Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:35:54 (7411)

2001-05-10 18:35:54# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þessi rök hafa nú aðallega komið frá hv. stjórnarandstöðunni. (JB: Nei, nei.) Það er ekkert meginmarkmið með sölu þessara banka að rétta af viðskiptahallann. Það gæti svo sem komið sér vel en þess gerist ekki þörf vegna þess að viðskiptahallinn er ekki fjármagnaður með ríkisábyrgð eins og áður fyrr. Hann er fjármagnaður með ábyrgðum einstaklinga og fyrirtækja þeirra og réttir sig af sjálfur. Þegar menn skulda nægilega mikið --- ég held að við séum komnir á þann tímapunkt núna --- þá geta þeir ekki tekið fleiri lán. Nú eru þeir að borga niður skuldir. Enda hefur komið í ljós að frá áramótum hefur vöruskiptajöfnuðurinn verið nokkurn veginn í járnum, ef frá eru talin óvenjuleg flugvélakaup á þeim tíma.

Viðskiptahallinn réttir sig af að sjálfu sér vegna þess að bak við hann er ekki endalaus opinber ábyrgð. Það er mikill munur frá því sem áður var. Auðvitað verður erfitt fyrir fólk að borga niður þá gengdarlausu eyðslu sumra Íslendinga, ekki allra, undanfarið. Það er langt í frá að allir hafi eytt um efni fram. Það getur vel verið að menn geti ekki fjárfest næstu tvö, þrjú eða fimm árin jafnvel. Það kemur þannig fram að viðskiptahallinn og vöruskiptahallinn lagast. Þetta er nefnilega meginmunurinn frá því sem áður var.

Ég held að það séu ekki rök fyrir að selja þennan banka, eingöngu að rétta af viðskiptahallann. Fyrir því eru önnur rök.