Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:33:10 (7398)

2001-05-10 17:33:10# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af umræðu hv. þm. um hvenær og hvernig skuli staðið að sölu bréfanna, þá tel ég að sá framgangsmáti sem hafður er á sé mjög eðlilegur. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun að selja bankana. Það mundi líta afspyrnuilla út fyrir alla aðila ef einkavæðingarnefnd hefði komið fram með tillögu eða hugmyndir um nákvæmlega hvernig, hvenær og hverjum ætti að selja bankana áður en þetta lægi fyrir. Þá mundu aðilar á markaðnum vera búnir að setja sig í stellingar, gera samninga kannski út og suður og Alþingi stæði frammi fyrir gerðum hlut. Eðlilegasta leiðin er sú að Alþingi taki þá pólitísku ákvörðun að selja hlutafé í bönkunum og síðan sé það á ábyrgð framkvæmdarvaldsins, á ábyrgð ráðherrans og framkvæmdanefndar um einkavæðingu að sjá svo til að salan fari fram með þeim hætti að okkur verði sem mest úr peningunum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði, þá fannst mér eiginlega af lestri hans að með því að fara í gegnum allar þær greinargerðir sem legið hafa fyrir í þessum málum væri hann farinn að verða þokkalega sáttur við þessa einkavæðingu í það heila tekið. Hann taldi að vísu að það þyrfti ríkisbanka til þess að veita betri þjónustu og auka samkeppni og fjölbreytni í atvinnulífinu. En þó fyrst og fremst að hagræðing og hagsmunir viðskiptavinanna væru í fyrirrúmi. Það er nákvæmlega á þeim forsendum sem einkabanki starfar að hagsmunir viðskiptavina séu í fyrirrúmi og hvernig eigi sem best að uppfylla þarfir þeirra og gera það með sem hagkvæmustum hætti. Það er hlutverk einkabanka og það er ágætt, það er orðið hlutverk ríkisviðskiptabankanna líka og ríkið hefur þess vegna enga sérstaka köllun til þess að eiga fé í bönkum.