Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 16:33:58 (7393)

2001-05-10 16:33:58# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég set ekki alla einkavæðingu undir sama hatt. Ég legg ekki að jöfnu sölu á bönkum annars vegar og hins vegar einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar. Mér finnst það alvarlegur hlutur þegar grunnskólar eru boðnir út og skólamenntun á skólaskyldualdri gerð að markaðsvörðu eða þegar öldrunarþjónustan er sett á markað eins og ríkisstjórnin er þegar farin að gera. Hún gerði samning við fyrirtækið Securitas og Íslenska aðalverktaka um að reka elliheimili. Mér finnst það líka alvarlegur hlutur þegar eftirlitsstarfsemi sem á að vera í opinberum höndum er sett á markað eins og ríkisstjórnin gerði gagnvart rafmagnseftirlitinu í landinu. Þetta finnst mér allt saman slæmt og alvarlegt og mikilvægt að snúið verði til baka af þessari braut, sú starfsemi sem hefur þegar verið einkavædd verði aftur sett í almannahendur.

Við erum hins vegar að ræða um sölu á bönkum, á fjármálastofnunum, og ég ítreka að ég set þetta ekki undir sama hatt. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það væri til góðs að í landinu væri starfandi öflugur þjóðbanki. Ég er ekki þar með að segja að ríkisvaldið ætti að hafa stranga stýringu á því hvernig hann starfar. Meira að segja finnst mér ríkisvaldið hafa haft of mikla stýringu á ríkisbönkunum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í seinni tíð. Má þar taka dæmi um það t.d. þegar ríkisbönkunum var gert að kaupa út bandaríska áhættufjárfesta sem fjárfest höfðu í deCode út fyrir 6.000 millj. kr. Fyrir 6 milljarða kr. keyptu þeir út bandaríska áhættufjárfesta. Þetta kemur m.a. í skýrslu frá hæstv. iðnrh. um framkvæmd þál. um stefnu í byggðamálum. Þessi skýrsla var nýlega kynnt í þinginu. Þar kemur þetta fram.

Þar kemur líka fram að keyptur hafi verið, ætli það hafi ekki verið Landsbankinn, hlutur í Íslandssíma fyrir einn milljarð, 1.000 millj. kr. Ég beindi á sínum tíma fyrirspurnum til hæstv. bankamálaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, um þessi efni og þá fyrst og fremst um hlut Landsbankans í kaupum eða í samvinnu við Íslandssíma. Ég fékk engin svör, ekki nokkur einustu svör. Samsvarandi spurningum hefur verið beint til hæstv. ráðherra um kaupin í Íslenskri erfðagreiningu eða deCode þegar amerísku áhættufjárfestarnir voru keyptir út. Það voru opinberir aðilar sem gerðu þetta og fróðlegt væri að fá að vita það áður en hæstv. bankamálaráðherra sleppir algerlega hendi sinni af bönkunum hvort þetta hafi verið samkvæmt fyrirskipun ráðherrans eða ríkisstjórnarinnar eða hvernig þetta hafi verið gert. Nú hristir hæstv. ráðherra höfuðið. En ætlar hann að láta svo lítið að upplýsa þingið um það fyrst um þetta er spurt vegna þess að þetta eru stofnanir á forræði ríkisstjórnarinnar og hæstv. bankamálaráðherra? Ég óska eftir því að fá upplýsingar um þetta og hér við þessa umræðu.

Við ræðum það hér að selja hlut ríkisins í þessum bönkum og áður en ég skil alveg við þennan inngang minn, þennan formála, þá vil ég segja hvers vegna ég tel heppilegt að hér sé rekinn þjóðbanki, hér sé rekinn banki á vegum hins opinbera í eigu þjóðarinnar. Það er vegna þess að ég held að það tryggi þjóðinni betri þjónustu, það tryggi betri þjónustu við landsmenn. Eitt af því sem stefnt er að núna samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu bankanna er svokölluð hagræðing sem er fínt orð fyrir fækkun starfsmanna og fækkun útibúa og væntanlega þá helst og fyrst á landsbyggðinni í fámennum byggðarlögum á sama hátt og menn hafa verið að hagræða í öðrum stofnunum sem hafa verið hlutafélagavæddar, núna síðast á alræmdan hátt hjá Íslandspósti. Þar hafa verið dregin saman seglin. Útibúum hefur verið lokað. Fólki hefur verið sagt upp störfum. Dregið hefur verið úr þjónustu. En ríkisstjórnin gengur fram fyrir skjöldu og segir: ,,Við gerum þetta fyrst og fremst til að bæta þjónustuna. Við erum að bæta þjónustuna.`` Við erum væntanlega að bæta þjónustuna í Varmahlíð og Skagafirði með því að loka útibúinu og segja starfsfólki upp. Þetta felur þessi margrómaða hagræðing í sér, þ.e. að auka hámarksarðsemi á kostnað þeirrar þjónustu sem borgar sig ekki, sem dregur úr arðseminni. Ég held að það sé til góðs að þjóðbanki, banki í eigu þjóðarinnar starfaði samkvæmt þjónustumarkmiðum í bland, að veita landsmönnum öllum þjónustu hvar sem þeir búa í fjölmennum og fámennum byggðarlögum. Ég held að það sé líka til góðs fyrir atvinnulífið, og eins mótsagnakennt og það kann að hljóma, þá mun það stuðla að aukinni virkni í samkeppni.

