Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:25:23 (7405)

2001-05-10 18:25:23# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að lífeyrissjóðirnir yrðu að ná fram hámarksarðsemi fjár og það er rétt og satt. Það er í lögum. Ég ætla að vona að hann búist við því að þessar stofnanir muni skila góðri arðsemi í framtíðinni. Ég vænti þess og að verðið sem hann er tilbúinn til að borga fyrir þessar stofnanir endurspegli væntingar hans um arðsemi.

Síðan kom hv. þm. að allt öðrum hlut, þ.e. samþjöppun valds, og ólýðræðislegu kjöri í stjórnir lífeyrissjóðanna. Það er annar kapítuli. Hv. þm. hefur ekki verið kosinn af sjóðsfélögum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að gegna stjórnarstöðu sinni. Hann er kjörinn á fundi hjá verkalýðsfélagi opinberra starfsmanna þar sem fólk er skyldað með lögum til að borga félagsgjaldið. Hvort sem það vill vera í því stéttarfélagi eða ekki. Með lögum eru menn skyldaðir til að borga þar inn, sem er eins konar skattlagning. Ég hef bent á að það sé jafnvel hugsanlega andstætt stjórnarskránni sem bannar framsal á skattlagningu. Fólk er skyldað til að vera í þessu stéttarfélagi. Það er skyldað til að borga í lífeyrissjóðinn. Síðan tilnefnir þetta stéttarfélag, sem er misvel uppbyggt lýðræðislega, fulltrúa sína í stjórnina og stjórnin ráðstafar þessum peningum. Þetta er mikil samþjöppun valds. Hv. þm. nefndi það sjálfur, mjög mikil samþjöppun valds, sem hann hefur í skjóli annarra manna fjár.