppgangur var og bjartsýni og skortur var á húsnæði og atvinnufyrirtækjum. Og að sjálfsögðu brugðust sveitarfélög, íbúarnir, við með því að reyna að leysa þar úr og koma til móts við þarfirnar. Sveitarfélögin á Vestfjörðum bjuggu ekki til félagslega íbúðakerfið. Það held ég að öllum verði að vera ljóst. Félagslega íbúðakerfið á sínum tíma var hluti af opinberri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum, opinberri stefnu sem fleiri aðilar komu að, ekki bara ríkið heldur sveitarfélögin, verkalýðshreyfingin, önnur samtök atvinnulífsins og lífeyrissjóðirnir. Sameiginlegt átak, sameiginlegt verkefni, fjölmargra stórra aðila og sterkra í landinu stóð að baki félagslega íbúðakerfinu.

Herra forseti. Meira að segja þurfti, að ég best veit, ekki aðeins að gera nákvæma greiningu á þörf fyrir íbúðarhúsnæði á viðkomandi stöðum, viðkomandi sveitarfélögum eða viðkomandi svæðum, heldur þurfti hver afgreiðsla að fá staðfestingu frá opinberum aðilum í Reykjavík. Það var því ekki eins og um sjálfkrafa og sjálfvirkt útrennsli á byggingarleyfum til íbúða á Vestfjörðum væri að ræða, fjarri því. En að sjálfsögðu stóðu sveitarfélög á Vestfjörðum frammi fyrir nákvæmlega sömu kröfum frá íbúum sínum og öll önnur sveitarfélög um að leysa íbúðavandann á hverjum tíma.

Það var síðan ekki sveitarfélögunum á Vestfjörðum að kenna að byggðastefnan brást. Kannski gætu sveitarfélögin á Vestfjörðum lögsótt ríkisvaldið fyrir að hafa ekki staðið við þá byggðastefnu sem Alþingi hafði samþykkt og framkvæmdarvaldinu var falið að útfæra því undanfarin ár höfum við búið við samþykktar byggðaáætlanir sem framkvæmdarvaldinu hefur verið falið að fylgja eftir. Ef þegnar þessa lands eiga að taka mark á --- sem þeir eiga að gera --- samþykktum og gerðum Alþingis þá stóð ekki í þeim byggðaáætlunum að íbúum ætti að fækka í dreifbýli landsins. Nei, herra forseti. Samkvæmt þeirri byggðaáætlun sem samþykkt var og ætlað var íbúar landsins treystu og tækju mark á, þá átti að fjölga í hinum dreifðu byggðum landsins. Samkvæmt slíkum skilyrðum og forsendum er alltaf þörf fyrir íbúðir, alltaf þörf fyrir atvinnutækifæri.

Herra forseti. Því er það afar ósanngjarnt sem hér hefur verið látið að liggja, að vandi félagslega íbúðakerfisins sé að einhverju leyti sjálfskaparvíti Vestfirðinga. Það er afar rangt að láta að því liggja. (Gripið fram í: Hver gerir það?) Það hefur verið gert, hv. þm. Sagt hefur verið að þeir hafi gengið langt í glannalegum fjárfestingum í íbúðarhúsnæði, jafnvel án heimilda. En þeir voru aðeins virkir þátttakendur í að byggja upp blómlegt Ísland.