Sú hætta er nefnilega fyrir hendi að eignarhald bankanna færist á mjög fáar hendur líkt og er að gerast í öðrum greinum atvinnulífsins. Í smásöluverslun er samþjöppunin komin upp í 70%. Sami aðilinn er að dreifa 70% af vörunni. Gæti það hent að þeir sömu aðilar muni ná tökum á fjármálastofnunum? Mun það leiða til aukinnar samkeppni í þjóðfélaginu? Ég held ekki.

Hvernig er eignarhaldi bankanna háttað núna? Ríkið á í Landsbankanum 68,29%. Það er eignarhlutur ríkisins. Síðan koma miklu smærri eigendur, Philadelphia International Equities, Inc., ég veit ekki hvort það er sá banki sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi First Union Bank, eða hvað? Er það sami aðilinn? (VE: Dótturfyrirtæki.) Eða dótturfyrirtæki hans, Philadelphia International Equities, Inc. Svo er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Síðan kemur LB-Holding Ltd. og síðan Landsbanki Íslands sem á þarna í sjálfum sér heil 1,69%. Síðan kemur Kaupthing Luxem\-bourg S.A. með 1,30%, VÍB, Kaupþing hf. Þetta er orðið mjög fjölbreytt flóra þótt hún sé öll meira og minna á einni hendi. Þetta er eignarhaldið núna og síðan er fjöldi annarra eigenda smárra. Þannig er það enn þá. Við vorum með tillögur um það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og lögðum fram frv. þess eðlis að ef farið yrði á annað borð út á þá braut að selja hlut ríkisins í bönkunum þá yrði tryggð dreifð eignaraðild til að koma í veg fyrir þessa samþjöppun á valdi og fjármagni í þjóðfélaginu. Í frv. okkar er gerð tillaga um að hlutur hvers og eins verði ekki meiri en 8%. Í frv. segir, með leyfi forseta.

,,Einstökum aðilum, öðrum en ríkissjóði, og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum er óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka.``

Frv. fékk ágætar umræður á sínum tíma þegar það var lagt fram. Allir eða margir tóku undir. Síðan eru menn búnir að finna það út að heilög ritning, Biblían í Brussel, bannar þetta. Verslunarráðið bannar þetta líka og stærstu bisnessaðilar í landinu eru ekkert hrifnir af þessu þannig að menn eru búnir að setja þetta til hliðar. Fyrst Sjálfstfl. er búinn að setja það til hliðar þá gerir Framsfl. að sjálfsögðu slíkt og hið sama. Hann er náttúrlega bara orðin skúffa í Sjálfstfl.

[16:45]

Munið þið hann Guðna? Skyldu ekki allir muna hann Guðna Ágústsson, hæstv. núv. landbrh.? Hann átti einu sinni sæti í bankaráði Búnaðarbankans. Ég man hve ég dáðist að því hve vel hann stóð í fæturna gagnvart kröfu Sjálfstfl. um einkavæðingu. Hann streittist lengi vel á móti. Hann hélt uppi þeim sjónarmiðum sem þá --- ég er að tala um löngu liðna tíð, árin 1995 og 1996 --- voru nokkuð sterk í Framsfl., þ.e. að það ætti að standa vörð um félagslega þjónustu. Það þótti ekki ófínt þá að tala vel um almannaeignir. Hann vildi standa í fæturna fyrir þessi sjónarmið og var andvígur því að bankarnir yrðu einkavæddir og seldir. Þessar raddir eru löngu löngu hljóðnaðar innan Framsfl. Á nýafstöðnu þingi flokksins var ekki talað um að breyta þessari stefnu. Nei, þar var talað um að nú skyldu allir fá það veganesti út í samfélagið að skjóta föstum skotum á alla þá sem gagnrýndu Framsfl. fyrir að hafa kúvent í þessum málum. Það var veganestið. Þessi söngur er farinn að hljóma í þingsölum, gerði það í gær og hefur gert það síðustu daga í fjölmiðlum. Samruna Framsfl. við Sjálfstfl. er tekið á þennan hátt.

