Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:36:35 (7364)

2001-05-10 13:36:35# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er vægt til orða tekið að segja að vísindasamfélagið á Íslandi hafi verið sem steini lostið eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. menntmrh. á ársfundi Rannís í síðasta mánuði. Nokkuð góð sátt hefur ríkt um störf Rannís frá því lögin voru sett 1994. Samkvæmt þeim lögum er Rannsóknarráð Íslands sjálfstæð stofnun sem hefur ítarlega skilgreint hlutverk: að vera til ráðuneytis um stefnumörkun á sviði vísinda og tækni og gera árlega tillögur um útdeilingu framlaga úr ríkissjóði til vísinda og tæknimála, móta úthlutunarstefnu og veita styrki úr þeim sjóðum sem eru í vörslu ráðsins; annast kynningu á rannsóknarstarfsemi, mat á árangri rannsóknarstarfs og samvinnu við hliðstæðar stofnanir erlendis; beita sér fyrir, í samráði við rannsóknastofnanir og atvinnulíf, áætlunum um rannsóknir og þróun og skila árlega skýrslu til menntmrh.

Þetta starf hefur verið unnið í gegnum fagráð þannig að margir hafa komið að því. Fagráðin gera m.a. stefnumótandi tillögur um mál sem varða verksvið þeirra hvers um sig. Að þessu starfi hafa fjölmargir vísindamenn komið og fyrirkomulagið hefur reynst gegnsætt, lýðræðislegt og opið, eins og vera ber. Þess vegna hefur ríkt góð sátt um starfið undanfarið þó að vandinn hafi vissulega verið mikill, fyrst og fremst vegna viðvarandi fjársveltis.

Í stjórnartíð hæstv. menntmrh. hefur verðgildi þess fjár sem varið hefur verið til rannsókna snarrýrnað, þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar ráðherrans hæstv. um gildi vísindarannsókna fyrir framþróun og hagvöxt í landinu. Þær yfirlýsingar get ég þó heils hugar tekið undir. En þetta var greinilega meira lýðræði en gott þótti að dómi hæstv. ríkisstjórnar. Nú hefur verið ákveðið að hverfa aftur til fortíðar og gera Rannsóknarráð að ráðherrabatteríi, svo hið pólitíska vald hafi nú alla þræði í hendi sér.

Gert er ráð fyrir að skipa ráðið sjö ráðherrum. Hvers eiga þeir ráðherrar að gjalda sem ekki fá að vera með? Þetta ráðherrarannsóknarráð á að hittast tvisvar á ári undir formennsku forsrh. Það er fremur kómískt, eftir það sem á undan er gengið, að hugsa sér fyrrnefnda ráðherra, stillt upp í rannsóknarráð með þessum hætti, vinna faglega vinnu í starfshópi, eða hvað?

Það er heldur ekki hægt að neita því að þegar jafnmikill skortur er á rannsóknarfé og hér hefur verið við lýði þá opnar þetta leiðir fyrir pólitískt pot við úthlutanir rannsóknarfjár. Einnig er það athyglisvert að í þessu ferli er hvergi gert ráð fyrir aðkomu Alþingis.

Eitt af því sem vekur athygli í þessum hugmyndum er að styrkjum verði aðeins úthlutað til einstaklinga og fyrirtækja en ekki stofnana. Þessi aðferð hlýtur að teljast ópraktísk og getur hugsanlega átt við um þróunar- og nýsköpunarstyrki en varla um fé til vísindarannsókna. Lögformlegur viðtakandi á slíkum styrk, til starfsmanns fyrirtækis eða stofnunar, hlýtur að vera prókúruhafinn sem svo er ábyrgur fyrir ráðstöfun hans. Styrkir á móti frá Evrópusambandinu eru hins vegar mestan part veittir til stofnana. Hvert er ráðherrann að fara með því að leggja til slíkar breytingar?

Síðast en ekki síst undrast ég að ríkisstjórnin, sem virðist vera fljót að dæma stofnanir af sem hún telur ekki nógu þægar pólitískt, virðist áforma að breyta skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands í eins konar þjónustu- og úttektareiningu eða eyðublaðalager. Þetta virðist fyrst og fremst þjóna því markmiði að stytta leiðina milli hins pólitíska valds og úthlutana á rannsóknarfé en síður marka leiðina til úthlutana sem byggðar eru á faglegu og gagnsæju mati.

Að gefnu tilefni spyr ég: Hvar er áætlað að hin faglega stefnumótun fari fram varðandi úthlutun á rannsóknarfé? Er það á áðurnefndum ráðherrafundum, herra forseti?

Fyrir þessa umræðu lagði ég fram spurningar á sérstöku blaði til hæstv. menntmrh. sem ég vænti að hann muni svara hér.