Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:23:18 (7440)

2001-05-10 22:23:18# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta frv. er lagt fram í tengslum við umræðu sem fram hefur farið um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum en lögð hefur verið áhersla á að tryggja sem dreifðasta eignaraðild að þeim fyrirtækjum sem ríkissjóður selur í hendur einkaaðila. Hverjir hafa lagt áherslu á þetta? Jú, það er ekki síst Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. Við höfum lagt fram frv. á Alþingi sem felur í sér tryggingu fyrir slíku. Samfylkingin hefur ekki lagt áherslu á að finna leiðir til að ná fram þessu markmiði og í orði kveðnu hafa ýmsir tekið undir þessi sjónarmið. Hæstv. forsrh. gerði það m.a. á sínum tíma. En síðan reyndist ekki mikil innstæða fyrir þeim áhuga og það frv. sem við lögðum fram, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég, um dreifða eignaraðild dagaði uppi í efh.- og viðskn. þingsins og hafði þá reyndar verið fordæmt af ýmsum aðilum í viðskiptum sem er lítið um það gefið að tryggja dreifða eignaraðild.

Þetta frv. sem hér er til umræðu gengur í rauninni ekki út að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum. Með frv. er hins vegar stefnt að því að auka eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum svokallaðra virkra eignarhluta í lánastofnunum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögunum. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði falið að kanna hæfi allra þeirra einstaklinga og lögaðila sem hafa í hyggju að eignast virka eignarhluti í þessum stofnunum hvort sem það eru lánastofnanir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eða vátryggingafélög.

Þetta frv. nær til eignarhalds í viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögum svo sem áður segir. Eignarhald á stórum hlutum verður hér eftir háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær til svonefndra virkra eignarhluta en í lögum hefur með því hugtaki verið átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis. Það viðmið sem við höfðum í okkar frv. á sínum tíma um dreifða eignaraðild var 8% hlutur.

Hvernig skal farið með þá aðila sem hyggjast komast yfir 10% hlut í stofnunum? Jú, þeir skulu sæta eftirliti. Það er nokkuð matskennt, enda gagnrýndu það margir á þeim forsendum. Ef um lögaðila er að ræða skulu eigendurnir eða lögaðilinn sjálfur, síðan stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóri og þeir einstaklingar og lögaðilar sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum ganga í gegnum nálarauga Fjármálaeftirlitsins. Þar skal skoðuð fjárhagsstaða umsækjenda, þekking og reynsla, hvort eignarhald umsækjenda skapi hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði, stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í, hvort ætla megi að eignarhald umsækjenda muni torvelda eftirlitið með hlutaðeigandi viðskiptabanka o.s.frv., hvort umsækjandi hafi gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgiskjölum, refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn. Hér er vitnað í 1. gr. laganna þar sem kveðið er á um til hvers eftirlitið skuli taka.

Á það hefur verið bent að 10% eignarhlutur í fjármálastofnunum sé svo hátt hlutfall að það mundi ekki taka til annarra aðila væntanlega en þeirra allra stærstu, lífeyrissjóða. Hér fyrr í dag við umræðu um einkavæðingu ríkisbankanna vísaði ég í fylgigögn með frv. þar sem er að finna skrá um núverandi eigendur Landsbankans og Búnaðarbankans, en stærstu eigendur fyrir utan ríkið voru allir með, ef ég man rétt, innan við 5--6% þannig að við erum hér að tala um að stórir eignaraðilar sæti eftirliti af þessu tagi.

Ég hef skrifað undir nefndarálit efh.- og viðskn. og styð þetta frv. í öllum megindráttum. Ég hef haft ákveðnar efasemdir um þá þróun sem er að verða í þjóðfélag okkar. Við markaðsvæðum starfsemi sem áður var á vegum opinberra aðila, í sífellt ríkari mæli markaðsvæðum við þessa starfsemi, en í staðinn blásum við upp eftirlitsbákn, eftirlitsnefndir og setjum lög og reglugerðir sem þær eiga að starfa samkvæmt til að hafa eftirlit með samfélaginu. Þannig var Landssíminn gerður að hlutafélagi en jafnframt var búin til eftirlitsstofnun með fyrirtækinu. Þetta er að gerast á öllum sviðum og þetta er sá iðnaður og sú starfsemi sem dafnar mest nú um stundir í þjóðfélagi okkar og reyndar víðar á Vesturlöndum þar sem svipuð þróun á sér stað.

Ég hef ákveðnar efasemdir um hversu góð og æskileg þessi þróun er. Ég set spurningarmerki við hið óhlutlæga og matskennda sem er að finna í þessum reglum og þessari eftirlitsstarfsemi eins og er að finna í ýmsum samsvarandi stofnunum og samsvarandi reglugerðarverki. En þar sem okkar frv. hefur ekki náð fram að ganga, hefur ekki fengið hljómgrunn hjá meiri hluta Alþingis, þá tel ég þó skömminni skárra fyrir eigendur þessara mikilvægu stofnana, fjármálastofnana landsins, að einhverjar tryggingar séu fyrir hendi af hálfu landsmanna og notenda þjónustunnar. Ég hef þó þessa fyrirvara og áðurnefndar spurningar vakna í mínum huga við þessa þróun. En ég mun þegar á heildina er litið engu að síður styðja þetta frv.