Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 20:13:21 (7414)

2001-05-10 20:13:21# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[20:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (frh.):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta sérstaklega fyrir atbeina hans, kraft og atorku við að ná hæstv. ráðherra hér til fundarins. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þó að korter sé ekki langur tími og hæstv. ráðherra hafi vafalaust góðar skýringar á seinkun sinni þá er þetta að mínu áliti dæmigert fyrir það hvernig framkvæmdarvaldið lítur á þessa stofnun, sem hreina og klára afgreiðslustofnun, stimpilpúða, sem eigi að bregðast við þegar kallið kemur.

Umræðan í dag hefur verið í þeim dúr. Ég vil draga það sérstaklega fram að hæstv. ráðherra hefur komið hér í andsvör nokkrum sinnum og formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, hefur staðið vaktina. Þar með er það upptalið, innlegg stjórnarliða til þessa stóra og veigamikla máls. Þetta er innlegg þingmanna Framsfl. og Sjálfstfl., 38 þingmanna og ráðherra, til þessa stóra máls sem um hefur verið deilt og tekist á um árum saman.

Ég hef í seinni tíð velt fyrir mér á hvaða vegferð þessi stofnun er í þessu samhengi, ekki síst í tengslum við efnisatriði málsins sem við ræðum nú. Ekki síst af þeim ástæðum hef ég hægt og bítandi orðið tregari en ella til að framselja vald til þessa svokallaða framkvæmdarvalds, til ráðherra sem á hátíðisdögum vinna í umboði okkar og okkur ber samkvæmt stjórnarskrá að hafa eftirlit með. Á því hefur ekki verið vanþörf.

Ég segi það fullum fetum, herra forseti, og það skulu vera upphafsorð mín um efni þessa máls, að ég á afskaplega bágt með að treysta núverandi ráðherrum, núverandi ríkisstjórn, fyrir jafnmikilvægum stofnunum í efnahagslífi þjóðarinnar. Sporin hræða.

[20:15]

Herra forseti. Ég átti satt að segja von á að við 2. umr. þessa máls mundu fulltrúar Framsfl., samflokksmenn hæstv. ráðherra, gera rækilega grein fyrir stefnubreytingunni sem sannarlega felst í þeirri málsmeðferð sem frv. gerir ráð fyrir. Ég átti von á að þeir gerðu skilmerkilega grein fyrir því af hverju þeim þætti sjálfsagt og eðlilegt að afsetja bankana og selja. Ég bjóst við að heyra þá lýsa afstöðu sinni til samfélagsþjónustunnar, samspils hennar við atvinnulífið almennt og þjónustu á vettvangi einkaaðila hins vegar. Staðreyndin er auðvitað sú að Framsfl. hefur hneigst mjög til hægri áttar og eru allir þingmenn flokksins sem einn í því. Þar er engin undantekning á ferð, enginn Guðni Ágústsson, hæstv. núv. landbrh. sem setti á gömlum og góðum dögum hnefann í borðið og talaði um menn á svörtuloftum, varaði við því að menn seldu verðmæti ríkisins einhvern veginn, til hvers sem er og fyrir hvaða verð sem er.

Nú er Guðni auðvitað kominn í ráðherraskjól og þegir þunnu hljóði, segir ekki múkk. Hann vísar væntanlega til þess að þetta mál sé ekki á forræði hans sem landbrh. Satt að segja átti maður þó von á að í þessum 12 manna þingflokki slægi félagshyggjuhjartað enn í einhverjum, einhverjum sem a.m.k. hefði eilítið aðrar áherslur. Ég bjóst við að einhver framsóknarmanna mundi standa vörð um einhverja þá þætti sem Framsfl. vakti máls á á árum áður og tala um mikilvægi þess að þessi aðgerð leiddi ekki til fákeppni heldur efnahagslýðræðis. Ég bjóst við að einhver þeirra mundi hvetja til að þessi aðgerð leiddi til að minnkandi vaxtamunur yrði fyrir fólkið í landinu, ekki síst í dreifðari byggðum, tæki vel í að með sölunni yrði tryggt atvinnulýðræði og starfsmannamálin yrðu í góðu lagi. En ekki einn einasti maður segir aukatekið orð. Við því var ekki að búast að hæstv. ráðherra tæki undir slíkar hugmyndir, sem eru mjög veigamiklar í þessari umræðu. Ég kem nánar að því hér á eftir.

Herra forseti. Þetta er til marks um niðurlægingu Framsfl. Eftir sex ára vist hjá íhaldinu er undirlægjuhátturinn orðinn slíkur að þeir bera það ekki við, ekki eitt andartak, að halda til haga sérmálum sínum í málinu, sérstökum áherslum sínum. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, forustumaður Verslunarráðs, talar fyrir þá alla. Þetta er auðvitað vandamál Framsfl. og ég ætti svo sem ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Hins vegar er óhjákvæmilegt að draga þennan veruleika fram. Svona hefur þetta gengið fyrir sig, ekki bara í þessu máli heldur í hverju málinu á fætur öðru.

