Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:29:18 (7407)

2001-05-10 18:29:18# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að fólk ætti að stýra fjármagni í krafti eignarhalds, eða þannig skildi ég það. (Gripið fram í: Ég var að vísa í hv. þm. Pétur H. Blöndal.) Nú, já. Þá skil ég það. Já það er mín skoðun. Hv. þm. vill þá stýra fjármagni burt séð frá eignarhaldinu. (Gripið fram í.) Hann vill stýra annarra manna fjármagni. Það er náttúrlega draumurinn að geta stýrt annarra manna fjármagni. Þannig eru lífeyrissjóðirnir uppbyggðir að sjóðfélagarnir, hinn almenni sjóðfélagi (Gripið fram í.) sem á lífeyrissjóðinn hefur því miður afskaplega lítið með ráðstöfun þess fjár að gera. Hann kemur yfirleitt ekki að kjöri stjórnar lífeyrissjóðsins. Hann má mæta á einhverja ársfundi. Það er nánast gert lítið úr honum. Hann má mæta á ársfundi en má ekki kjósa stjórn. Þessu þurfum við að sjálfsögðu að breyta. Sjóðfélagar verða að fá koma að því að ráða hvernig þessu fjármagni er ráðstafað, hvernig það er ávaxtað og í hvað það er sett. Þar geta bæði siðferðilegar spurningar og annað slíkt komið upp.

Mér finnst því einmitt hárrétt sem hv. þm. sagði, að hann stýri samþjöppuðu valdi í stjórn lífeyrissjóðsins í krafti annarra manna fjár. (ÖJ: Sagði ég það?)