Þetta er sem sagt eignarhaldið í bönkunum núna. Í Búnaðarbankanum á ríkið heldur stærri hlut, 72,56%. Síðan kemur Kaupþing hf. með 7,88% eign og síðan koma smærri aðilar. Stefna okkar og hugmyndir um dreifða eignaraðild, ef farið yrði út í söluna, hafa ekki náð fram að ganga, því miður.

En hvernig gerðist þetta? Hvernig hefur það gerst á hálfum áratug að þær raddir sem voru áður sterkar innan Framsfl. og mjög skeleggar hafa nú þagnað? Hvernig hefur þetta gerst? Hvernig hefur þessi ferill verið?

Í nál. 2. minni hluta, sem ég skrifa undir, er þessi sögulegi aðdragandi málsins rakinn. Við munum að í þessu tilviki, á nákvæmlega sama hátt og gerðist með Símann, er byrjað á því að segja: Það stendur ekki til að einkavæða. Það stendur ekki til að selja. Við erum aðeins að tala um breytt rekstrarform. Yfirlýsingar af þessum toga voru viðhafðar þegar fyrst voru viðraðar hugmyndir um að gera Landsbankann og Búnaðarbankann að hlutafélögum í upphafi stjórnarsamstarfs Sjálfstfl. og Framsfl. árið 1995.

Þegar frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbankann og Búnaðarbankann var lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþinginu, 1996--1997, þá segir eftirfarandi, með leyfi forseta, í greinargerð með frv. og nú skulum við hlusta:

,,Þótt ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Nefna má að í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur er því hlutafélagsformið sérstaklega viðeigandi. Með því að reka viðskiptabanka í hlutafélagsformi verður reksturinn einnig sveigjanlegri. Þá veldur fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eign ríkisins í hlutafélagsformi.``

Litlu síðar er áréttað í greinargerðinni að bankarnir verði áfram í eigu ríkisins. Nú vitna ég aftur í greinargerðina, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að að selja eignarhluti ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., nema með samþykki Alþingis.`` --- Nú byrjar þetta. --- ,,Þannig er beinlínis tekið fram í 6. gr. frumvarpsins að hlutafé í eigu ríkissjóðs í bönkunum tveimur verði ekki selt, nema með samþykki Alþingis.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að hinum nýju hlutafélagsbönkum verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaðinum. Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagabankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Nú erum við farin að feta okkur yfir í einhvers konar söluhugmyndir. En ekkert á að selja. Í frv. var hins vegar opnað á annan möguleika. Hver skyldi sá möguleiki hafa verið? Jú, heimilað er að auka hlutafé bankans og fara með það á markað. Sem sagt, hér hafði sú snilldarlega aðferðafræði verið fundin upp að setja bann við því að selja ríkisbankana án samþykkis Alþingis en hins vegar gat ráðherra gripið til þess ráðs að styrkja eiginfjárstöðu þeirra með aukningu hlutafjár. Kveðið var á um þetta í umræddu lagafrv. Þess vegna kom sú staða upp þegar lagt var fyrir Alþingi frv. um heimild til að selja 15% hlut ríkisins í bönkunum tveimur, þ.e. Landsbanka og Búnaðarbanka, að þá átti ríkið aðeins 85% í hvorum banka. Hér var sem sagt kynnt frv. þar sem bann var lagt við sölunni og því aðeins yrði seldur hlutur í bönkunum að Alþingi hefði áður samþykkt það. Þegar síðan kom að því að taka þetta til afgreiðslu á Alþingi þá átti ríkið ekki lengur nema 85% hlut í bönkunum. Þarna hafði verið farin bakdyraleiðin.

Síðan erum við komin lengra fram í tímann og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 segir, með leyfi forseta:

,,Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.``

Þegar hér er komið við sögu er að taka til starfa ný ríkisstjórn, önnur ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Búið er að koma hluta bankanna á markað til nýrra eigenda án þess að Alþingi hafi heimilað það nema með óbeinum hætti, með aukningu hlutafjár. Nú eru menn sem sagt komnir hingað í sögunni, að það á að selja. Lagt er upp með það að breyta rekstrarformi, það sé svo hagstætt að reka banka í þessu formi og síðan eru menn smám saman að feta sig út á þessa braut.