Það er auðvitað dálítið nöturlegt til þess að hugsa (Gripið fram í.) og á það að horfa að það er Framsfl. sem ber þetta mál fyrir hið háa Alþingi. Af því hæstv. ráðherra varð óróleg og var með frammíkall í þá veru að Alþfl. hafi forðum daga einnig verið í samstarfi með Sjálfstfl. þá vil ég minna sama hæstv. ráðherra á að Alþfl., þrátt fyrir stanslausan þrýsting íhaldsins í þá veruna að setja bankana á markað, neitaði Alþfl. því. Því var bara hreinlega neitað. Þarna er skilur á milli feigs og ófeigs. Þarna er munurinn á jafnaðarmönnum annars vegar og þessum línudönsurum, þessum fimu línudönsurum hins vegar.

Ég rakst á alveg dásamlega frétt á visir.is í dag sem sagði okkur frá því á hvaða ferðalagi hæstv. ráðherra var í morgun og fram undir hádegi. Hún kom seint til fundarins. Hún var að kenna nemendum í MA, í eigin kjördæmi, línudans. Í fréttinni segir hér, með leyfi forseta:

,,Valgerður`` --- þ.e. hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir --- ,,er annálaður línudansari og það leyndi sér ekki að hún náði mjög vel til nemendanna sem léku eftir henni listirnar vel og lengi. Samkvæmt upplýsingum frá MA var mikil þátttaka í dansinum og góður rómur gerður að fimi ráðherrans.``

Mér fannst þetta eiga býsna vel við hér, þessi línudans Framsfl. og fimi hennar við að falla nánast í einu öllu að hugmyndafræði íhaldsins. Hér er íhaldið auðvitað að fagna sigri, sigri fyrir trúarbrögð íhaldsmanna. Því hafa íhaldsmenn, a.m.k. hægri hluti þeirra, aldrei leynt að það að einkavæða nánast velflestar stofnanir ríkisins eru trúarbrögð í augum þeirra. Í 10 ár, allt frá fyrsta degi þess að þeir komust að í ríkisstjórn og raunar löngu fyrr, hafa þeir talað um að selja bankana. Það eru þessi trúarbrögð, tröllatrú á markaðnum og lausnum hans sem hafa ævinlega orðið til þess að ég staldraði við. Ég mun koma að því rétt á eftir hvaða augum við jafnaðarmenn lítum þetta samspil félagsþjónustunnar og lausna markaðarins, þar eru engin trúarbrögð á ferð. Þar er köld raunhyggja sem á að ráða för og heitt hjarta.

Það er gott að hæstv. ráðherra er glatt í sinni eftir línudansinn í morgun. Hún heldur honum áfram. Framsfl. dansar á línu íhaldsins og er auðvitað við það að detta í hverju málinu á fætur öðru. Framsfl. er búinn að svíkja hér trekk í trekk, á yfirstandandi kjörtímabili og hinu síðasta líka, loforð sem hann gaf kjósendum. Man einhver til þess, herra forseti, að Framsfl. hafi farið fram í síðustu kosningum með það markmið að selja bankana eða selja Landssímann? Hélt hæstv. núv. viðskrh. langar og miklar ræður á Húsavík eða á Akureyri í þá veruna að það yrði hennar fyrsta verk og markmið að selja bankana? Bjuggust kjósendur hennar við því að hún gæti vart hamið sig hér í þingsal á lokaspretti þessa ætlunarverks? Nei, auðvitað var það ekki þannig. Auðvitað var það ekki þannig. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig fari ég rangt með en eins og fyrri daginn var Framsfl. með allt önnur áform. Hann sóttist eftir allt öðru. Ég skil það ósköp vel að hæstv. ráðherra og framsóknarmönnum sé órótt undir ræðu minni. Ég hef á því skilning en sannleikann verður að segja þó að hann sé stundum sár og erfitt á að hlusta.

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls er býsna sérkennilegur. Ég hef stundum velt því fyrir mér varðandi hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur hvaða tilgangi allt þetta írafár og allar þessar aðgerðir ráðherrans, misheppnaðar flestar að vísu, í aðdraganda máls, t.d. við stjórnarskipan í bankaráð o.s.frv., þ.e. hvaða tilgangi allt það sjónarspil þjónaði.

Menn fylgdust með því í fréttum fyrir nokkrum mánuðum þegar hæstv. ráðherra lamdist við að setja yfir nýjan bankastjóra í Búnaðarbankanum. Henni tókst það ekki, var stopp. Síðan fylgdust menn með henni lemjast í því fyrir opnum tjöldum að skipta út Pétri og Páli í bankaráði Búnaðarbankans. Í ljósi þess að nú gengur það væntanlega fram sem ráðherrann leggur til, að þessi banki verði seldur á næstu missirum --- og miðað við reynsluna má sennilega telja það í mánuðum --- væri fróðlegt að vita, herra forseti: Til hvers var allt þetta írafár og allt þetta fjaðrafok út af bankaráði sem er deyjandi? Til hvers að skipta um ráðherra þegar markaðurinn á að ráða þessu og taka ákvarðanir um það á næstu mánuðum? (Viðskrh.: Ráðherra?) Markaðurinn, sagði ég. Ráðherra vildi skipta um bankastjóra fyrir nokkrum mánuðum. Gjörbylta öðrum ríkisbankanum. Ég spyr af því að ég skil það ekki. Þess vegna spyr ég bara þráðbeint: Hver var tilgangurinn með því öllu í þessu samhengi? Samhengið er mér ekki ljóst en kannski er einhver djúphygli þarna undirliggjandi sem ráðherra getur sagt mér frá.

