Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:38:46 (7430)

2001-05-10 21:38:46# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:38]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. gera óþarflega mikið úr tengslum þessarar skýrslu við frv. sem hér er til umfjöllunar þannig að ég sé ekki að ástæða sé til þess, þó að vel geti farið svo að möguleiki sé á því að bíða með 3. umr. þangað til þessi skýrsla er komin fram. Ég sé ekki þessi tengsl sem hv. þm. talar um að séu svo augljós að ástæða sé til þess að bíða eftir skýrslunni. En ég veit að hv. þm. hefur mikinn áhuga á að sjá hvað hún inniheldur.

Hvað varðar andvirði sölu bankanna þá hefur verið talað um upplýsingasamfélagið m.a., afmarkaða þætti samgöngumála og þá sérstaklega jarðgangagerð og byggðamál o.fl. Hins vegar legg ég líka mikla áherslu á að þetta fjármagn verði að einhverju leyti notað til þess að lækka skuldir. Ekki er nokkur vafi á því að það verður ekki vandasamt að koma þessu fjármagni þannig fyrir að það gagnist samfélaginu. Það er eitt sem er alveg öruggt.

Að fólk sé ekki í fyrirrúmi eins og hv. þm. hélt fram þá er nú í sambandi við þetta mál, eins og ég held að allir skilji, að ekki er hægt að selja þessi fyrirtæki með skilyrðum. Eins og kom fram í máli mínu áðan þá breytist staða starfsfólks ekki við það að ríkið selji sinn hlut í þessum fyrirtækjum. Ég held því að þetta sé á einhverjum misskilningi byggt hjá hv. þm. (Forseti hringir.)

Ég var búin að svara í sambandi við atvinnulýðræðið. Mér finnst það mjög spennandi umræða og er tilbúin til þess að taka þátt í henni hér eftir sem hingað til. En ég tel ekki ástæðu til þess að setja inn í frumvarpið ákvæði þess efnis nú sem stendur.