Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:32:52 (7409)

2001-05-10 18:32:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég sé enga ástæðu til að setja lög um þjónustukvöð á fyrirtæki sem hafa það sem meginmarkmið starfsemi sinnar að veita þjónustu. Markmið bankanna er að veita viðskiptavinum sínum fjármálaþjónustu. Það er markmið þeirra. Ég sé ekki að þurfi að setja þá kvöð á að menn sinni sínum markmiðum.

Banki sem ekki stendur sig í að veita þjónustu dagar bara uppi. Það er svo einfalt. Þá er spurningin um hvort hann veitir nægilega dreifða þjónustu. Ef einhver veitir ekki þjónustu í einhverju þorpi úti á landi þá er þar tækifæri fyrir samkeppnisaðilann að koma inn. Það er svo einfalt.

Ég sé enga ástæðu til að hafa þjónustukvöð vegna þess að hlutverk þessarar stofnana er að veita þjónustu. Þær þurfa að veita góða þjónustu og hún þarf að vera algild. Banki græðir á því að veita góða þjónustu.