Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:28:49 (7424)

2001-05-10 21:28:49# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja hér orð í belg öðruvísi en í andsvörum.

Fyrst virtist mér að hæstv. ráðherra misskildi eilítið þá stefnumörkun sem allir ræðumenn Samfylkingarinnar hafa talað fyrir. Samfylkingin var sannarlega á móti því að renna bönkunum saman og taldi það óskynsamlegt, nákvæmlega á sama grundvelli og það var úrskurðað ólögmætt af Samkeppnisstofnun.

Þess vegna er sú stefnumörkun Samfylkingarinnar eins og hún liggur fyrir í brtt., að selja eingöngu annan bankann að uppfylltum tilteknum skilyrðum, alveg í réttu samhengi við það. Um það þarf hæstv. ráðherra ekkert að velta vöngum öllu frekar. Þar er algerlega rétt og klárt samhengi á milli.

Í öðru lagi þetta. Mér þótti vænt um að hæstv. ráðherra tók undir hugmyndir í þá veru að atvinnulýðræði og þátttaka starfsmanna í stjórnum og ráðum í atvinnulífinu væri eitthvað sem koma skyldi. En það yrði bara einhvern tíma seinna. Ég kalla eftir því hvort ráðherrann hafi í hyggju að hafa frumkvæði að því í ráðuneyti sínu að breyta hlutafélagalögum í þá veru og hvenær það verður.

Á hinn bóginn hefði það verið heppilegt tækifæri einmitt núna af því menn hafa þá hefð í þeim stofnunum sem þarna um ræðir, sem einkaaðilar og ríkið hafa átt sameiginlega, að fulltrúi starfsmanna hefur átt þar sæti í stjórn, að vísu með takmörkuðum réttindum ef ég veit rétt. Þannig að þarna var tækifæri og er tækifæri enn þá ef brtt. okkar verður samþykkt.

Að lyktum þetta. Það er dálítið létt í vasa, herra forseti, þó að ég skilji það ósköp vel, að hæstv. ráðherra getur ekki frekar en nokkur annar fullyrt um það að vaxtamunur minnki, þjónustan batni og gott verð fáist. Það er auðvitað eðlileg krafa þegar verið er að tala fyrir jafnstóru og veigamiklu máli og hér um ræðir og fá samþykki löggjafarsamkundunnar, að ... (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem málið er ekki boðlegt.