Á sama tíma og ráðherrann er að undirbúa markaðssetningu bankans og koma honum í hendur þeirra sem best geta stjórnað honum að hennar áliti, þ.e. markaðarins, þá var ráðherrann fram á síðustu stundu að reyna að setja niður mann og annan í stjórn bankans. Maður skildi satt að segja ekki allt það fjaðrafok og dinglumdangl. Hæstv. ráðherra gerir okkur sennilega grein fyrir því að þetta hafi verið markviss undirbúningur að því máli sem hér er til umræðu. Ég veit það ekki. Þetta dreg ég hér fram þótt ég sjái ekki samhengið, til að undirstrika lausatökin, fumið og fátið hjá hæstv. viðskrh. í kringum þessi bankamál. Fyrir tveimur mánuðum var hún í stappi við samstarfsflokkinn og stjórnarformann Búnaðarbankans, fyrrverandi þingmann, yfir því að hann léti ekki að stjórn. Honum var vísað á dyr og upp hófst mikið makk og samningar milli stjórnarflokkanna. Það gekk svo langt að brjóta varð heiðursmannasamkomulag við stjórnarandstöðuna til að tryggja eitthvað sem mér er ekki kunnugt um.

Maður veltir þessu fyrir sér. Þarna virðist ekkert efnislegt samhengi á milli. Engu að síður vekur þetta sjónarspil ótta og spurninguna: Er hæstv. ráðherra og þessari ríkisstjórn treystandi fyrir því að fá opna heimild hjá Alþingi til að setja þessi verðmæti þjóðarinnar á markað einhvern veginn? Mitt svar er nei. Það er hreinlega nei. Sporin hræða í þeim efnum.

Þó fyrri ræðumenn hafi farið mjög ítarlega yfir málið og samflokksmenn mínir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson gert það prýðilega þá vil ég gjarnan fá við hrein og ærleg svör hjá hæstv. ráðherra við nokkrum spurningum sem lúta að grundvallaratriðum.

Í fyrsta lagi: Finnst hæstv. ráðherra það engu máli skipta hvort starfsmenn fái þátttökurétt í stjórnum hlutafélaga? Er þetta hugtak atvinnulýðræði, sem ég hef heyrt marga framsóknarmenn tala um á hátíðlegum stundum, bara notað á hátíðlegum stundum? Er Framsfl. andvígur þeirri stefnumörkun og þeirri hugmyndafræði okkar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks að atvinnulýðræði verði virt? Er það þess vegna sem ekkert er um það að finna hér í frumvarpinu? Er það þess vegna sem hugmyndum í þá veru hefur verið tekið jafnilla og raun ber vitni? Ég spyr.

Ég spyr líka hvort ráðherranum finnist það ekki dálítið óþægilegt innst inni, jafnmikil verðmæti og hér um ræðir, að hlutabréfamarkaðurinn er svo veikur sem raun ber vitni. Hefði ráðherrann ekki kosið að fá heimild til sölu þessara verðmætu fyrirtækja í eigu þjóðarinnar þegar efnahags\-ástandið væri betra?

[20:30]

Ég spyr í þriðja lagi: Hefur hæstv. ráðherra fullvissu fyrir því og er það þess vegna sem hún leggur þetta mál fram, að þessi aðgerð bæti þjónustu við einstaklinga og fyrirtækja, dragi úr vaxtamun til einstaklinga og fyrirtæki, sem er auðvitað lykilatriði í allri umræðunni og málið snýst um, þ.e. að íslenska bankakerfið verði þannig úr garði gert, að það þurfi ekki að taka til sín jafnmikinn vaxtamun og við höfum búið við allt of lengi?

Vafalaust eru margar skýringar á því sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega í. En það hlýtur engu að síður að verða krafa íslenskra neytenda, hvort sem þeir eru úr atvinnulífi eða einstaklingar, þá hljóta þeir að kalla eftir að tilkostnaðurinn lækki og þörfin fyrir þennan gífurlega vaxtamun, hvort sem hún er raunveruleg eða tilbúin, og þjónustugjöld bankanna lækki. Hefur ráðherrann sannfæringu fyrir því að það dragi úr því með sölu þessara tveggja banka á næstu mánuðum?

