Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:33:59 (7410)

2001-05-10 18:33:59# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var ekki alveg viss um að bankarnir mundu sjá sér hag í að veita góða þjónustu um allt land. Góð þjónusta á þessu sviði er einmitt forsenda fyrir samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja hvar sem er á landinu. Hv. þm. gerir sér kannski ekki nægilega grein fyrir því. Í ræðu minni hér á eftir mun ég gera grein fyrir því að ekki einu sinni allir flytjendur þessa frumvarps telja slíka ráðstöfun tryggja þjónustu um allt land.

Ég vil líka spyrja: Þeim rökum hefur verið beitt mjög sterklega að það þurfi að selja vegna þess að það vanti fjármagn til að rétta af viðskiptahallann, helst að selja hann úr landi til að rétta af viðskiptahallann. Telur hv. þm. að við getum selt bankann oftar en einu sinni? Telur hann gild rök fyrir því að selja bestu eignir sínar, arðbærustu eignirnar, til að rétta af hallarekstur vegna rangra fjárfestinga? Telur hann það vera rök í málinu, boðleg rök? Ætti ekki frekar að ræða um breytta stefnu í efnahags- og atvinnumálum þannig að við fengjum ekki þetta ástand hér? Telur hann það rök í málinu að velja þurfi seljanlegustu eignirnar til að ná í peninga til að rétta af, t.d. viðskiptahallann sem rætt hefur verið um síðustu dagana?