Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:13:25 (7403)

2001-05-10 18:13:25# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Það er sjálfsögðu stór stund fyrir þá sem trúa á þá aðgerð og ég er þar í hópi.

Til hvers er einkavæðingin? Hér hefur verið rætt dálítið um það í dag. Einkavæðing er náttúrlega ekki annað en sala á eignum. Þar er ríkið í raun að skiptast á eignum, lætur af hendi ákveðið fyrirtæki og fær í staðinn peninga sem það getur notað, ýmist til að að kaupa aðrar eignir, til að greiða niður skuldir, til framkvæmda eða til að auka þjónustu og bæta velferðarkerfið.

Meginmarkmið með sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu þar með er að auka samkeppni á markaðnum vegna þess að fyrirtæki sem eru ekki í ríkiseigu þarf að standa sig á eigin forsendum. Það getur ekki alltaf hlaupið í skjól hjá ríkinu. Þetta er meginmarkmiðið.

Meginmarkmiðið er ekki að auka afgang ríkissjóðs. Það er aukamarkmið. Meginmarkmiðið er heldur ekki að greiða niður erlendar skuldir eða fá inn erlendan gjaldeyri, það er ekki meginmarkmið en gæti verið aukamarkmið. Meginmarkmiðið er að auka samkeppni, sem er gott fyrir neytendur, sparifjáreigendur, skuldara og þá aðila sem þurfa ráðgjöf og greiðsluþjónustu bankanna og nota hana. Þetta er meginmarkmiðið.

[18:15]

Þeir sem vilja einkavæðingu og þar með aukna samkeppni horfa upp á að einkavæðingin hefur varla undan, þvílík er ríkisvæðingin. Það sem Landsvirkjun, opinbert fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, ríkisins og Akureyrarbæjar, fjárfestir á hverju ári er meira en það sem við höfum verið að einkavæða. Landsvirkjun fjárfestir um tugi milljarða á ári. Það er ríkisvæðing og einkavæðingin hefur vart undan. Ég vil benda á þetta til að hugga þá sem sjá ofsjónum yfir því að við séum að fara of geyst í einkavæðinguna. Jafnframt er þetta frekar dapurt fyrir hina sem hafa sett sér að markmiði að einkavæða sem mest.

Herra forseti. Það hefur verið nefnt að markaður sé núna í lágmarki og það sé ekki góð stund til að selja. Það má færa rök fyrir því ef menn horfa á eignina sem meginmarkmið, þ.e. að ríkið fái gott verð fyrir eign sína. Það þarf að sjálfsögðu að hafa í huga. En fleira kemur inn í það dæmi. Það er heldur ekki gott að selja ríkiseignir á mjög háu verði, alla vega ekki til almennings. Sums staðar erlendis þar sem menn hafa verið að einkavæða, sérstaklega fjarskiptafyrirtæki, hefur komið fyrir að almenningur hafi keypt fyrirtæki á afskaplega háu verði og verðið síðan hrunið. Og þá sitja margir uppi brenndir af þeirri reynslu. Það er ekki endilega gott, þó gott sé fyrir ríkið að fá gott verð fyrir eignir sínar, að almenningur brenni sig á því að hafa keypt á of háu verði.

Ég held að markaðurinn sé núna í þvílíku lágmarki að það geti ekki verið annað en gott að kaupa. En að sjálfsögðu er jafnvægi þarna á. Markaðurinn segir ekki annað en það á hvaða verði menn eru tilbúnir til að kaupa. Markaðurinn gefur í raun alltaf rétt verð.

Verð ríkisfyrirtækja endurspeglar oft þá möguleika sem menn sjá til hagræðingar í fyrirtækjunum. Oft hefur hagræðingin setið á hakanum í ríkisfyrirtækjum. Það er hægt að hagræða mikið og það gefur hátt verð á þessum fyrirtækjum, þar sem menn vænta að geta hagrætt í framtíðinni. Og þetta hefur einmitt komið í ljós með Landsbankann og Búnaðarbankann og FBA þegar þeir voru seldir, að þeir voru seldir á töluvert góðu verði fyrir ríkissjóð vegna þess að menn sáu möguleika til hagræðingar sem síðan hefur komið í ljós að var til staðar.