Hefur ráðherrann kannski ótta af því eins og ég að þeir aðilar sem munu festa peninga í þessum bönkum, muni eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margsinnis hamrað á, heimta skerf sinn til baka hratt og ákveðið, þ.e. þeir muni heimta sinn arð af þessari fjárfestingu mjög hratt og ákveðið? Þá verður auðvitað ekki því til að dreifa að neytendur og notendur njóti góðs af. Ég er býsna hræddur um að einhver bið verði eftir því.

Hefur ráðherrann sannfæringu fyrir því að hið fyrrnefnda gangi eftir, að notendur muni njóta góðs af? Þá er ég að tala um í nánustu framtíð ekki síður en til lengri tíma litið. Ekki þýðir að afgreiða mig með því að einhvern tímann og einhvern tímann hljóti þetta að lagast og njótendur og viðskiptamenn íslenska bankakerfisins njóti svipaðra kjara og gerist og gengur í nágrannalöndum okkar sem hefur ekki verið.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra að því, af því hún er þrátt fyrir allt úr Framsfl., sem á rætur í samvinnuhreyfingunni og kallar sig félagshyggjuflokk á hátíðlegum stundum: Hefur hún engar áhyggjur af því að hinu svonefnda efnahagslýðræði sé hætta búin, þ.e. okkar litla hagkerfi sé orðið það samansúrrað og í höndum svo örfárra aðila að efnahagslýðræðinu sé hætta búin? Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því?

Ég trúi ekki öðru en hún hafi það þegar hún skoðar hug sinn. Veruleikinn blasir auðvitað við. Við höfum ákveðna reynslu af því. Við þekkjum það í ákveðnum greinum íslensks atvinnulífs, þjónustugreinum, sem hér er búið að fara mjög rækilega yfir þannig að þessi hætta er auðvitað enn frekar til staðar í okkar litla efnahagskerfi en í efnahagskerfi stærri þjóða heimsins. Því þurfum við enn frekar að vera á varðbergi.

Þetta eru samviskuspurningar til hæstv. ráðherra eftir allítarlega yfirferð hjá mér rétt áðan varðandi þá umpólun og umbreytingu sem orðið hefur á Framsfl. Ég gerði það fyrir þessa umræðu að ég fletti hreinlega upp í stefnuskrá flokksins, bara til þess að kanna hvort hún hefði nokkuð breyst, hvort ég hefði misst nokkuð úr. En það reyndist ekki vera. Allt var með kyrrum kjörum á þeim bænum og öll þessi hugtök voru þar sannarlega til staðar. Félagshyggja, fólkið í landinu og allt þetta sem menn þekkja þegar Framsfl. mætir rétt fyrir kosningar. Ég kannaði þetta aftur, herra forseti. Ég þorði ekki annað. Allt er þetta á vísum stað og þess vegna hlýt ég að ætla svo að einhvers staðar leynist nú taug sem titri í þessa veruna. Það er undir þeim formerkjum sem ég beini þessum samviskuspurningum til hæstv. ráðherra og bið hana að svara eins ærlega og af bestu samvisku og henni er nokkur kostur og hún hefur leyfi til.

Ég tók líka eftir því, herra forseti, að í orðræðu fyrr í dag í andsvörum við hv. þm. Ögmund Jónasson kvartaði hæstv. ráðherra mjög yfir því að þingmenn væru að láta sig það varða hvernig efnahagslífið gengi fram og að þingmenn væru að velta því fyrir sér hvernig bankarnir væru reknir. Og þingmenn væru að velta því fyrir sér hvernig vaxtastigið væri í landinu. Þetta væri bara ekki þeirra mál. Nei, nei, þetta þyrfti náttúrlega að vera í höndum sérfræðinga. Það væri því ekki seinna vænna en koma þessum viðfangsefnum hér úr þinginu. Þannig var þetta í grófum dráttum. Ég fer auðvitað ekki orðrétt með þetta en ég lagði mjög rækilega við hlustir og þetta var innihald ræðu hæstv. ráðherra sem kvað mjög fast að og taldi það óþarfa afskiptasemi af hv. þm. að vera að hafa áhyggjur af þessu.

Ég deili hins vegar áhyggjum með hv. þm. Ögmundi Jónassyni í þá veruna. Ég vil segja hæstv. ráðherra það að ég mun ekki hætta að hafa áhyggjur af gangverki efnahagskerfisins á íslandi, hvernig fjármálastofnanir beita valdi sínu, hvernig þær haga þjónustu sinni og á hvaða kjörum hún er. Ef við þingmenn og hið háa Alþingi ætlum að hætta að fylgjast með því þá er nú lítið eftir. Þá hafa menn ekki miklu öðru að sinna að mínu áliti.

Nei, herra forseti, hæstv. ráðherra þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því. Hún má vita að það verður gjörla fylgst með því.

