Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:23:07 (7404)

2001-05-10 18:23:07# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ein örstutt leiðrétting hér í upphafi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, báðar deildir, starfa samkvæmt almennri löggjöf um lífeyrissjóði hvað ráðstöfun fjármuna snertir. Þar eru sömu reglur og gilda um lífeyrissjóðina almennt, að þeim ber að leita eftir hámarksarðsemi en þó að því tilskildu að hún sé traust. Um þetta eru ákvæði í almennri löggjöf sem gilda um lífeyrissjóðina og gilda um alla lífeyrissjóðina.

Hitt er alveg rétt að það sem er að gerast í landinu er geysileg samþjöppun á peningum í lífeyrissjóðum landsmanna. Við höfum farið inn á þá braut að styrkja lífeyrissjóðakerfið. Í stað þess að treysta á almannatryggingar til framtíðar, er treyst á sjóðsmyndun. Ég vakti m.a. athygli á þessu 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins, og hverjar skyldur þetta legði á lífeyrissjóðina, hvernig þeir ráðstöfuðu peningum sínum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að þeir hafa til ráðstöfunar og til fjárfestingar mjög mikla fjármuni. Það skiptir máli hvernig þar er á haldið. Að stjórn þessara lífeyrissjóða koma síðan verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin. Þar er mjög dreifð ábyrgð en þó ekki dreifðari en sú eignaraðild sem við búum við hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem eru í eigu þjóðarinnar, þar sem hver einasti einstaklingur á hlut að máli, allir Íslendingar.

Það sem við erum að ræða hér er frv. sem gerir ráð fyrir því að þrengja þetta eignaform, færa það úr hendi þjóðarinnar í færri hendur.