Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:25:54 (7381)

2001-05-10 15:25:54# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti hér ágæta ræðu, svona miðað við þá heimsmynd sem hann trúir á. Þar sem mín heimsmynd og hans heimsmynd eru afskaplega ólíkar og hafa lítið sameiginlegt þá hef ég mjög margt að athuga við það sem hann sagði.

Hann sagði t.d. að ég hefði verið að rægja starfsmenn með því að segja að reksturinn hefði verið slæmur hingað til. Það hef ég aldrei sagt enda hafði starfsfólkið ekkert með útlán að gera nema kannski æðstu starfsmenn. Það er kerfið sjálft, þ.e. að pólitískir stjórnarmenn og stjórn skuli hafa átt að veita fé í ákveðnar framkvæmdir jafnvel þó að þær hafi verið mjög vitlausar. Áttu að bjarga fyrirtækjum sem vegna lélegs rekstrar voru komin í þrot í staðinn fyrir að taka á rekstrinum, það er þetta sem ég gagnrýndi. Þetta hefur ekkert með starfsfólkið að gera. Það hefur sinnt sínu starfi örugglega jafn vel og ekki síður en margir aðrir.

Hv. þm. sagði líka að mistök væru líka í einkarekstri. Að sjálfsögðu verða mistök í einkarekstri. En þá gjalda menn með því að tapa eign sinni. Það er einmitt munurinn á ríkisrekstri og einkarekstri að fyrir mistök í einkarekstri gjalda menn með því að tapa en í opinberum rekstri gerist ekki neitt. Hann heldur bara áfram. Gott dæmi er einmitt bankakreppan í Noregi sem hv. þm. hefur margoft bent á. Hvað gerðist þar með eignir þeirra sem áttu í bönkunum? Þeir hreinlega töpuðu þeim. Það var það gjald sem þeir borguðu fyrir mistökin sem þeir gerðu og það er einmitt lýsandi fyrir einkavæðingu og gildi hennar að því fylgir ábyrgð. Geri menn mistök þá borga þeir fyrir. Það gerist ekki í opinberum rekstri.