Hins vegar er í þessu samhengi eftirtektarvert --- skylt er skeggið hökunni --- að þessi talandi hæstv. ráðherra í þessa veruna er mjög í ætt við það sem gerst hefur á síðustu missirum og árum, með hlutafélagavæðingunni fyrst og síðan einkavinavæðingunni. Hlutafélagavæðingin var nefnilega dálítið meira og annað en undirbúningur undir sölu. Því við hv. þm. áttuðum okkur fljótlega á því að um leið og háeffið var sett aftan við þessi fyrirtæki, þá var skrúfað fyrir allar upplýsingar til hins háa Alþingis. Og hv. alþm. var einfaldlega sagt það: ,,Þið þurfið að sækja ykkar upplýsingar eins og hver annar.`` Og vísað í upplýsingalögin, eins gæfuleg og þau nú eru, sem auðvitað er alger firra að áliti mínu því stjórnarskráin setur á okkur þá skyldu að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, hvort heldur framkvæmdarvaldið hafi sett hf. fyrir aftan sig eður ei.

Í því samhengi, herra forseti, hef ég flutt þrjú eða fjögur ár í röð frv. til laga um breytingar á hlutafélagalögum annars vegar og þingsköpum hins vegar, til að breyta þessari ósvinnu og ég mun halda því áfram svo lengi sem ríkissjóður á helming í einhverjum þeim hlutafélögum --- er ekki búinn að losa sig við þau --- til að tryggja að stjórnarskráin sé hér í gildi þannig að menn misnoti ekki eða gangi á svig við hana og læsi öllum dyrum hvað varðar eðlilegt upplýsingaflæði til alþingismanna.

Auðvitað verður það líka þannig, herra forseti, að hæstv. ráðherra í gegnum þó það eftirlitskerfi sem menn hafa orðið ásáttir um að setja á með þessu fjármálakerfi sem við viljum sannarlega breyta og bæta, en engu að síður er til staðar og núv. ríkisstjórn gengst við. Í gegnum það mun ég sem þingmaður, og raunar miklu fleiri veit ég, rukka hæstv. ráðherra um gang mála. Ef hæstv. viðskrh. heldur að hún þurfi ekki að ræða efnahags- og viðskiptamál við hið háa Alþingi þá fer hún vill vegar. Ef hún heldur það líka, hæstv. ráðherra, að þar með hætti menn að tala um Framsfl. og félagshyggjuna þá fer hæstv. ráðherra líka vill vegar.

Ég rifja það líka upp, herra forseti, um leið og ég leit í stefnuskrá Framsfl., þá fletti ég upp orðræðum þegar hlutafélagavæðingin gekk í gegn 1997 og þó að stjórnarmeirihlutinn hafi verið ásáttur um að láta það mál fram ganga, þá verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, það var eilítið meiri mannsbragur á þeim framsóknarmönnum í þá tíð. Það bar þó örlítið á því í þeim umræðum að þeir slægju varnagla, þeir veltu því efnislega fyrir sér hvaða áhrif hlutafélagavæðingin og síðan sala hlutabréfa hefði á markað, hefði á lýðræði, hefði á kjör fólks, með öðrum orðum, þeir reyndu að hafa sjálfstæðar skoðanir. Enda voru þeir þá aðeins búnir að vera í tvö ár í samstarfi með Sjálfstfl. Á þessu ber ekki lengur. Þetta er liðin tíð. Þetta er búið mál. Nú er það hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem stýrir för þó að forminu til sé það hæstv. ráðherra sem beri málið hingað inn.

Herra forseti. Menn hafa eðlilega rætt um hversu skynsamlegt það er að leggja það á hlutabréfamarkað sem stendur afskaplega höllum fæti nú um stundir, að setja inn á hann 26--27 milljarða, 26, 30 eða hvað það nú verður með þessari bankasölu, 30, 35, 40 milljarða í sölu Landssíma, þ.e. hvort mönnum finnist það virkilega skynsamlegt að leggja það á þennan markað á sama tíma.

Ég er satt að segja dálítið undrandi á því að maður eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson skuli reyna að mæla því bót af því við vitum að auðvitað er samkeppni um fjármagn. Það eru mörg fyrirtæki í landinu önnur en í eigu ríkissjóðs, sem eru að sækjast eftir fjárfestum, sækjast eftir nýju fjármagni. Ég er satt að segja dálítið undrandi á því að þegar við erum í ákveðinni efnahagsdýfu og menn kalli eftir vítamínsprautu gagnvart atvinnulífinu þá sé það talið skynsamlegast fyrir ríkissjóð að sækja inn á þennan markað og soga til sín fjármuni frá fjárfestum sem mundu ella og væntanlega leggja peningana sína í annars konar fjárfestingu.

Ég spyr hv. þm. Vilhjálm Egilsson: Finnst honum það mjög skynsamlegt við þessar aðstæður að ríkissjóður sé í samkeppni um þessa fjárfesta, einmitt á þessum tíma? Kemur það heim og saman við það þegar hann og flokksbræður hans eru að ræða um mikilvægi þess að létta álögum af atvinnulífinu, því það þurfi svigrúm og ráðrúm til að komst út úr þessari dýfu efnahagslífsins sem ég vona að verði ekki langvinn? Meira að segja gengur hv. þm. lengra og talar um að það þurfi að hækka eigið fé þessara banka. Það þurfi meiri peninga frá fjárfestum en eiginlegt kaupverð bankanna verði.

