Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:41:07 (7431)

2001-05-10 21:41:07# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er samhengi milli þessarar skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl og málsins sem við ræðum eða hefur hæstv. ráðherra ekki hlustað á þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag, þar sem fram hafa komið verulegar áhyggjur hjá þingmönnum um fákeppni og markaðsráðandi stöðu í banka- og fjármálakerfinu? Auðvitað er það innlegg inn í þessa umræðu.

Varðandi starfsfólkið þá var ég að lesa hérna að starfsfólkið er að óska eftir því að ráðherra leiti samráðs við það og tali við það áður en bankarnir verða seldir. Ég er að spyrja hreinlega um það hvort ráðherrann sé tilbúin að beita sér fyrir því að ræða við starfsfólkið eins og það óskar eftir. Það óskar eftir því, og kom því á framfæri við efh.- og viðskn., að áður en bankarnir yrðu seldir yrðu þau mál skoðuð sem ég hef verið að lesa hér upp. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir því án allra skuldbindinga að fara í þessi samtöl og samráð við starfsfólkið.

Í lokin þetta: Megum við treysta því að hæstv. viðskrh. beiti sér fyrir því að (Forseti hringir.) leitað verði álits hjá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun áður en bankarnir verða seldir, leitað umsagnar um það hvort það sé í lagi út af stöðunni á markaðnum?