Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:32:52 (7426)

2001-05-10 21:32:52# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort málskilningur sé annar í Eyjafirði en í Hafnarfirði. En hér er um það að tefla að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn vill selja bankana báða á sama tíma (Viðskrh.: Hvorn í sínu lagi.) en hvorn í sínu lagi sannarlega. Það sem Samfylkingin vill gera er að heimila að selja Búnaðarbankann með mjög ströngum skilyrðum, og þar skilur á milli. Og skilyrðin eru þau að hvernig og með hvaða hætti það er gert fari í gegnum síur á borð við hlutlægar sérfræðistofnanir okkar, á borð við Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands, en að pólitískur rétttrúnaður ráði þar ekki för.

Herra forseti. Ég spyr því að lokum: Sér hæstv. ráðherra þó það langt fram í tímann að hún muni leggja til 10% eða 15%, eða hve stór hluti, verður á næstu vikum settur á markað? Hún hlýtur þó að geta svarað okkur því. Verður það innan viku eða við skulum segja innan tveggja mánaða? Hversu stór hluti verður settur á markað? Hún hlýtur þó að vita það.