Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 22:51:18 (7447)

2001-05-10 22:51:18# 126. lþ. 119.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[22:51]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig satt að segja ekki vel á ræðu hv. þm. hér áðan. Það er eins og hann hafi byrjað á að lesa frv. og séð fyrirsögnina og síðan orðið eitthvað svo vondur í skapinu að það hafi allt runnið saman, bæði texti frv. og að maður tali nú ekki um brtt. nefndarinnar.

Aðalatriðið í störfum nefndarinnar þegar hún fjallaði um þetta mál var að velta því fyrir sér hvernig reglur um þessi atriði hér á landi gætu orðið sambærilegar við það sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar og sérstaklega þeim sem hafa byggt upp alþjóðlegar fjármálastofnanir og alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar. Þá vísa ég t.d. til Bretlands eða Lúxemborgar. M.a. var stuðst sérstaklega við reynslu þeirra íslensku aðila sem hafa gengið í gegnum það að sækja um starfsleyfi og fá samþykktan virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum í Lúxemborg eða Bretlandi.

Því væri athyglisvert ef hv. þm. gæti skýrt það út hvernig þessum stöðum, t.d. Lúxemborg eða London, hefur tekist að byggja upp þessar miklu alþjóðlegu fjármálamiðstöðvar þrátt fyrir það að búa við töluvert strangari löggjöf en verið er að tala um hér.