Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:06:07 (7374)

2001-05-10 14:06:07# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vænti þess að afstaða mín til einkavæðingar hafi ekki farið fram hjá neinum. Raunar hafa báðir þingmenn Frjálslynda flokksins markað sér jákvæða afstöðu til að stuðla að einkavæðingu. En afstaða okkar til þess arna er ekki skilmálalaus.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það er með ólíkindum að ráðherra þessara mála, bankamála, skuli ekki sjá sér fært að vera viðstaddur umræðuna og láti við það sitja að til andsvara sé sérstakur fulltrúi illmúruðustu einkahagsmunaklíku landsins, Verslunarráðs Íslands.

Ég er ekki að veitast persónulega að hv. þm. Vilhjálmi Einarssyni þegar ég segi að það mundi hvergi í víðri veröld tíðkast að slíkur fulltrúi sæti á löggjafarsamkundunni sem formaður efh.- og viðskn. Hann er ágætur maður af sjálfum sér og ég bið menn að rugla því ekki saman við þessa gagnrýni af minni hálfu.

Sá sem hér stendur hefur sér í lagi goldið varhug við því sem bryddað hefur á hastarlega, þ.e. einkavinavæðingunni svokölluðu. Eitt frægasta dæmið sem við höfum um einkavinavæðinguna var þegar ríkið gaf Síldarverksmiðju ríkisins, SR-mjöl, og með henni marga milljarða kr. Mér hefur þótt brydda á þessu og ég sé ekki betur en nú bryddi hastarlega á þessu. Það hlýtur að kalla á endurskoðun afstöðu minnar til þess að veita núverandi valdhöfum umboð til þess að selja ríkiseignir. Skilmálarnir sem ég hef sett fram í þessu sambandi eru vitanlega að sem hæst og best verð fáist fyrir þessar eignir almennings.

Í öðru lagi þarf að hafa nákvæmt samráð við starfsmenn þessara fyrirtækja vegna þess að einkavæðing bankanna fer aldrei bærilega úr hendi nema að fá allt starfsfólkið með í leik. Það kemur fram í umræðunum og hefur komið fram í efh.- og viðskn. að því fer fjarri að ráðamenn hafi haft samráð við starfsfólkið eða fulltrúa þess sem neinu nemur.

Einn af skilmálum okkar í Frjálslynda flokknum hefur verið að eignaraðild yrði dreifð. Ég dreg enga dul á að hámarkseignaraðild eins aðila mætti ekki vera hærri en 4%. Aðrir hafa nefnt 2--3% og er það út af fyrir sig sjónarmið sem ég hef ekkert við að athuga. Þakið sem ég mundi vilja setja er við 4%.

Hvað veldur því aðallega að ég hlýt að lýsa yfir breyttri afstöðu til umboðsins sem hér er farið fram á, þótt það skíni svo sem í gegnum allan málflutninginn? Í framsögu fyrir heimild til sölu Landssímans sagði fulltrúi ríkisstjórnarinnar, hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður getur ekki komið fram eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínum út á sem hæstu verði á kostnað almennings sem kaupir þær í góðri trú.``

Hvað merkir þetta? Hvers fulltrúi er sá sem hér talar? Er það fulltrúi eigendanna, seljendanna sem er allur almenningur í landinu? Ó nei, þetta er fulltrúi kaupendanna sem þarna talar. Hverjir eiga það nú helst að vera? Hvað sagði einn augnaþjónninn í háskólanum á dögunum, forstöðumaður hagfræðideildar? Sagði hann ekki að nú vantaði í þjóðfélaginu nýjar fréttir, fréttir sem efldu hug og dug almennings? Fréttir um að nú væru útlendingar að koma að kaupa bankana og Landssíma Íslands? Það er fulltrúi þessara væntanlegu kaupanda sem ríkisstjórnin vill vera.

Ég mun aldrei veita henni umboð til þess að fara með sölu þessara eigna, þessara eigna alls almennings, af því að það er ljóst með hvaða hætti hún ætlar að standa að því. Hverjir mundu sitja í fyrirrúmi vegna þessarar sölu?

Hér hefur mörgum orðum verið farið um núverandi stöðu markaðarins. Framsögumaður meiri hluta efnahagsnefndar lét í það skína að það væri kannski ekki mikið að marka fortíðina í þeim sökum. Við höfum reyndar ekki á öðru að byggja en staðreyndum fortíðar þegar við hugsum til framtíðar. Ýmis teikn má þó taka með í dæmið um þróun markaðar á hverjum tíma. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að markaður sé á uppleið eða öllu heldur hættur að falla, hlutabréfamarkaðurinn.