Hvers vegna vill ríkisstjórnin selja bankana? Ástæður fyrir þeirri ákvörðun að selja bankana hafa verið færðar í margvíslegan búning. Þannig sagði í greinargerð með frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1997, sem lagt var fram á síðasta þingi, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin hefur haft þá stefnu að jafna aðstæður á milli ríkis og einkaaðila og draga úr hlutverki ríkisins í starfsemi sem einkaaðilar geta stundað og þar sem samkeppni þrífst. Þetta á ekki hvað síst við um fjármagnsmarkaðinn.``

Hér er lýst pólitískri stefnu. Að sjálfsögðu er reynt að leiða rök að því að það sé til mikilla hagsbóta að fylgja þeirri stefnu og selja ríkisbankana og að til lengri tíma þjóni það markaðsviðskiptum. Til skemmri tíma sé á það að líta að salan færi ríkissjóði tekjur en jafnframt hefur því sjónarmiði nokkuð verið haldið á lofti að þegar þenslumerkja gætir í efnahagslífinu sé sala á ríkiseignum til þess fallin að draga úr þenslunni því að þannig sé bundið fjármagn sem að öðrum kosti færi til neyslu. Þetta eru þau rök sem sett hafa verið fram. Það er alveg rétt og ég skal taka undir að viss eru rök fyrir því að selja eignir sem á annað borð á að selja á þenslutímum fremur en á öðrum tímum til þess að binda fjármagnið þannig að það er alveg rétt. Ég er hins vegar að gagnrýna að þetta skuli gert og minni á annað sem fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég vitnaði til, að tryggt skuli að ríkið fái hámarksverð, og kem ég að því síðar, hámarksverð, vegna þess að það er aldeilis ekki svo að hámarksverð sé að fá fyrir þessar stofnanir nú um stundir.

Hin pólitísku rök fyrir því að einkavæða bankana ber að sjálfsögðu að taka alvarlega. Í greinargerð með áðurnefndu frv. er velsæld bankanna rakin til þess að þeir voru gerðir að hlutafélögum. Við heyrðum þessi sjónarmið uppi, t.d. af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan. En í fyrrnefndri greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Árangurinn af þessum aðgerðum hefur þegar komið í ljós. Rekstur Landsbankans og Búnaðarbankans hefur gengið vel og er hagnaður þeirra meiri en áður í sögu bankanna þrátt fyrir að vaxtamunur hafi lækkað verulega. Samanlagður hagnaður bankanna var nærri 1.600 millj. kr. á árinu 1998 og um 1.300 millj. kr. á fyrri hluta þessa árs. Áhyggjur manna um að bankarnir þyrftu langan tíma til aðlögunar áður en hægt væri að hefja sölu hlutafjár ríkissjóðs hafa ekki átt við rök að styðjast. Aðlögunarhæfni bankanna er góð, svo sem meðal annars sést á hagnaði þeirra og lægri lántökukostnaði á nýjum lánum þrátt fyrir afnám ríkisábyrgðar.``

Hér kemur fram það sjónarmið að hagsæld bankanna verði rakin til þess að þeir voru gerðir að hlutafélögum fyrir fáeinum árum en ekki til hins að á undanförnum árum hefur betur aflast en dæmi eru um í Íslandssögunni. Þá er ég að vísa til undangenginna ára. Markaðir fyrir afurðir okkar hafa verið hagstæðir og ytri skilyrði ákjósanleg og í þessu ástandi hafa bankarnir að sjálfsögðu notið góðs af. Fyrirtæki hafa verið aflögufær og þannig hefur dregið úr afskriftum og arðsemi fjár hefur verið mikil.

Nú eru þessi skilyrði hins vegar að breytast og miklar efasemdir eru um að innstæða hafi verið fyrir þessari þenslu og að þessi ,,velsæld`` hafi verið minni en menn höfðu vonast eða undirstöðurnar ótraustari. Nú eru þessi skilyrði sem sagt að breytast og sá grunnur sem góð afkoma bankanna hvíldi á er mun ótraustari en að undanförnu. Í greinargerð með því frv. sem hér er til umræðu segir engu að síður, með leyfi forseta:

[17:00]

,,Frá því að hlutafélög tóku yfir rekstur ríkisviðskiptabankanna hér á landi árið 1998 hefur komið í ljós að áhyggjur um að bankarnir þyrftu langan tíma til aðlögunar áður en hægt væri að hefja sölu hlutafjár hafa verið ástæðulausar. Rekstur bankanna hefur gengið betur en búist var við og bönkunum hefur vegnað vel á hlutabréfamarkaði. Kjör bankanna á erlendum lánamörkuðum hafa einnig verið góð. Engin ástæða þykir því til að draga sölu bankanna af þessum sökum.``

