Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:32:41 (7362)

2001-05-10 13:32:41# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. enn og aftur fyrir leiðbeiningar hans um hvaða skoðunum megi koma á framfæri í ræðustól á Alþingi. Mér finnst þær athyglisverðar og veit að fleiri þingmenn munu taka sér þetta til fyrirmyndar.

Jafnframt var athyglisvert þegar hv. þm. fór að velta fyrir sér framtíðarverði á hlutabréfum og verðþróun á þeim síðustu 12 mánuði. Eins og hv. þm. veit þá spáir fólk, þegar það kaupir og selur hlutabréf, frekar í það hvernig verðið þróist fram í tímann heldur en aftur í tímann. Það er alla vega það sem flestir hafa til viðmiðunar. Það væri þó gott ef hv. þm. gæti bent mér á hvenær menn ættu að taka ákvarðanir um kaup og sölu hlutabréfa út frá verðinu fyrir fimm árum eða tíu árum og hugsa ekki til framtíðarinnar í þeim efnum. Ég veit að aðrir hv. þm., sem finnst það hið mesta skemmtiefni að velta þessu fyrir sér, munu líka geta sýnt mér þessi fræði í ræðustól hér á eftir.

Varðandi starfsfólkið þá hlýtur það náttúrlega að vera hlutverk stjórnenda þessara fyrirtækja að stýra þeim þannig að sem mest náist út úr starfsfólkinu, sem mestur árangur af störfum þess. Þar með talið er að sýna nærgætni í sambandi við uppsagnir og þær breytingar sem verða þegar bankarnir ganga í gegnum þær. Ég veit ekki til annars en að sú nærgætni sé til staðar hjá stjórnendum bankanna og þeir hugsi um hag starfsfólksins. Þessir bankar eru að sjálfsögðu mikil þekkingarfyrirtæki sem standa og falla með því hvernig starfsfólkinu tekst til í störfum sínum.