Herra forseti. Margir hafa spurt: Hver getur keypt? Hver mun kaupa? Það gætu náttúrlega orðið erlendir aðilar. En ég sé annan aðila sem gæti keypt. Það er nefnilega svo að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa vaxið ótrúlega mikið á síðustu þremur, fjórum árum. Ég hef reyndar varað við því og gerði það áður en aðlögunarsamningar ríkisstarfsmanna voru teknir upp. Skuldbinding ríkissjóðs gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hefur vaxið um 70, 80 eða 90 milljarða á þremur eða fjórum árum. Ég hugsa að skuldbindingin hafi jafnvel vaxið um 100 milljarða. Bara grunnskólakennarasamningurinn kostaði ríkissjóð 23 milljarða í auknum skuldbindingum. Einn kjarasamningur. Þar fór Landsbankinn. Framhaldsskólakennarasamningurinn kostaði 5 milljarða o.s.frv. Þannig mætti lengi telja.

Ég hygg að ríkið muni þurfa að borga stórar fúlgur inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er reyndar byrjað á því, er að borga milljarða núna frá áramótum í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, þar á meðal hv. þm. Ögmundur Jónasson sem situr þar í stjórn og því miður er ekki viðstaddur umræðuna, mun þurfa að ráðstafa þessum peningum, þessum lífeyrisskuldbindingum, aukningu á lífeyrisskuldbindingum ríkisins, sem núna hellist inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hvað geta þeir gert við þetta annað en kaupa ríkisfyrirtækin sem ríkið er að selja?

Það sem gerist er að ríkið selur ríkisfyrirtækin, fær greiðslu úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem það greiðir þangað inn eða hefur greitt þangað inn. Peningarnir fara í hring. Þá kemur í ljós að það eru ríkisstarfsmenn sem eiga þessi fyrirtæki. Skuldbinding ríkisins sem er ógreidd enn þá hleypur á langt yfir 100 milljörðum. Mig minnir að það séu 170 milljarðar sem ríkið á ógreitt til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er nú bara Landssíminn eins og hann leggur sig, Landsbankinn og Búnaðarbankinn og þyrfti sennilega að selja slatta í viðbót til þess að eiga fyrir aukningunni, ógreiddri lífeyrisskuldbindingu starfsmanna ríkisins. Og gengur nú hv. þm. Ögmundur Jónasson í salinn, en ég einmitt benti á að hann mun sennilega ráðstafa þessum peningum að mestu leyti sem ríkissjóður er að borga núna inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Milljarða frá áramótum og á eftir að borga miklu fleiri milljarða til þess að mæta lífeyrisskuldbindingum. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, hv. þm. Ögmundur Jónasson, mun væntanlega nota þá peninga til að fjárfesta í ríkisfyrirtækjunum sem verið er að selja.

Peningarnir fara því í hring og í ljós kemur að opinberir starfsmenn eiga þessi fyrirtæki, ekki landslýður, ekki landsmenn. Ógreidd skuldbinding ríkisins við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er nefnilega meiri en verðmæti Landssímans, Landsbankans og Búnaðarbankans. Þetta er dálítið merkilegt.

Svo tala menn um samþjöppun valds. Það skyldi nú ekki vera að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og þar með talinn hv. þm. Ögmundur Jónasson muni tilnefna næstu bankaráðsmenn í þessum banka. Það er samþjöppun valdsins sem hv. þm. hefur verið að berjast á móti. Það skyldi nú ekki vera að hann sjálfur sé þessi samþjöppun sem um er að ræða.

En hvað um það. Eftir einkavæðinguna verður gerð krafa um arðsemi. Reyndar þyrfti þá að breyta reglum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins því það er svo merkilegt með þann sjóð að það skiptir engu máli hvaða vexti hann fær vegna þess að ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum. Því þyrfti að breyta þannig að sjóðurinn verði ábyrgur. Þetta á reyndar bara við um B-deildina. A-deildin er farin að verða ábyrgari. Þá verður væntanlega farið að gera kröfu um arðsemi fjár í þessum banka sem og öðrum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna þeirri einkavæðingu sem hér á að eiga sér stað og vona að fleiri fylgi á eftir. Ég nefni þar sérstaklega til sögunnar Landsvirkjun.