Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:41:04 (7444)

2001-05-10 22:41:04# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:41]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. tekur réttilega fram að viðskiptabankar og sparisjóðir starfi á sama markaði. Að því leyti er starfsemi þeirra sambærileg. Uppbygging sparisjóðanna annars vegar og viðskiptabankanna hins vegar hefur verið ólík. Í sjálfu sér breytist ekkert hjá sparisjóðunum að því leyti að þeir hafa hingað til getað verið undir stjórn fárra aðila sem hafa ekki bara ráðið því hverjir yrðu stofnfjáreigendur heldur hafa líka fáir aðilar forustu fyrir uppbyggingu sjóðanna. Það er athyglisvert að þeir aðilar, sem hafa í mörgum tilfellum ekki verið svo rosalega margir, hafa með starfsemi sinni byggt upp býsna öflug fyrirtæki án þess að hafa meira tilkall til eigin fjár eða afraksturs af starfseminni en sem nemur þeim stofnhlut sem þeir lögðu til í upphafi.

Ég verð að segja að ég tel ekki neina sérstaka ástæðu til að refsa þessum einstaklingum fyrir þann dugnað og framsýni sem þeir hafa sýnt í rekstri þessara fyrirtækja.