Síðan þegar þessar byggðaáætlanir standast ekki, þegar atvinna er ekki örugg, þegar atvinnutækifærin, nýting auðlindanna, flyst frá byggðunum til annarra svæða á landinu þá standa íbúar þessara byggða uppi ráðalausir. Þeir héldu að verið væri að fylgja eftir byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar en standa svo frammi fyrir því að eitthvað allt annað gerist. Fólk býr auðvitað ekki nema þar sem það hefur trygga atvinnu og þjónusta er góð. Þjónustan er víða góð í þessum byggðarlögum en atvinnan og atvinnuöryggið hefur látið undan síga. Eðlilega flytur fólk þangað sem það fær atvinnu, að sjálfsögðu. Þessar íbúðir voru byggðar til að mæta þörfum viðkomandi íbúa viðkomandi sveitarfélaga á sínum tíma við þær aðstæður sem þeim hafði verið lofað í byggðaáætlunum ríkisstjórnarinnar um fjölgun íbúa á landsbyggðinni og eflingu atvinnulífs. Þeim hafði líka verið lofað þessu í sambandi við lögin um stjórn fiskveiða. En lögin um stjórn fiskveiða áttu einmitt að tryggja og efla atvinnu úti um byggðir landsins. Þessu var þeim öllu lofað. En sveitarfélögin sem tóku þátt í þessu sem hluta af sameiginlegri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum hafa náttúrlega engin tök á að bregðast við vandanum. Þau hafa ekki safnað þeim sjóðum enda er ekki ætlast til þess að þau safni sjóðum þegar þau eru í rauninni bara að gera það sem ætlast er til af þeim sem ábyrgum sveitarfélögum gagnvart þegnum sínum. Því standa þau uppi með það að íbúðirnar tæmast og fjárskuldbindingarnar lenda fyrst á þeim. Og hversu sanngjarnt sem það er þá var því svo fyrir komið að allir þeir aðilar sem áttu hlutdeild að sáttmálanum um félagsíbúðakerfið voru svo lagnir við að koma því þannig fyrir að ábyrgðin féll fyrst á sveitarfélögin. Og, herra forseti, það er bundið í lögum, lögum sem Alþingi hefur sett en ekki sveitarfélögin. Þau axla bara ábyrgðina. Því er þetta svo ósanngjarnt.

Og svo nú þegar staðið er frammi fyrir þeirri staðreynd að fjárskuldbindingarnar vegna félagslega íbúðakerfisins eru að sliga sveitarfélögin þannig að þau eiga í erfiðleikum með að standa undir lögboðinni þjónustu, eiga í erfiðleikum með að veita íbúum sínum félagslegt öryggi og þjónustu sem ætlast er til af þeim, og þau leita síðan til ríkisvaldsins, þess aðila sem átti hlutdeild í þessu og hafði lagt fram þá stefnumörkun í byggðamálum sem sveitarfélögin treystu á, og spyrja: ,,Hvernig eigum við nú að bregðast við?`` Þá eru svörin: ,,Þetta er ekki okkar mál. Þetta er algerlega ykkar mál.``

Staðan heldur svo áfram að versna og sveitarfélögin sum hver sem eiga í mestu erfiðleikunum koma aftur til ríkisvaldsins og spyrja: ,,Hvað eigum við nú að gera?`` Þá fer ríkisvaldið að athuga hvað sé hægt að gera. ,,Við skulum sjá. Eiga þessi sveitarfélög eitthvað sem væri kannski hægt að taka af þeim upp í þessar skuldir? Jú, Orkubú Vestfjarða.`` Þegar sveitarfélögin koma svo og bera upp sinn vanda sem er sameiginlegur vandi þeirra stjórnvalda, og erfiðleika sem eru til komnir vegna stefnu stjórnvalda þá segja þau: ,,Jú, við skulum ræða við ykkur um orkubúið. Það er alveg sjálfsagt. Við skulum fara í ykkar bestu fjós og leita að ykkar bestu mjólkurkúm og sjá hvað við getum þá gert í þessum skuldamálum.``

Þetta er upphaf viðræðna um kaup ríkisins á Orkubúi Vestfjarða sem hefur síðan farið í það ferli sem við erum nú að upplifa, eins og ég rakti hér, herra forseti, í upphafi máls míns með því að vitna í viðtal við hæstv. félmrh.

Síðan heitir það í allri umræðu að hugmyndin sé komin frá Vestfirðingum sjálfum. Já, hugmyndin er komin þannig frá Vestfirðingum sjálfum. En það er fróðlegt að vita hvað er verið að gera varðandi félagslegu íbúðirnar, hvað þar er verið að vinna til að koma til móts við ekki bara sveitarfélög á Vestfjörðum heldur sveitarfélög um allt land.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 27. október er gerð grein fyrir framhaldinu í ítarlegri grein sem Helgi Bjarnason, ágætur fréttamaður og dálkahöfundur hjá Morgunblaðinu, vann um stöðu orkubúsins. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þær umræður sem nú fara fram um framtíð Orkubús Vestfjarða eiga sér nokkurra ára aðdraganda. Svo virðist sem sveitarfélögin hafi ekki litið á hlut sinn í orkubúinu sem eign, eins og sést á ákvæðum um fljótandi eignaraðild. Kristján Haraldsson orkubússtjóri segir að þetta hafi byrjað að breytast við sameiningar sveitarfélaga. Þegar Ísafjarðarbær varð til með sameiningu margra sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum hafi eignarhluturinn komið til umræðu vegna þess að ríkisstuðningur sem þau fengu til einhverra viðfangsefna hafi verið skertur vegna eignar þeirra í orkubúinu. Eftir það hafi sveitarstjórnarmenn farið að líta á orkubúið sem eign.``