Finnst hv. þm. það mjög skynsamlegt að ríkissjóður fari í þessa myljandi samkeppni við atvinnulífið, um fjárfestingarfé í landinu sem ég hygg, að sé af skornum skammti? Ég hygg ekkert að það sé, það er bara af skornum skammti. Það er annað í þessu samhengi, herra forseti, sem gerir það að verkum að það ber að sýna varkárni og varúð í þessum efnum.

Hlutabréfamarkaður og frjáls viðskipti á þeim vettvangi er nýjabrum á Íslandi. Íslendingar hafa að sumu leyti tekið býsna vel við sér og það er gott. Ekki ætla ég að deila á mikilvægi að almenningur láti sig varða að atvinnulífið gangi vel fyrir sig og einhverjir fjármunir séu til ráðstöfunar og leggi þá jafnvel sparifé sitt inn í slíka uppbyggingu. En auðvitað er ekki hægt að ræða þá hluti undir þessum formerkjum öðruvísi en að nefna að gífurleg vonbrigði hafa verið með ýmsa þætti þess máls. Það er ekkert launungarmál að margt það fólk sem taldi sig vera að gera rétt og gott með því að leggja fjármuni inn í hlutabréfamarkaðinn, kaupa þar hlutabréf, las um það í fjölmiðlum og sá það í sjónvarpi, heyrði landsfeðurna tala um að það væri fundið fé hjá stórgróðafyrirtæki að leggja sparifé inn í atvinnulífið, sérstaklega þó í eitt fyrirtæki sem allir vita hvert er. En svo kemur auðvitað á daginn að þetta er áhættubisness og margir horfa framan í þann veruleika núna.

[20:45]

Ég óttast og tel mig hafa rökstuddan grun um að það verði ekkert mjög auðvelt, ef vilji er til þess yfirleitt, að fá almenning til þess, ef eitthvert sparifé er til, að leggja af sínu sparifé til að kaupa hlut í þessum bönkum. Ég held að ýmsir hafi brennt sig á því og kannski var ástæðan sú að of bratt var farið. Það hefur stundum verið hér lenska á okkar eylandi að það er annaðhvort í ökkla eða eyra og í þessu samhengi varð hér til einhver vísir að hlutabréfamarkaði nánast á nokkrum mánuðum, eða kannski er eðlilegra að segja á nokkrum missirum í mesta lagi.

Ég hefði talið skynsamlegra að þessi markaður, sem er auðvitað mjög þunnt smurður, fengi ráðrúm og svigrúm til þess að slíta barnsskónum og jafna sig áður en ríkissjóður gengi hér fram með miklu offorsi og dældi fjárfestingarkostum inn á hann í tugmilljarða vís, einhvers staðar í kringum 60--70 milljarða. Mér finnst þetta ekki mjög skynsamlegt. Ég spyr því enn og aftur hv. þm. Vilhjálm Egilsson hvort félagar hans t.d. í Verslunarráði hafi ekki sett á hann síma og spurt um hvort það væri mjög skynsamlegt að ríkissjóður væri í þessari samkeppni um krónurnar og aurana sem til ráðstöfunar eru í fjárfestingu af þessum toga. Ég hef a.m.k. miklar efasemdir um það.

Í gær ræddu þingmenn um gengismál utan dagskrár og fór hæstv. forsrh. mikinn um það að allt hefði þetta nú gengið til baka og þetta svokallaða flökt í genginu hefði meira og minna verið tímabundið vandamál sem læknaðist af sjálfu sér.

Ég tók ekki þátt í þessari umræðu. En ég saknaði þess dálítið að lítið kom fram í henni um að vegna þessa svokallaða flökts í genginu og hvað sem því líður þá birtist það í þeim veruleika gagnvart hinum almenna borgara í landinu að hann borgar meira fyrir þá þjónustu sem hann kaupir. Ég gef ekkert fyrir sýndarsprikl olíufélaganna einhver dægur. En varðandi t.d. matvöruverð og ferðalög þá birtist þetta á hverjum einasta degi nú, 5, 6, 7%. Og er furða þó að launafólk í landinu, eins og verkafólk í mínum heimabæ, Hafnarfirði, segi við sig á slíkum stundum þegar það á að reyna að loka samningum með einhverjum þremur eða fjórum prósentum, að slíkt sé alger firra og algerlega fráleitt því hér er verðlag á hraðri uppleið. Ég velti því fyrir mér hvort þessi aðgerð muni sérstaklega verða til þess að auka þennan stöðugleika. Ég dreg það mjög í efa. Í fyrsta lagi held ég að hún verði hvorki til þess að auka stöðugleikann og draga úr þeirri bólgu verðs sem til staðar er og þaðan af síður verður hún sú vítamínsprauta fyrir atvinnulífð í landinu sem menn hafa nú mestar áhyggjur af þessa stundina og þessi dægrin, sumpart af eðlilegum ástæðum. En menn nota auðvitað ekki þessa peninga tvisvar. Ekki í þessu tilfelli. Og menn selja ekki heldur tvisvar. Það vil ég minna á, herra forseti, að þetta er aðgerð sem ekki verður tekin aftur. Þetta er ákvörðun sem menn endurmeta ekki að tveimur eða þremur árum liðnum. Það er af þeim ástæðum sem er svo nauðsynlegt að stíga hér varlega til jarðar og að menn sjái fram fyrir sig, viti hverjar afleiðingar þessara gjörða verða í lengd og bráð.

