Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:58:17 (7371)

2001-05-10 13:58:17# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég spyr mig að því í raun og veru í hvaða veröld málshefjandi hrærist. Hún hrærist a.m.k. ekki í íslenskum veruleika. (Gripið fram í: Nú?) Ljóst er að það hefur orðið gjörbreyting til hins betra á rannsóknarstarfsemi á Íslandi á liðnum áratug og það á ekki síst við um tengsl atvinnulífs við rannsókna- og þróunarstarfsemi.

Heildarumfang rannsókna hefur nú samfellt í 15 ár vaxið að meðaltali um 12,5% á ári og er með því mesta sem gerist innan OECD-ríkjanna. Íslendingar voru í 13. sæti árið 1997 en skipa árið 1999 6. sætið. Það ár var varið til rannsókna og þróunar 14 milljörðum kr. en þetta framlag nam um 4 milljörðum 1990.

Fagleg umfjöllun um umsóknir um rannsóknarstyrki er í mjög traustum farvegi. Tekist hefur að mestu að brúa þá gjá sem var á milli rannsóknar- og þróunarstarfs annars vegar og markaðarins hins vegar og má segja að Nýsköpunarsjóður hafi átt verulegan þátt í því.

Skilyrði til nýsköpunar hafa nú gjörbreyst til hins betra á örfáum árum og Íslendingar standa nú framarlega með hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu sem varið er til frumfjárfestingar í þróun. Mig minnir að þetta hafi verið um 0,7% 1987, það er núna 2,25%.

Við stöndum okkur vel á ýmsum þekkingarsviðum og þessi þekkingarsvið hafa lagt mikið af mörkum til að efla íslenskt efnahagslíf og á sú þróun þó eftir að skila enn meiru í framtíðinni.

Það sem enn háir rannsóknarumhverfi á Íslandi er hins vegar of veikt samband milli framkvæmdarvalds og rannsóknargeira og það gerir það örðugt að beina kröftum samfélagsins, stjórnvalda og atvinnulífs og vísindasamfélags, í öflugan farveg. Það vekur athygli mína að þeir sem hafa hér vitnað t.d. til Finna skuli ekki gera sér grein fyrir því og vita ekki af því hve náið samstarf var þar milli stjórnmálaaflanna og rannsóknargeirans sem er í raun veru lykillinn að því hversu vel hefur gengið.