Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:05:15 (7416)

2001-05-10 21:05:15# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að það sé borð fyrir báru þegar hlutabréfamarkaðurinn og fjárfestingar á honum eru annars vegar og nefnir tölur því til sannindamerkis, 58 milljarðar ef ég hef tekið rétt eftir. Ég efast ekki um þær tölur eitt einasta andartak.

En ef þessir tveir bankar og Landssíminn fara á þennan markað, þá sé ég ekki betur en þeir éti upp alla fjárfestingu innan lands, verði hún í einhverju svipuðu samhengi á árinu 2001, þ.e. á 12 mánaða tímabili, og var hér allt árið 2000. Og það verði ekkert afgangs handa hinu almenna atvinnulífi.

Það var í því samhengi sem ég var að spyrja, því ég vænti þess að einhverjar fjárfestingar haldi áfram að renna út úr landinu, og ég gef mér að það hlutfall haldi. Og ég spyr þá: Hvað er eftir?

Herra forseti. Þingmaðurinn talar um að málið sé undirbúið og vandað. Það er svo vandað, herra forseti, að það getur enginn svarað því fyrir fullt og fast hvernig á að selja eða hvenær á að selja. Menn vita það eitt að verðið er lágt. Og ég ætla að vona að hv. þm. sé mér þá sammála um að líkur séu til þess að verðið verði talsvert lægra en það var hér fyrir einhverjum missirum. Og í því samhengi hvort skynsamlegt sé þá fyrir eigandann að setja öll bréfin á markað.

Mér fannst hv. þm. satt að segja undirstrika þær áhyggjur mínar sem ég lýsti í langri og ítarlegri ræðu. En hinu get ég seint verið hv. þingmanni sammála um að málið sé vandað. Hins vegar hefur það verið hér á ferðinni lengi og hefur lengi verið í hugum margra fóstbræðra hans og viljinn er til staðar. Hann hef ég aldrei dregið í efa.