Í umræðu um ríkisbankana hefur því verið haldið mjög á lofti að fyrr á árum hafi menn verið óábyrgir með afbrigðum. Menn hafi lánað til áhættusamrar útgerðar, fyrirtækja vítt og breitt um landið og þurft að súpa seyðið af afleiðingum slíkra lánveitinga þegar kreppt hefur að í efnahagslífinu. Ég tel að það sé varasamt að fordæma allar slíkar lánveitingar til stuðnings atvinnulífi og þótt vissulega sé eðlilegt að lánastofnanir sýni ábyrgð í lánveitingum og láni að jafnaði aðeins þeim sem öruggt má heita að geti endurgoldið skuldir sínar þá kann það stundum að vera landsmönnum til góðs að lánastofnanir láti ekki stjórnast af ágóðavoninni einni heldur sýni einnig félagslega ábyrgð á ögurstundu þegar kreppir að í atvinnulífi byggðarlaga jafnvel þótt einhver óvissa fylgi slíku. Pólitísk stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er hins vegar þrengri en svo að hún rúmi slíka samfélagssýn.

Stjórnarfyrirkomulag ríkisbankanna hefur verið með þeim hætti að reynt hefur verið að tryggja að sjónarmið úr sem flestum áttum í samfélaginu komist þar að og hefur það verið gert með því að kjósa í bankaráð ríkisbankanna hér á Alþingi. Með hlutafélagsvæðingunni var þetta fyrir bí og tilnefningarvaldið fært undir viðskrh. einan. Þegar bankarnir hafa verið seldir að fullu eins og ríkisstjórnin hefur áform um í fyllingu tímans koma stjórnendur allir úr heimi fjármálanna með það sjónarhorn á tilveruna sem þar er við lýði. Ég leyfi mér að fullyrða að þeir muni allir eða flestir koma úr einum og sama stjórnmálaflokknum, þ.e. hinum sameinaða Sjálfstæðisflokki -- Framsókn, þeir muni allir koma úr sama geiranum. Mér finnst það hafa verið afturför þegar stofnanir, bankar eða fyrirtæki á borð við Landssímann hafa verið gerð að hlutafélögum hvað þetta snertir. Landssíminn starfar í krafti eins hlutabréfs sem er á vegum ráðherrans og hann getur skýlt sér á bak við hlutafélagslögin gagnvart Alþingi þegar spurninga er spurt. Þá hefur hann neitað að svara í krafti slíkra laga. Ég veit ekki í krafti hvaða laga það er sem hæstv. núv. bankamálaráðherra neitar að upplýsa Alþingi um þætti sem ráðherrann hefur verið spurður um eða hvort ráðherrann hefur eitthvað að fela, ég veit ekki hvernig á því stendur. Ég hef beint mörgum spurningum til hæstv. ráðherra sem ég hef aldrei fengið nokkur einustu svör við. Ég nefni t.d. milljarðinn í Íslandssíma, ég ítreka spurningarnar um amerísku áhættufjárfestana sem ríkisbankarnir keyptu út fyrir 6.000 millj. kr. Og ég hef spurt um aðra þætti sem að vissulega snerta bankana, t.d. yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans um aflandsvæðin og ævintýrin á Guernsey í Ermarsundi, skattaparadísinni Guernsey sem Landsbankinn er farinn að gera út á. Því var lýst yfir af hálfu bankastjórans á sínum tíma í blaðaviðtali, skilningi á því að bankaleyndin, svo ég vitni í það viðtal sem birtist í Morgunblaðinu 6. janúar árið 2000. Þar segir bankastjórinn, með leyfi forseta:

,,Bankaleyndin er mikilvæg af mörgum ástæðum. Hún er til dæmis mikilvæg þeim sem vilja halda fjárfestingum sínum og öðrum ákvörðunum fyrir sjálfa sig. Við þekkjum það á Íslandi að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.``