Það er kannski að nefna snöru í hengds manns húsi, ég veit það ekki, en kannski fær allt stjórnarliðið í heild og breidd gæsahúð eða hroll öllu heldur þegar Þjóðhagsstofnun er nefnd. En ég spyr hv. þm. Vilhjálm Egilsson hvort hann taki ekki í einu eða neinu mark á viðvörunum Þjóðhagsstofnunar í þessa veru um að óskynsamlegt sé að markaðssetja þessi verðmæti þjóðarinnar á þessum tíma. Er svarið e.t.v. að það eigi að leggja hana niður um áramót? Ég hugsa að ég biðji um efnislegt svar við þessu. Er Þjóðhagsstofnun á rangri leið í þessu eins og öðru þegar hún segir eitthvað sem passar ekki alveg við það sem stjórnarherrarnir með forsrh. í broddi fylkingar vilja halda fram? Er þetta enn önnur dellan hjá Þjóðhagsstofnun? Og er svarið bara það að við skulum leggja hana niður um áramót?

Herra forseti. Ég hef nú tæpt á örfáum atriðum í þessu máli og gæti svo sem farið miklum mun ítarlegar í ýmis þau atriði sem ég hef hér mjög haldið til haga einmitt við aðstæður sem þessar. Menn tala hér til að mynda mjög laust finnst mér um réttindi starfsfólks og mér finnst það afskaplega létt í vasa þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talar um að hann trúi því að nýir stjórnendur bankans muni fara af nærgætni með starfsfólkið. Hér liggur fyrir tölfræðilega að langstærstur hluti starfsfólksins eru konur. Það liggur líka fyrir að ákveðinn hluti þeirra eru traustir, gamlir starfsmenn sem hafa verið þar um langan tíma. Menn þekkja það auðvitað og vita og þurfa ekkert að láta öðruvísi að við aðstæður sem þessar er reynslan sú annars staðar, og raunar hér heima líka, að þar er fyrst borið niður. Menn hafa auðvitað bent á Íslandspóst í því samhengi.

Hafa menn engar áhyggjur af því, ekki síst í efnahagslægð, að erfiðara en ella geti nú verið fyrir þetta fólk að fá atvinnu við hæfi? Það er kannski ástæðulaust að vera að spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson að þessu. Hann segir að markaðurinn bara reddi því. Hann trúir því. En mig langar hins vegar að spyrja framsóknarmenn, félagshyggjuflokkinn Framsfl. ... (Gripið fram í: Félags hvað?) Félagshyggjuflokkinn, það stóð í stefnuskránni sem ég var að lesa áðan, flokkur félagshyggju og samvinnuhreyfingar, samvinnu og félagshyggju --- hvort hæstv. ráðherra hafi ekki áhyggjur af kynsystrum sínum sem gætu lent á götunni og þyrftu að leita sér vinnu á nýjum stað eftir áralanga þjónustu við þessar bankastofnanir. Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því eða hefur hún þegar sett í gang vinnu við það að bjóða upp á ný og betri störf? Því eins og ég sagði er reynslan auðvitað ólygnust í þessu sambandi og það liggur í augum uppi að þeir sem ætla að hámarka sína fjárfestingu ekki seinna en á morgun munu auðvitað ekki eira neinu þegar til kastanna kemur.

Herra forseti. Ég og við samfylkingarmenn og jafnaðarmenn, viljum nota markaðinn þar sem hann er nýtilegur til þess að lækka verð á þjónustu og bæta hana. Við viljum hins vegar gera það með varúð og gætni. Við gerum það ekki að okkar trúarbrögðum. Ekkert er algilt í þessu sambandi, hvorki til eða frá. Þess vegna teljum við að allra lengst verði gengið á þessu stigi máls með því að heimila með skilyrðum að setja minni bankann á markað, með skilyrðum, eftir að Seðlabanki og þessi stofnun sem ekki má nefna hér í þessum sölum, Þjóðhagsstofnun, er búin að leggja það mat hvort skynsamlegt sé að setja bréfin á sölu eður ei.

