Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 12:32:21 (7349)

2001-05-10 12:32:21# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[12:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið á allnokkrum fundum, sendi það til umsagnar margra aðila og fékk ýmsa þeirra á fund sinn. Þessa er alls getið í nál. á þskj. 1089.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heimild verði veitt til að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hlutur ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. er rúm 68%, en í kringum 72,5% í Búnaðarbanka Íslands hf.

Þetta mál hefur verið allmjög í umræðunni og við því hefur verið búist um nokkurn tíma að það kæmi fram á þinginu og yrði afgreitt. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu vinnur um þessar mundir að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag á sölu bankanna tveggja og mun væntanlega halda áfram þeim störfum af fullum krafti eftir að mál þetta hefur verið afgreitt frá þinginu. Í vinnu framkvæmdanefndar mun væntanlega verða tekin afstaða til áfangaskiptingar og tímasetningar sölunnar, um fyrirkomulag útboðsins, hvort almennt útboð verði viðhaft eða hvort salan verði dreifð og slík atriði sem máli skipta. Enn fremur verður framkvæmdanefndin væntanlega taka afstöðu til þess hvort bankarnir verða seldir samhliða eða hvort annar verður seldur á undan hinum.

Enn fremur hlýtur einnig að koma til skoðunar með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum vikum, hvort ekki sé rétt að auka í leiðinni við eigið fé, bæði Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Ég tel að það væri skynsamlegt sem liður í þessu einkavæðingarferli að eigið fé bankanna í heild væri aukið. Á síðustu mánuðum hefur eiginfjárhlutfall þeirra væntanlega lækkað eitthvað í kjölfar gengisbreytinganna sem orðið hafa. Ég tel því að það væri afar skynsamlegt að eigið fé þeirra væri aukið á sama tíma og verið er að selja hlutafé í bönkunum þannig að þeir gætu báðir styrkst og verið þess vegna betur í stakk búnir til að þjóna viðskiptavinum sínum.