Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:18:15 (7376)

2001-05-10 14:18:15# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að um væri að ræða einkavinavæðingu og það hafa svo sem fleiri hv. stjórnarandstöðuþingmenn gert líka.

Þegar Búnaðarbankinn var seldur og Landsbankinn á sínum tíma keyptu fleiri tugir þúsunda manna í þessum bönkum. Sumir reyndar í umboði annarra, en eftir sitja fleiri tugir þúsunda hluthafa.

Er nokkuð slæmt að eiga svona marga einkavini? Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm.: Er nokkuð slæmt að eiga svona marga einkavini? Og getur ekki verið að það verði enn þá fleiri einkavinir þegar restin af bönkunum verður seld?

Síðan krafðist hv. þm. þess að ráðherra væri við umræðuna og þetta hefur komið fyrir nokkrum sinnum við 2. umr. Við 2. umr. er verið að ræða um niðurstöðu nefndar þingsins og það er Alþingi sem er að taka afstöðu til mála. Málið er komið úr höndum ráðherrans sem flytur málið. Hann flytur málið við 1. umr. Þá er hægt að krefjast nærveru ráðherrans. En eftir að málið er komið til 2. umr. er það á forræði þingsins. Ég skil ekkert í hv. stjórnarandstöðuþingmönnum að vera að stöðugt að krefjast og heimta fulltrúa framkvæmdarvaldsins þegar Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkundan, er að fjalla um mál.