Í því samhengi er náttúrlega dásamlegt að heyra stjórnarliða ræða um þann þátt málsins. Þegar það hentar á að selja bréfin þegar verðið hvað hæst því þá græðir eigandinn. En svo hentaði það til að mynda hjá hæstv. samgrh. um daginn að líka væri heppilegt að selja þegar verðið væri lágt því þá gætu fleiri keypt og talaði hann þá um almenna borgara og almenning. Þetta rekst auðvitað hvað á annars horn í þessu samhengi. En svona er málflutningurinn. Tilgangur helgar einfaldlega meðalið. Þetta skal í gegn. Menn ætla að selja. Íhaldið er búið að hafa þetta á stefnuskrá í tíu ár og ekki er seinna vænna að ljúka verkefninu, klára málið. Menn vita það auðvitað af langri reynslu líka eftir samstarf við Framsfl. að hann lúffar þegar til kastanna kemur, hann gefur eftir. Það hefur tekið þá fjögur ár frá því þeir fengu hlutafélagavæðinguna í gegn að fá þá til að selja og framkvæmdin sjálf mun sennilega taka nokkra mánuði. Það er sem ég sjái næstu kosningar renna upp þegar hæstv. ráðherra og einn forustumaður Framsfl., Valgerður Sverrisdóttir, kemur heim í hérað og telur sér það helst til tekna að hafa selt Landsbankann og Búnaðarbankann fyrir slikk og að hafa staðið að því að selja Landssíma Íslands að meðtöldu dreifikerfinu, að meðtöldu þjóðvegakerfinu, fyrir slikk sömuleiðis. (Gripið fram í.) Það verða dásamlegar ræður sem verða haldnar þá þegar hæstv. ráðherra kemur og hælir sér af því að Framsfl. hafi komið þessu í gegnum ríkisstjórnina undir sínu forsæti. Auðvitað verður það ekki. Þetta verða endalausar afsakanir og vandræðagangur. En það verða vandamál Framsfl. en ekki mín.

Að lyktum þetta, herra forseti. Þetta mál er allt vanbúið og það er nánast móðgun við hið háa Alþingi að við ætlum að taka það hér inn með þessum hætti. Ég sagði það í upphafi ræðu minnar. Það var áður en hv. þm. Vilhjámur Egilsson kom hér, formaður efh.- og viðskn. Hann hefur einn setið hér vaktina af hálfu Sjálfstfl. Hann hefur hér einn reynt að ræða málið málefnalega. Hann hefur hér einn reynt að færa einhver rök fyrir þeim málatilbúnaði sem hér hefur verið hafður uppi. Að öðru leyti hefur Sjálfstfl. ekki sést hér í þessum sölum. (Gripið fram í: Pétur?) Ja, Pétur H. Blöndal, ég tel hann ekki með því að hann segir það mjög gjarnan hér að hann sé ekki hluti af þessum flokki og að hann tali alls ekki fyrir hönd hans. Hann er því ,,exclusive`` í þessu samhengi. Og af hálfu framsóknarmanna, sem er auðvitað orðin venja frekar en undantekning, náðist hæstv. ráðherra loksins til fundarins hér um tvöleytið og síðan korter yfir átta í kvöld og hefur komið í nokkur andsvör. Þetta segir það um þann málstað sem hér er varinn að samviskan er ekki góð. En þetta sýnir líka, herra forseti, og það skulu vera lokaorð mín að þessu sinni, enn og aftur það virðingarleysi sem er til staðar gagnvart þessari stofnun og er að verða algerlega óþolandi. Ég ætla ekki að skamma hæstv. ráðherrana. Það er kannski mannlegt eðli að þeir gangi eins langt og þeir geta til þess að draga að sér völd. En fyrirgefðu orðbragðið, herra forseti, aumingjagangurinn hér í almennum stjórnarliðum, þingmönnum, að láta það yfir sig ganga hér í hverju málinu á fætur öðru að vera stimpilpúði framkvæmdarvaldsins, að afgreiða hér mál með hraði, verða niðursoðnir í þingflokkunum og láta síðan málið renna í gegn þrautalaust. Það er orðið nöturlegt að fylgjast með stjórnarliðinu í þessu samhengi, það er nöturlegt, þessum 28 stjórnarliðum sem, eða eru þeir 26, sem ekki eru ráðherrar. En það þýðir víst ekkert að skammast hér við hv. þingmenn, herra forseti, því að þessir 26 eru ekki hér. Þeir eru ekkert hér. Hér eru tveir hv. þm. stjórnarliða, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hinir eru auðvitað ekkert hér. (BH: Ísólfur.) Ég vil nú ekki gleyma hæstv. forseta í þessu samhengi. Ég hef tröllatrú á því að hann komi inn í þessa umræðu þó síðar verði. Hann var vaskur hér í utandagskrárumræðu um gengis- og efnahagsmálin í gær og þarf örugglega að bæta einhverju við í því samhengi. Ég bíð þess að hann leggi hér orð í belg.

Þetta er að verða venja fremur en undantekning og segir heilmikið um þessa stofnun og það virðingarleysi sem allt of margir þingmenn sýna henni sem slíkri, en er auðvitað vörumerki þessarar ríkisstjórnar, þessarar helmingaskiptastjórnar íhalds og Framsóknar, þ.e. geðleysi og dugleysi þar sem ráðherravaldið er algert. Og auðvitað er það þannig að sumir ráðherrar ráða meiru en aðrir. Og þess vegna, herra forseti, hef ég þrátt fyrir allt eilitla samúð með hæstv. viðskrh. fyrir það hlutskipti að þurfa að reyna að verja þetta hér.