Það er bankastjóri ríkisbanka sem talar svona. Það er ekki allt gott sem gerist hjá ríkisbönkum, fjarri því. En mér finnst að Alþingi eigi að fá umræðu um svona hluti og þegar spurningum er beint til hæstv. bankamálaráðherra þá geti hann ekki alltaf skotið sér hjá því að svara. Á sama hátt og hæstv. ráðherra hefur verið illfáanlegur til að ræða ævintýrin með Verslunarráðinu, tilraunaverkefnið sem viðskrn. og Verslunarráðið reka á kostnað skattgreiðenda fyrir 45 millj. á fáeinum árum til að reyna að finna út með hvaða hætti hægt sé að lokka fyrirtæki til landsins á lægri sköttum. Þau þurfi ekki að borga 30% tekjuskatt eins og fyrirtæki þurfa yfirleitt að gera heldur 5% og sleppi auk þess við ýmis gjöld. Þetta eru viðskrn. og Verslunarráðið að dunda sér við og búin að vera að því í nokkur ár. Þetta stríðir gegn ábendingum OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem varar Íslendinga við því að reyna að skríða undir siðferðisþröskuldinn með þessum hætti. Hæstv. bankamálaráðherra lét einhvern tímann svo lítið að ýja aðeins að þessu þegar margoft var búið að óska eftir upplýsingum um þetta. Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra segði eða gæfi í skyn að hér værum við inni á gráu svæði. Það væri fróðlegt í tengslum við þessa fjármála- og bankamálaumræðu að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvort hann telur okkur enn inni á þessu gráa svæði og hvort við ætlum að halda enn lengra inn á það svæði.

Því er iðulega haldið mjög á loft af fylgismönnum einkavæðingar bankanna að hlutur hins opinbera í rekstri fjármálastofnana standi samkeppni á þeim markaði fyrir þrifum. Sú ríkisstjórn sem nú ber fram frv. um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans hefur ekki séð ástæðu til að styðja hugmyndir um að lögfesta hámarkseignarhlut einstakra aðila í viðskiptabönkum og sparisjóðum, og vísa ég þá í frv. sem við fluttum, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um dreifða eignaraðild. Bent skal á að samþjöppun eignarhalds í íslensku atvinnulífi hefur verið mikil að undanförnu og hafa menn nýleg dæmi fyrir sér um það til hvers slík samþjöppun getur leitt. Ekkert er því til fyrirstöðu að nákvæmlega sama þróun eigi sér stað á fjármálamarkaði. Þá liggur í augum uppi að fjársterkustu aðilarnir sem fyrir eru í atvinnulífinu verða í bestri aðstöðu til að eignast umrædda banka. Ef svo fer að sömu aðilar hafa ekki aðeins ráðandi stöðu á sviði framleiðslu og verslunar heldur einnig innan bankakerfisins sem útvega verður fjármagn til atvinnulífsins er augljóst að þar verður ekki um að ræða samkeppni sem rís undir nafni.

Í umræðunni um sölu á ríkisbönkunum er ítrekað haft á orði að ríkið eigi ekki að vera að rekast í því sem einkaaðilar geta stundað, reyndar er gengið lengra og fullyrt að einstaklingar geti starfað á hagkvæmari máta en stofnanir sem lúta almannastjórn. Sagan sýnir á hinn bóginn að varasamt er að alhæfa í þessu efni. Hitt er þó vitað að þegar einkabankar hafa lent í kröggum eins og gerðist víða um lönd á 9. áratug síðustu aldar, t.d. í Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Noregi, þá hefur ríkið hlaupið undir bagga því að þar var það mat manna að ellegar hefði blasað við efnahagslegt hrun. Þannig veitti norska ríkið um 500 milljörðum til að endurreisa banka sem höfðu verið einkavæddir en síðan hrunið. Sú spurning vaknaði í kjölfarið hvort ekki væri eðlilegt að fulltrúar þess almannavalds sem kemur til aðstoðar á ögurstundu ættu einnig rétt á að hafa hönd í bagga þegar betur gengur. Þetta er það sem gerðist. Því að vitanlega er það svo þegar bankakerfið hrynur þá hrynur samfélagið allt, þá hrynur allt efnahagskerfið og almannavaldið verður að grípa í taumana. Þetta hefur alls staðar verið gert og var gert alls staðar í þeim ríkjum sem ég vísaði til. Það var gert í Kanada, það var gert í Svíþjóð og það var gert í Noregi. Og það mundi að sjálfsögðu verða gert hér á landi einnig. Það yrði reynt að afstýra því að kerfið hryndi. Afleiðingin varð t.d. sú í Noregi að þar á ríkið enn drjúgan eignarhlut í fjármálakerfinu, í bankakerfinu. Núna er rætt um það að ríkið losi sig að verulegu leyti út úr þessum eignum, það er rétt --- og nú heyrðist eitthvert hljóð úr stóli hæstv. bankamála- og viðskrh. Þetta er náttúrlega sú stefna sem fylgt er vegna þess að menn telja sig vera að gera það sem aðrir eru að gera. Þetta er hin dæmigerða hóphyggja. Menn telja að þeir séu að feta í fótspor annarra og röksemdirnar eða rökleysan sem hefur verið á borð borin er að allir hinir séu að gera þetta. Það eru allir að einkavæða. Við hljótum að gera það líka. Það eru allir að gera þetta og þess vegna hlýtur Framsókn að gera það. Framsókn er svo nútímalegur flokkur. Hann hlýtur að einkavæða eins og allir hinir. Og það er alveg rétt að þetta er sú bylgja sem fer yfir allan heiminn núna. Þessi markaðshyggja og einkavæðingarbylgja. Hún hefur verið ofan á, hún hefur verið ráðandi og þess vegna hefur þurft einstaklinga og stjórnmálaflokka sem halda dómgreind sinni og þora að standa í fæturna. Enda fær þetta hljómgrunn, ekki aðeins hér á landi heldur víðs vegar um heiminn, þessi öfl og þessi sjónarmið eru að styrkjast og hin eru smám saman á undanhaldi, ekki síst þau og ekki síst þeir flokkar sem hafa boðið sig fram í nafni annarrar stefnu en þeir síðan framkvæma. Og það á við um Framsfl. og þess vegna gerist hann sár mjög þegar á þetta er bent. Það er skiljanlegt.

