Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 15:37:45 (7387)

2001-05-10 15:37:45# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í ársskýrslum Landsbankans og Búnaðarbankans í hvað þessir bankar hafa lánað eftir atvinnugreinum. Hlutfallslega, t.d. í Landsbankanum, hafa útlán til sjávarútvegs dregist saman en í krónutölu hafa þau vaxið. Útlán til annarra atvinnuvega hafa haldist nokkurn veginn söm þó útlán til verslunar hafi að vísu aukist. Ég reikna með að hluti þeirrar útlánaaukningar sem m.a. hefur farið til verslunar á undanförnum árum hafi gengið til uppbyggingar myndarlegra verslunarmiðstöðvar á Akureyri. Þar hefur a.m.k. verið rætt um mikla þenslu í byggingariðnaði á síðustu árum.

Í þessu sambandi skiptir mestu máli að einkavæðing sjóðanna og Búnaðarbankans á sínum tíma leiddi til mikillar aukningar útlána sem runnu fyrst og fremst til atvinnulífsins. Svo kemur hv. þm. og segir: Bankarnir eru lokaðir. Að sjálfsögðu er eitthvað til í því. Bankarnir hafa ekki haft getu til að stækka efnahagsreikninga sína vegna þess að eiginfjárhlutföllin eru komin það mikið niður. Þegar ég fer að velta því fyrir mér til lengri tíma, sem lið í þessu einkavæðingarferli, að auka við eigið fé Búnaðarbankans og Landsbankans, þá er það gert tortryggilegt. Ég tel hið besta mál að það mundi gerast þannig að bankarnir gætu öðlast styrk til að takast á við uppbyggingu í atvinnulífinu í framtíðinni. Þeir gætu þar með fylgt þeirri stækkun hagkerfisins sem vonandi fylgir stóriðjuframkvæmdum vegna Norðuráls og Reyðaráls.