[18:45]

Herra forseti. Fólk leit á þetta sem félagslega sameign. Það leit á þetta sem hluta í uppbyggingu á almannaþjónustu í fjórðungnum. Það leit á þetta sem grunnstoðþátt fyrir búsetu, fyrir uppbyggingu atvinnulífs. Það leit ekki á þetta sem einhverjar eignir sem gætu gengið kaupum og sölum, eignir þar sem menn velti sérstaklega fyrir sér einhverjum hámarksarði eða arðkröfum til þess fjármagns sem sett var í það, sem það gæti skilað til eigenda sinna. Nei, íbúarnir litu á þetta fyrst og fremst sem þjónustustofnun, þjónustufyrirtæki til að styðja við byggð, til að styðja við búsetu og til þess að styðja við atvinnulíf á svæðinu. Þeir höfðu ekki einu sinni eignfært þetta því að maður eignfærir ekki það sem maður telur vera hluta af sjálfum sér og þannig litu íbúar Vestfjarða á.

Síðan, með leyfi forseta, er fjallað áfram um hvað gerist:

,,Síðar tók bæjarstjórn Vesturbyggðar af skarið og óskaði eftir sölu á eignarhlut sínum í orkubúinu en bæjarfélagið hefur sem kunnugt er átt í miklum fjárhagserfiðleikum á undanförnum árum. Jón Gunnar Stefánsson bæjarstjóri segir að sala eigna sé eina leiðin til að leysa fjárhagsvanda Vesturbyggðar.``

Það er alveg skýrt. Það er ekki verið að leita að einhverjum hagkvæmari kosti í rekstri orkubúsins. Nei, það hefur verið þrengt svo að sveitarfélögunum að þau verða að fara að leita að sínum bestu gripum, sínum dýrustu gripum til þess að leggja upp með til að greiða skuldir sem eru til komnar vegna allt annarra og óskyldra hluta.

Í umfjöllun Helga Bjarnasonar er einmitt lögð áhersla á að gjaldskrá orkubúsins er einhver sú lægsta í landinu. Það selur t.d. rafmagn til almennings á 20% lægra verði en Rarik að sögn orkubússtjórans og fyrirtæki geta fengið rafmagn á allt að 30% lægra verði en fyrirtæki á orkuveitusvæði Rariks.

Getum við hugsað okkur nokkra betri stöðu fyrir eitt samfélag með svo mikilvægt þjónustufyrirtæki, almannaþjónustufyrirtæki sem getur veitt íbúum sínum og fyrirtækjum við erfiðar aðstæður í búsetu, við erfiðar aðstæður í atvinnulífi, orku á mun lægra verði en ýmsir aðrir þurfa að gera?

Herra forseti. Þessi rekstur getur því ekki verið ástæðan fyrir því að brýnt sé að taka orkubúið af Vestfirðingum upp í skuldir. Það hefur alltaf legið fyrir í umræðunni eftir að hún fór í gang og ég vitna þar aftur til ágætrar umfjöllunar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu föstudaginn 27. okt. árið 2000, með leyfi forseta:

,,Fyrir liggur að ríkið setur sveitarfélögunum skilyrði um ráðstöfun á hluta söluandvirðisins. Þorgeir Örlygsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, staðfestir að rætt hafi verið um að kaupverðinu yrði ráðstafað með tilteknum hætti, til þess að greiða ákveðnar skuldir, en segist ekki geta tjáð sig nánar um það. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er í þessu sambandi meðal annars verið að ræða um skuldajöfnun vanskila sem sum sveitarfélögin á Vestfjörðum eiga við Íbúðalánasjóð vegna félagslega íbúðakerfisins. Jón Gunnar Stefánsson, bæjarstjóri á Patreksfirði, segir að fjórðungur af hugsanlegu söluandvirði hlutabréfa Vesturbyggðar fari til að greiða vanskil í félagslega íbúðakerfinu.``

