Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 17:35:34 (7399)

2001-05-10 17:35:34# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir upplýsingum um hvernig menn ætli að bera sig að við þessa sölu, hvenær eigi að selja og hvernig. Ég hef sett fram rök fyrir því að þetta skipti okkur máli í efnahagslegu tilliti og eðlilegt sé að þessar upplýsingar komi hingað inn vegna þeirrar umræðu. Síðan vitnaði ég í röksemdir sem fram hafa komið frá ríkisstjórninni sjálfri um að ekki megi vera óvissa. Þetta er að finna í greinargerðum í fyrri frumvörpum varðandi eignarhaldið. Ég var einvörðungu að vitna í röksemdir sem ríkisstjórnin sjálf hefur sett fram.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson telur mig þokkalega sáttan við einkavæðingu. Eitthvað er heyrnin bágborin finnst mér. Ég sagði að vísu í upphafi að ég setti ekki undir sama hatt einkavæðingu velferðarþjónustu og fjármálastofnana, það geri ég ekki. Ég set ekki samasemmerki þar á milli nema síður sé. Ég hef hins vegar talað um mikilvægi þess að halda uppi góðri þjónustu við landsmenn og tryggja fjölbreytni og samkeppni í atvinnulífinu, ekki bara hér á þéttbýlissvæðinu heldur um land allt. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir að þannig starfi einmitt einkabankar. Já, það kunna þeir að gera. Þeir vilja að sjálfsögðu þjóna viðskiptavinum sínum. En þegar arðsemissjónarmiðin eru alls ráðandi og þjónustusjónarmiðin eru látin víkja fyrir þeim, þá getur það hent að fámenn byggðarlög verði út undan, þetta er staðreynd, og að sjónarmið sem hafa verið í heiðri höfð í samfélagi okkar til þessa um að styrkja samfélagið verði látin víkja.