Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:32:12 (7441)

2001-05-10 22:32:12# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:32]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að freista þess enn einu sinni að fá svör við spurningum sem ég hef ítrekað borið fram til hæstv. viðskrh. Til vonar og vara beini ég spurningunni líka til hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gæti hlustað á mig, hæstv. forseti, þá þætti mér mjög vænt um það svo að ég þurfi ekki að endurtaka orð mín.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja þingmenn í hliðarsal að gefa hljóð.)

Hv. formaður efh.- og viðskn. er mættur í þingsalinn. Ég hef ítrekað borið fram spurningar til hæstv. viðskrh. Hér eru á ferðinni tvö þingmál sem mér finnst illa geta gengið saman. Ég get ekki séð að eðlilegt sé að hv. Alþingi afgreiði málin með þeim hætti sem til er ætlast.

Annars vegar er hér til umræðu frv. til breytinga á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Það gerir ráð fyrir að hægt sé að beita ýmsum aðferðum við að velja úr þá sem mega eignast stóra eignarhluti í fjármálafyrirtækjum, setja skilyrði og jafnvel hömlur á atkvæðisrétt þeirra og yfirráð í fyrirtækjunum sem um er að ræða.

Í hinu frv. --- ég óska eftir að verða leiðréttur ef ég fer rangt með --- er ekki gert ráð fyrir að sparisjóðirnir lúti þessum reglum. Í þingmálinu sem ég er að vísa til, um breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, er gert ráð fyrir að sparisjóðir geti orðið að hlutafélögum. Eftir að þeir eru orðnir að hlutafélögum geta fjárfestar keypt yfirráð í sparisjóðunum með því að eignast tiltölulega lítinn hlut í þeim. Ég get ekki fengið heim og saman að það gangi upp að setja ströng skilyrði fyrir eignarhlut í viðskiptabönkunum en láta síðan óátalið að menn geti keypt lítinn hlut í sparisjóðunum og ráði þeim alfarið í krafti þess litla eignarhlutar. Almennt séð finnst mér að hv. Alþingi hefði átt að taka sér drjúgum lengri tíma til að velta fyrir sér þeirri niðurstöðu sem hér er kominn hvað varðar sparisjóðna.

Ég vildi vekja athygli á þessu enn einu sinni og freista þess að fá fram svör og rökstuðning fyrir því að hvort tveggja geti gengið sem reglur á fjármálamarkaðnum. Sannarlega er um hliðstæðar fjármálastofnanir að ræða og málið snýst ekki bara um sparisjóði. Menn eru líka að tala um tryggingafélög svo dæmi sé tekið. Mér finnst satt að segja að hv. Alþingi geti illa sent frá sér þessi tvö mál sama daginn og látið svo mismunandi reglur gilda um sambærilegar stofnanir.