Og áfram, með leyfi forseta, því að þetta er svo ágæt umfjöllun sem þessi ágæti blaðamaður vann fyrir Morgunblaðið:

,,Margir sveitarstjórnarmenn vilja alls ekki blanda sölu á eignarhlut sínum í Orkubúi Vestfjarða saman við lausn á þeim ógöngum sem þeir hafa ratað í ...`` --- Ógöngum, þeir eru þegar farnir að taka á sig skuldina. Það er búið að innprenta Vestfirðingum að það sé þeim að kenna þær ógöngur sem hann segir að þeir hafi ratað í. Vissulega rötuðu þeir í ógöngur en hvaða ástand þrengdi þeim út í þessar ógöngur? Það var stefna ríkisisins og ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem gerði það og það að aðrir aðilar sem stóðu að félagsíbúðakerfinu hlupu undan, virðast hafa hlaupið undan böggum þegar á bjátaði en bera samt þarna fulla ábyrgð. --- ,,Þór Örn Jónsson, sveitarstjóri á Hólmavík, segist vilja fá hreinar línur í félagslega íbúðakerfið áður en afstaða verður tekin til kauptilboðs ríkisins í orkubúið. Vekur hann athygli á að félagslega íbúðakerfið sé ekki vandi Vestfirðinga einna, heldur sveitarfélaga um allt land og ríkið þurfi að koma að lausn þess á landsvísu.``

Herra forseti. Liggur sú lausn á landsvísu fyrir? Áður en við afgreiðum frv. um hlutafélagavæðingu Orkubús Vestfjarða, sem er ætlað sem liður í að ríkið geti keypt ákveðna hluti þar af sveitarfélögunum sem eiga í mestu erfiðleikum til þess að standa straum af skuldbindingum í félagslega íbúðakerfinu, þá finnst mér að það eigi að liggja fyrir heildstæð stefna, heildstæð lausn, heildstæðar úrlausnir á vanda félagslega íbúðakerfisins hjá öllum sveitarfélögum á landinu. Ég hygg, herra forseti, að sveitarfélögin séu farin að átta sig á því að byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar, samþykkt hér á Alþingi og falin framkvæmdarvaldinu til þess að koma í framkvæmd, mun ekkert standast. Hún hefur ekki staðist undanfarin ár og það eru engir tilburðir í þá veruna í dag að hún standist á næstu mánuðum eða árum.

Í stað þess sem þar var lofað, að íbúum á landsbyggðinni mundi víða fjölga mun það fara á hinn veginn að óbreyttri stefnu í byggðamálum eins og verið hefur. Sveitarfélög víða um land standa í auknum erfiðleikum vegna stöðu félagslega íbúðakerfisins. Þess vegna ber, herra forseti, að taka heildstætt á þeim málum og kynna þar heildstæðari úrlausnir áður en Alþingi samþykkir þvingunaraðgerðir gagnvart Vestfirðingum vegna þessa máls.

Lokaorð Helga Bjarnasonar í þessari ágætu umfjöllun í Morgunblaðinu, herra forseti, 27. okt. árið 2000, eru:

,,Það háa verð sem sveitarfélögunum virðist standa til boða, yfirverð eins og sumir kjósa að nefna það, verður samkvæmt heimildum Morgunblaðsins að skoða í ljósi þeirra skilyrða`` --- ljósi þeirra skilyrða, herra forseti, leyfi ég mér að ítreka --- ,,sem sveitarfélögunum verða sett um ráðstöfun söluandvirðis hlutabréfanna. Þannig er því haldið fram að ríkið sé að greiða fyrir lausn á vanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum vegna félagslega íbúðakerfisins með því að bjóðast til þess að greiða yfirverð fyrir bréfin í Orkubúi Vestfjarða. Ekki hugnast öllum þessi blanda enda virðist afstaða sumra sveitarstjórnarmanna til sölu á orkubúinu ráðast af afstöðu þeirra til þess vanda sem félagslega íbúðakerfið hefur skapað þeim.``

