Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:36:33 (7429)

2001-05-10 21:36:33# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:36]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra upplýsir að skýrslan um stjórnunar- og eignatengsl verði lögð fyrir þingið í næstu viku. Þá er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt, og ég spyr um álit hæstv. ráðherra á því, að 3. umr. fari ekki fram fyrr en þessi skýrsla liggur fyrir, vegna þess að ég tel hana vera mikilvægt innlegg inn í þriðju og lokaumræðu þessa máls.

Hæstv. ráðherra vék ekki aukateknu orði að því hvernig ætti að ráðstafa andvirði bankanna. Ég spyr ráðherrann um það.

Ráðherrann nefndi að ráðstafa ætti hluta af þessu til byggðamála, síðast þegar við ræddum þessi mál. Hefur nokkuð breyst í því? Er ráðherrann enn þá sama sinnis og liggja fyrir einhverjar frekari ákvarðanir um það?

Í þriðja lagi er alveg ljóst að Framsfl. ætlar ekki að hafa fólk í fyrirrúmi þegar kemur að því að ræða um starfsmenn bankanna. Hér liggur fyrir í umsögn frá forsvarsmönnum starfsmanna, að þeir segja að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana sem gagnist starfsmönnum bankanna áður en bankarnir verða seldir frá ríkinu, en nokkurn fyrirvara þarf til að koma þeim ráðstöfunum í kring. Þar er m.a. nefnt að óskað er eftir því að ráðherrann beiti sér fyrir því að samið verði við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta. Er hún tilbúin að kalla til sín starfsmennina og ræða þær tillögur sem þeir hafa lagt hér fyrir efh.- og viðskn. í þessu máli? Er ráðherrann tilbúin að ræða við starfsmenn bankanna um meðákvörðunarrétt þeirra í stjórn bankanna þannig að þeir fái aðgang að stjórnum bankanna, rétt eins og gert var t.d. í Noregi? Þar var bankalöggjöfinni breytt en ekki hlutafélagalöggjöfinni. Ég spyr ráðherrann um það. Þetta er mjög brýnt mál sem ég tel að það þurfi að fara í áður en bankarnir verða seldir og ég spyr ráðherrann um það.