Hafa menn t.d. fylgst með genginu á einu traustasta fyrirtæki í landinu, Eimskipafélagi Íslands? Það hef ég gert. Gengi þess sló í 14 fyrir einu og hálfu ári, í janúarmánuði. En nú, nú hefur það slegið niður í 5. Hafa menn fylgst með því hvernig t.d. Búnaðarbanki Íslands hefur stórtapað á hlutabréfaeign sinni? Þetta er því miður staðreynd. Að vísu gaf verðlagið á hlutabréfamarkaði einhverjar væntingar sem áttu sér ekki neina stoð í raunveruleikanum, nýbreytnin réði töluverðu um þá miklu græðgi sem þeir sýndu í kaupum á hlutabréfum. Þeir voru reyndar spanaðir upp af öllum þessum sölumönnum, eins og síðast kom fram í ósköpunum sem gengu á, þegar menn voru narraðir til þess að fjárfesta í ýmsum fyrirtækjum. Ég nefni deCode sem dæmi.

Ég sé enga ástæðu til að fara út í einstök smáatriði í þessu máli. Afstaða mín til sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands mótast af því viðhorfi ríkisstjórnarinnar sem ég vitnaði hér til þegar flutt var framsaga fyrir heimild til þess að selja Landssíma Íslands.

Það liggur ljóst fyrir að verðmæti þessara eigna hefur fallið gífurlega. Mér er spurn: Mundi einhverjum einkaaðila sem ætti þessi fyrirtæki koma til lifandi hugar að hefja nú sölu á þeim, eins og nú standa sakir á markaði? Auðvitað engum. Þeir sem eru með það í huga að væntanlegir kaupendur fái bankana á sem bestum kjörum vilja auðvitað koma þessu í lóg hið allra fyrsta.

Ég á, herra forseti, ekki orð í eigu minni til þess að lýsa fyrirlitningu minni á þeirri afstöðu sem saklaus Stykkishólmari lét hér í ljós, af því að hann veit ekki betur en þetta sé afstaða allrar ríkisstjórnarinnar.

[14:15]

Og það hlýtur að vera, svo örlagaríkt er þetta mál og undirstöðuþáttur í því sem stendur til að gera um verðmætustu eignir almennings eins og til að mynda Landssíma Íslands sem malað hefur gull og á eftir að mala gull.

Þetta er þess vegna eins og sakir standa afstaða þingmanna Frjálslynda flokksins. Þeir veita að þessu óbreyttu ekkert umboð til þess að ríkisvaldið, sem þessa afstöðu hefur, fái að selja þessi fyrirtæki.

En ég vík því aftur að forseta að það er auðvitað út í hött að halda umræðu áfram um sölu þessara fyrirtækja, bankanna, án þess að bankamálaráðherrann sjái ástæðu til þess að vera viðstaddur þá umræðu. Ég hefði viljað spyrja hæstv. bankamálaráðherra að því hvort hún, sem ég geng út frá, sé sammála þessu áliti og þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar sem kom fram í orðum hæstv. samgrh. En hér eru auðir bekkir, alauðir ráðherrabekkir, þegar verið er að tala um stærstu og mikilvægustu fjármálaatriði sem við höfum staðið frammi fyrir lengi. Þetta sýnir auðvitað þá virðingu eða hitt þó heldur sem framkvæmdarvaldið ber orðið fyrir löggjafarvaldinu.

Þetta ber glöggt vitni um það forað sem ríkir í röðum ríkisstjórnarmanna gagnvart sjálfri löggjafarsamkundunni og hefur margsinnis komið fram á undanförnum mánuðum og missirum sem vikið verður að þegar ástæða er til við umræður um skiptingu þessa valds eins og það er orðið í þjóðfélaginu, þar sem menn böðlast áfram í krafti valds síns og hegða sér eins og þeir sem öllu ráða og þurfa ekki að bera neitt undir aðra. Þetta hlýtur hið háa Alþingi, sem ætti að ráða mestu um framgang mála, að taka til sérstakrar athugunar.

Hér er framferði þessara hæstv. ríkisstjórnarmanna eins og berserkir væru að ganga um garða.