Herra forseti. Ítrekað í allri umfjöllun um Orkubú Vestfjarða er verið að fjalla um vanda félagslega íbúðakerfisins en ekki þann vanda sem Vestfirðingar standa frammi fyrir við rekstur orkubúsins. Ég vil vekja athygli á því. Verið er að fjalla um vanda félagslega íbúðakerfisins og skuldir sveitarfélaganna vegna skuldbindinga þeirra vegna og vegna þess að byggðastefna ríkisstjórnarinnar hefur brugðist. En Orkubú Vestfjarða getur samt útvegað íbúum sínum og stutt þá með því að veita þeim rafmagn, einstaklingum og fyrirtækjum, á hagstæðara verði en víða annars staðar á landinu. Þá þykir ástæða til að stíla inn á stolt Vestfirðinga til að leysa skömm byggðastefnu ríkisstjórnarinnar í skipbroti hennar.

Herra forseti. Víða er hægt að vitna til þar sem vegið hefur verið að sjálfsvirðingu íbúa og sveitarfélaga á Vestfjörðum í þessum aðdraganda. Í stað þess að koma beint að málinu og taka á fjárhagslegum vanda þeirra, viðurkenna að þetta er sameiginlegt mál, þetta er sameiginleg skuld, þetta er sameiginlegt viðfangsefni sem við eigum að takast á við og ætti bara þess vegna að afgreiða með eingreiðslum eða greiðslum beint til þess að losa sveitarfélögin úr þessum klafa, þá er áfram verið að hjakka í það og sagt: Við ræðum ekki lausn, við ræðum ekki leiðir í ykkar mikla fjárhagsvanda fyrr en þetta hefur gengið í gegn.

Ég leyfi mér að vitna í viðtal Helga Bjarnasonar 23. nóv. árið 2000 við Jón Gunnar Stefánsson, bæjarstjóra Vesturbyggðar, sem barist hefur í því að reka sitt ágæta sveitarfélag við mjög erfiðar aðstæður en ávallt verið settur upp við þann vegg að sala á Orkubúi Vestfjarða væri það fyrsta sem þar yrði að gerast til að koma að málum þar. Fyrirsögnin er: Komnir á endastöð, með leyfi forseta:

,,Jón Gunnar Stefánsson bæjarstjóri þarf að nýta alla sína reynslu og þekkingu við rekstur Vesturbyggðar sem er eitt af verst stöddu sveitarfélögum landsins. Hann hefur bundið vonir við að salan á Orkubúi Vestfjarða geti leyst vandann en segir Helga Bjarnasyni að til þess að byggðin geti staðist þurfi íbúar svæðisins einnig að fá frjálsari aðgang að fiskimiðunum.``

Hann segir að það muni ekkert verða nóg í sjálfu sér og engin framtíðarlausn fyrir þetta byggðarlag þó svo að takist að taka af þeim orkubúið og létta skuldir þeirra þannig. Nei, það er í sjálfu sér engin lausn, herra forseti. Það er engin lausn á framtíðarvonum og væntingum íbúa þessa sveitarfélags sem vilja eiga aðgang að náttúruauðlindunum fyrir ströndum sínum til að byggja þar upp blómlegt og sterkt atvinnulíf. Það er engin lausn.

Þess vegna er enn dapurlegra, herra forseti, að ætla að ganga að Orkubúi Vestfjarða, taka það með þeim hætti til að létta á skuldum, létta á vanda þessara sveitarfélaga án þess að taka á framtíðaratvinnumöguleikum þeirra. Orkubúið verður ekki selt nema einu sinni, það gera allir þessir aðilar sér ljóst. Þess vegna er ítrekað hér, herra forseti, að það þarf að breyta um stefnu. Vestfirðingar verða að eiga forgangsrétt til náttúruauðlindanna meðfram ströndum landsins, þeir verða að geta nýtt sér þær til að byggja upp blómlegt og öruggt atvinnulíf. Orkubúið verður bara selt einu sinni, og ef það verður, sem við vonum náttúrlega að verði ekki, hvað eigum við þá að selja næst þegar við stöndum frammi fyrir þeim vanda, herra forseti? Þetta er málið í hnotskurn.