Í grg. með frv. ríkisstjórnarinnar segir að við sölu hlutabréfanna verði tekið mið af aðstæðum á hlutabréfamarkaði, öðrum þjóðhagslegum aðstæðum og þeim mögulegu sölutækifærum sem til staðar eru hverju sinni. Nú er ljóst að Alþingi verður að fá upplýsingar um það hvað hér er nákvæmlega átt við og ég auglýsi eftir þeim upplýsingum.

Í grg. er vitnað til þess að hlutur ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka hafi verið metinn á 30 milljarða kr. í byrjun janúar sl. Þá var markaðsvirði Búnaðarbankans 19,7 milljarðar kr. en Landsbankans 23,6 milljarðar kr. eða samtals 43,3 milljarðar kr. Nú er markaðsvirði Búnaðarbankans talið 16,9 milljarðar kr. en markaðsvirði Landsbankans 21,4 milljarðar kr. eða 38,3 milljarðar. Þarna munar 5 milljörðum sem þeir hafa lækkað að verðgildi að því er talið er, eftir því sem fram kemur í þeim upplýsingum sem reiddar hafa verið á borð fyrir okkur.

[17:15]

Þar af leiðandi er hlutur ríkisins í Landsbankanum nú 14,6 milljarðar kr., 68,29% eignarhluti, en hluturinn í Búnaðarbankanum er nú 12,3 milljarðar kr., þ.e. 72,56%. Samanlagt markaðsvirði þeirra hlutabréfa sem hér um ræðir er því um 26,9 milljarðar kr. og vísa ég þá í hlut ríkisins.

Sú staðreynd að markaðsverðmæti bankanna tveggja hefur rýrnað um 5 milljarða kr., um 11% frá því í ársbyrjun, sýnir svo ekki verður um villst til hvaða aðstæðna rétt er að rekja góða afkomu bankanna á síðustu árum. Hlutafélagsformið er enn til staðar en samt hefur verðið sem fengist hefur fyrir bankana hríðfallið á fáeinum mánuðum. Samhengi þess við aðstæður í íslensku efnahagslífi upp á síðkastið er augljóst. Jafnaugljóst er samband góðrar afkomu bankanna á síðustu árum og þenslunnar sem ríkt hefur hér á landi til þessa. Vandséð er hvernig ríkisstjórnin hyggst láta þessa sölu nú ríma við stefnuyfirlýsingu sína þar sem segir að þess verði gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. Þar vísa ég í yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Við þurfum að sjálfsögðu fá upplýsingar um það hvenær og hvernig stendur til að selja. Eins og fram kemur í gögnum sem ég hef vitnað í hér að framan þá er óvissan óbærileg. Það var okkur sagt og ég tek undir það. Á því var hamrað með fyrri frumvörpum þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat um hlutafélagavæðingu og síðan sölu, að óvissuástandið væri óbærilegt og skaðlegt þessum stofnunum. Ef við samþykkjum þetta frv. þá vil ég fá að vita hvenær á að selja og hvernig verði að því staðið. Er til of mikils mælst að óska eftir þeim upplýsingum? Ég veit ekki hvort hv. formaður efh.- og viðskn. ætlar að svara þessu en hæstv. bankamálaráðherra verður að sjálfsögðu að svara einnig. Hver er hin pólitíska stefnumörkun ríkisstjórnarinnar hvað þetta snertir?

