Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:33:52 (7385)

2001-05-10 15:33:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í umfjöllun efh.- og viðskn. að aukið framboð hlutabréfa á markaði vegna sölu hlutafjár ríkisins í ríkisbönkunum og Símanum mundi fyllilega rúmast á hlutabréfamarkaðnum með tilliti til þess sem á honum er fyrir og sett hefur verið á markað á undanförnum árum. Það þarf ekki að óttast að markaðurinn stútfyllist af þeim ástæðum. Ég treysti því líka að þegar innlendir fjárfestar hafa af stórhug ákveðið að taka þátt í uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði með þátttöku í Reyðaráli þá muni hv. þm. styðja það af myndarskap og greiða fyrir því að það geti orðið að veruleika.

Varðandi ummæli og tilvitnanir hv. þm. í umfjöllun Seðlabankans um eftirspurnarstjórn þá snýst einkavæðing ríkisbankanna ekki bara um að stýra eftirspurn heldur líka um að byggja upp sterkari banka og sterkari fjármagnsmarkað á Íslandi. Ég vil vekja athygli á því, ekki síst í ljósi umfjöllunar hv. þm. um útlán og útlánatregðu bankanna, að í fyrra jók Landsbankinn útlán sín úr 131 milljarði í 169 milljarða. Búnaðarbankinn jók útlán sín úr 81 milljarði í 109 milljarða. Í framhaldi af stofnun FBA stórjók bankinn einmitt útlán sín miðað við það sem hafði áður verið. Það gerðist líka þegar Búnaðarbankinn var gerður að hlutafélagi og breytingarnar þar. Þar stórjukust útlán. Ég hef velt því fyrir mér hvort það gæti verið skynsamlegt til lengri tíma að bankarnir ykju eigið fé sitt til að geta fjármagnað stærra hagkerfi, eins og þeir hafa verið að gera á undanförnum árum.