[19:00]

Ég leyfi mér að vitna áfram, herra forseti, í orð bæjarstjóra Vesturbyggðar, ekki síst vegna þess að ítrekað hefur komið fram í umræðunni að Vesturbyggð hafi verið fyrsta byggðin sem var knúin til að óska eftir því að leitað yrði heimildar til þess að það mætti selja orkubúið. Til að lýsa því betur, með leyfi forseta, vil ég vitna áfram í viðtal við ágætan bæjarstjóra Vesturbyggðar: Komnir á endastöð:

,,Bæjarsjóður Vesturbyggðar sem nær yfir Patreksfjörð, Bíldudal og sveitirnar í Vestur-Barðastrandarsýslu er djúpt sokkinn í skuldafenið eftir áföll vegna atvinnulífs og eyðslu umfram tekjur fyrr á árum.``

Já, það skal aldeilis velta þeim upp úr því. Er það sanngjarnt? Er það sanngjarnt að væna sveitarfélögin um einhverja óráðsíu eins og þarna er verið að drótta að? Auðvitað verða sveitarfélögin að að reyna af fremsta megni að standa undir þeirri lögboðnu þjónustu sem þeim er falin. Þegar tekjurnar hrökkva ekki til, herra forseti, hvað verður sveitarfélagið að gera? Auðvitað verður það að taka lán. Það að reyna að standa á bak við grunnþarfir íbúa sinna er kölluð eyðsla.

Herra forseti. Dapurlegt er að fylgjast með þessari umfjöllun, hvernig stöðugt í þessum aðdraganda öllum er verið að tala á vissan hátt niður til Vestfirðinga og segja: Þetta er vandinn sem þið bjugguð til. Ég mótmæli því, herra forseti. Þetta er vandinn sem stefna ríkisstjórnarinnar bjó til og henni ber að hafa frumkvæði til að leysa --- ekki á þann hátt að reyna að taka eignir af íbúunum eða fólkinu sem þarna er heldur að axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og gjörðum sínum og afleiðingum þeirra.

Með leyfi forseta:

,,Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar var Jón Gunnar Stefánsson, sem verið hafði bæjarstjóri í Grindavík í sextán ár, ráðinn bæjarstjóri. Hlutverk hans var að reyna að ná tökum á rekstrinum. Virðist það hafa tekist. Þannig var bæjarsjóður með jákvæðan rekstur á síðasta ári, útgjöldin námu 75% af tekjum. Jón Gunnar segir að í ár hefði mátt búast við svipuðum árangri ef ekki hefði komið til verulegra afskrifta krafna sem koma til lækkunar á tekjum sveitarsjóðs á þessu ári.``

Og síðan, herra forseti:

,,Þetta hefur gengið, með skilningi íbúanna. Við höfum ekkert getað gert fyrir þá og umhverfi okkar,`` segir þessi ágæti bæjarstjóri. ,,Við erum komnir á endastöð og förum hvergi á stjá því við getum ekki efnt til útgjalda og skulda sem fyrir fram er vitað að ekki verður hægt að greiða. Það eina sem við getum gert er að reyna að standa skil á rekstrarkostnaði, öll uppbygging verður að bíða betri tíðar.``

Herra forseti. Hann lýsir þessu afar hreinskilningslega. Íbúarnir sýna fullan skilning.

En hverjir eru það sem sýna ekki skilning, herra forseti? Þeir sem sýna ekki skilning hér eru ríkisstjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir sýna ekki skilning. Þeir geta ekki hugsað sér að koma beint að málunum. Nei, þeir segja: Þetta er vandi ykkar.

Þegar búið er að setja þá svo rækilega upp við vegg, eins og ég hef verið að lýsa, herra forseti, með tilvitnunum í ummæli þessa ágæta sveitarstjóra sem vinnur starf sitt af elju og prýði ...

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að í upphafi þessa fundar var talað um að við mundum ljúka þingfundi um klukkan sjö þar sem nefndarfundir eru að hefjast. Á hv. þm. eftir langa ræðu?)

Herra forseti. Já, ég á eftir verulegan hluta af ræðu minni. Ég hef fyrst verið að fjalla mjög ítarlega um aðdraganda þessa máls og síðan á ég eftir að fjalla enn ítarlegar um hann á seinni stigum og svo um frv. sjálft og tengd atriði þannig ef það er vilji forseta að fundinum verði frestað og ég fresti mínu máli þá fellst ég á það.

(Forseti (ÍGP): Við frestum þá umræðu.)