Allt bendir til þess að frv. verði samþykkt vegna þess að gefin hefur verið út skipun um að það verði gert. Þess er krafist. Sjálfstfl. krefst þess að haldið verði áfram að einkavæða og þá vitum við af reynslunni að það verður gert. Það verður engin fyrirstaða í Framsfl. Hann gerir bara það sem honum er sagt að gera í öllum þessum einkavæðingar\-áformum. Fari svo að frv. verði samþykkt þá vil ég taka undir það sem fram kom áðan hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem vísaði í umsagnir Sambands íslenskra bankamanna og starfsmannafélaga Landbankans og Búnaðarbankans. Starfsmannafélögin veittu umsögn um þetta frv. og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Félögin SÍB, FSLÍ og SBÍ hafa fram til þessa ekki reynt að standa í vegi fyrir að Landsbanki og Búnaðarbanki verði gerðir að hlutafélögum og síðan einkavæddir. Hins vegar hafa þau gert miklar kröfur til þess að vel sé staðið að öllum breytingum og við hverja breytingu sé sérstaklega tekið tillit til þess að innan Landsbanka og Búnaðarbanka vinna um tvö þúsund starfsmenn.``

Litlu síðar er vikið að réttarstöðu starfsmanna við þessar breytingar:

,,SÍB, FSLÍ og SBÍ eru þeirrar skoðunar að huga þurfi vel að málefnum starfsmanna áður en til þess kemur að bankarnir fari úr höndum ríkisins þar sem gera má ráð fyrir að þær breytingar og hagræðingar sem í kjölfarið fylgi komi fyrst og fremst niður á starfsmönnum. Það er reynsla annarra, m.a á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum, að eldri starfsmönnum sé fyrst og fremst fórnað þegar í gang fara hagræðingar vegna einkavæðingar og því miður er eldri konum fyrst sagt upp störfum, en þær eru mjög margar í bönkunum tveimur.``

Því næst er farið nánar í einstaka efnisþætti kjarasamninga sem ég ætla ekki að vitna í. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það prýðilega hér áðan. Ég get þó ekki látið hjá líða að vitna í tvær klásúlur, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana sem gagnast starfsmönnum bankanna áður en bankarnir verða seldir frá ríkinu, en nokkurn fyrirvara þarf til að hægt sé að koma þeim ráðstöfunum í kring.

Þannig mætti fara svipaðar leiðir og notaðar eru á hinum Norðurlöndunum, m.a. með því að bjóða þeim starfsmönnum sem eru á aldrinum 40 til 50 ára að fara til náms í eitt til tvö ár á launum og að þeir starfsmenn sem orðnir eru 55 til 65 ára fái rýmri heimildir til að láta af störfum á eðlilegum eftirlaunum.

Þannig er mælst til þess að við einkavæðingu bankanna verði norsku aðferðinni beitt en hún hefur reynst vel, en þar er eðlileg starfsmannavelta smám saman látin draga úr áhrifum minnkandi mannaflaþarfar, en ekki gripið til uppsagna. Höfuðáhersla er lögð á að starfsmennirnir séu vel undir það búnir að mæta breytingum þegar að þeim kemur.``

Síðan er haldið áfram.

Stundum lenda fyrirtæki og stofnanir í efnahagslegum og fjárhagslegum þrengingum. Þá er gripið til þess að segja upp fólki. Þetta gerist því miður og stundum er það óhjákvæmilegt. Þá er mjög mikilvægt að reynt sé að beita þeirri vinnuaðferð. Í þessu tilviki er ekki um þrengingar að tefla. Við erum ekki að tala um stofnanir á heljarþröm, alls ekki. Við erum að tala um stofnanir sem ætla að ráðast í hagræðingu, sem byggist væntanlega á að þær fækki útibúum og reyni að samræma starfsemi. Það er ekki vegna þess að fyrirtækin eigi í fjárhagslegum þrengingum, síður en svo. Arðurinn er geysilegur. Það skiptir hundruðum og þúsundum milljóna sem þessar stofnanir eru að taka inn í arð.

Nú á að færa reksturinn í nýtt form. Það á að fara yfir í nýtt form. Það á að reka þessa fjármálastarfsemi í auknum mæli á grundvelli arðsemiskrafna og láta þjónustumarkmiðin víkja. Um þetta snýst hinn pólitíska barátta. Við sem höfum talað fyrir því að hér verði rekinn öflugur þjóðbanki erum ekki að tala fyrir strangri pólitískri stýringu á fjármálastofnunum, alls ekki. Við erum að leggja áherslu á að með öflugum þjóðbanka verði betur tryggð þjónusta við landsmenn alla og þegar upp er staðið verði tryggð aukin og meiri fjölbreytni og samkeppni í atvinnulífinu. Þetta eru þau sjónarmið sem við höfum lagt áherslu á.