Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:39:04 (7443)

2001-05-10 22:39:04# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. tókst ekki að sannfæra mig. Í fyrsta lagi geta sparisjóðir stækkað. Sumir þeirra eru orðnir býsna myndarlegir. Þeir geta sameinast og orðið sambærilegir við ýmsa banka sem við munum að hafa verið starfræktir. Ég tel að jafnvel þó að um einhvern stærðarmun sé að ræða þá sé illa boðlegt að láta mismunandi reglur gilda hvað þetta varðar þegar um er að ræða sambærilegar stofnanir. Tryggingafélög sem hér eiga í hlut eru væntanlega ekki öll svo afskaplega stór. Þau eiga samt að falla undir þessar reglur.

Ég tel að það síðasta sem hv. þm. nefndi sem rök í málinu sé það sem stendur í veginum, þ.e. sagan. Sparisjóðirnir urðu einfaldlega til með ákveðnu fyrirkomulagi og menn sitja uppi með það. Hins vegar á að hlaupa til á miklum hraða og gefa þeim möguleika á að verða að hlutafélögum með þeim eindæmum sem ráð er fyrir gert, að menn geti í krafti þess að eiga 1--2% í sparisjóðnum haft fullkomin yfirráð í þeim og ráðið hverjir verða valdir til að stjórna sjálfseignarstofnuninni og ráða öllu í viðkomandi fyrirtæki.

Hv. þm. veit að þetta er svona. Þær reglur sem hér er verið að tala um, annars vegar fyrir sparisjóði og hins vegar fyrir viðskiptabanka, eru aldeilis engan veginn sambærilegar.