Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:31:04 (7425)

2001-05-10 21:31:04# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:31]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sannfærð um það að hv. þm. hefði ekki talið rétt að koma með mál inn í þingið í hvert sinn sem ákveðið væri að selja hlut í ríkisbönkunum. Þetta hlýtur að þurfa að fara fram með því formi að ríkisstjórnin fái heimild til að selja hlut ríkisins í bönkunum og síðan fari það eftir aðstæðum, eftir aðstæðum á markaði m.a., hvernig farið er í verkið. Ég held að hv. þm. með alla þá reynslu sem hann hefur hljóti að geta verið sammála mér um þetta.

En þegar hann segir að ekki sé ósamræmi í málflutningi Samfylkingarinnar í sambandi við þetta þá er ég ósammála honum um það vegna þess að fyrir örfáum mánuðum var því haldið fram af hálfu Samfylkingarinnar að það væri rétt að selja bankana hvorn í sínu lagi. Og um það er ég er að biðja með þessu frv., að ríkisstjórnin fái að selja bankana hvorn í sínu lagi. (Gripið fram í.)

Þegar ákveðið var að fá Samkeppnisstofnun til þess að fara yfir það og gefa út álit um það hvort það stæðist ákvæði samkeppnislaga að sameina bankana þá var það líka alveg í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar. Ég held því að hv. þingmenn séu alltaf að reyna að finna einhvern ágreining í þessu máli sem er einfaldlega ekki til staðar.